Ályktanir 18. Aðalfundar 17.-18. október 2002 - Landssamband smábátaeigenda

Ályktanir 18. Aðalfundar 17.-18. október 2002


Aðalályktun

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri þróun sem átt hefur sér stað með samdrætti í veiðum smábátaflotans. Afli hans hefur ekki verið minni á síðustu fimm fiskveiðiárum og á árinu 2002 hélt smábátum áfram að fækka, ellefta árið í röð.

Þessi þróun er ekki aðeins áhyggju- og umhugsunarefni smábátaeigenda. Þær fjölmörgu strandbyggðir sem á undanförnum árum hafa eygt von í þeim tækifærum sem smábátaútgerðin hefur boðið upp á eiga sér fátt til varnar. Tilvera þeirra var í upphafi grundvölluð á nálægð við fiskimiðin og smábátarnir, sem nýtt hafa þessi mið, hafa orðið fyrir svo veigamiklum búsifjum í veiðiheimildum að rekstrarumhverfi þeirra hefur í mörgum tilfellum verið umturnað.

Við þessar aðstæður er nauðsyn að geta þess sem vel er gert og fagnar fundurinn þeim breytingum sem sjávarútvegsráðherra gerði á dagakerfinu. Enn stendur þó útaf að þeir sem í því vinna hafa enga tryggingu gegn því að einingarnar reiknist á nokkrum árum niður í ekki neitt. LS skorar á stjórnvöld að verða við þeim hófværu kröfum sem settar hafa verið fram um þetta efni.

Samdráttur í veiðum smábátaflotans er algert öfugmæli í ljósi þess hvað stjórnvöld greyptu í lagastafi um fiskveiðistjórnunina, markmiðin um traustra byggð og atvinnu. Samdrátturinn er ekki síður öfugmæli í ljósi þeirra markmiða sem stjórnvöld hafa kvittað fyrir á alþjóðlegum vettvangi. Þar ber hæst Rio-ráðstefnan 1992 en hún braut blað í umhverfismálum með ítarlegri verklýsingu á framkvæmd sjálfbærrar þróunar í framtíðinni. Þar er fjallað um hlutverk smábátaveiða og lítilla strandveiðisamfélaga og m.a. skýlaus tilmæli til stjórnvalda um að efla smábátaveiðar og taka ríkt tillit til staðbundinnar þekkingar og hagsmuna strandveiðisamfélaga.

Í ljósi þessa eiga stjórnvöld aðeins þann kostinn að snúa framangreindri þróun við hið snarasta og færa smábátaútgerðinni og strandbyggðunum slík tækifæri að þeim sé kleift að þrífast og dafna af nálægð við fiskimiðin. Í þessu sambandi er hægast um vik að fella inn í fiskveiðilögin ákvæði sem hvetja til notkunar umhverfisvænna veiðarfæra. Krafa LS er að þessari aðferð verði fyrst um sinn beitt á línuveiðar dagróðrabáta.

Í árafjöld hefur LS gagnrýnt Hafrannsóknastofnun harðlega fyrir aðgerða-leysi hennar á því sviði að rannsaka áhrif veiðarfæra á umhverfinu í hafinu. Til að koma þessu mikilvæga máli á hreyfingu vill LS því bjóða Hafrannsóknastofnun samstarf um átak til að hefja tökur ljós- eða hreyfimynda af hafsbotninum við Íslandsstrendur og þá sérstaklega þar sem vitað er af viðkvæmum búsvæðum. Með þessu móti er unnt að fá samanburð á ósnortnum slíkum svæðum og þeim sem beitt hafa verið stórvirkum botndregnum veiðarfærum.

Með eflingu smábátaflotans eru efldar þær nýtingaaðferðir sem minnstu raska í umhverfi fiskanna. Með eflingu smábátaflotans er strandveiðisamfélögunum gefin von og með eflingu smábátaflotans er unnið að markmiðum fiskveiðilaganna og alþjóðlegra samþykkta íslenskra stjórnvalda.

Mikilvægi smábátaútgerðarinnar

 • Aðalfundur LS bendir á mikilvægi smábátaútgerðar með tilliti til atvinnu og búsetuþróunar á landsbyggðinni.

dagar

Aðalfundur LS

 • telur að enn og aftur skuli aðalkrafan vera, eins og jafnan áður, frjálsar handfæraveiðar. Slíkar veiðar séu umhverfisvænar og geti aldrei með neinum hætti haft hin minnstu áhrif á viðgang neinna fiskistofna og ættu því ekki að vera háðar neinum takmörkunum.
  Þangað til stjórnvöld bera gæfu til að sjá þessa skynsamlegu og sjálfsögðu tilhögun krefst fundurinn þess að sett verði gólf í dagakerfið við 23 daga mældir í klukkustundum miðað við 180.000 tonna hámarksafla í þorski og fjölgi við aukna aflaúthlutun.
 • krefst þess að hægt verði að flytja 20% af dögum dagabáta milli ára og veiðitímabilið verði allt árið.
 • krefst þess að nýtingarstuðullinn verði afnuminn af dagabátum.
 • hvetur félagsmenn til að standa vörð um að leikreglur séu virtar.

Krókaaflamark

Aðalfundur LS

 • skorar á stjórnvöld að taka upp línuívilnun hjá dagróðrarbátum þar sem beitt er eða stokkað upp í landi. Við löndun yrði 80% aflans færð til kvóta. Með línuívilnun mundu stjórnvöld stíga mikilvægt skref í átt til virkrar veiðarfærastýringar við nýtingu auðlindarinnar.
 • leggur til að dagróðrarbátum verði heimilt að veiða steinbít á línu í hrygningarstoppi. Jafnframt er bent á að hrygningarstopp ætti ekki að eiga við um báta sem stunda veiðar með línu og handfærum.

Aflamark

Aðalfundur LS

 • skorar á stjórnvöld að tekin verði upp línuívilnun hjá dagróðrarbátum þannig að 80% af þorskafla teljist til kvóta en 50% í öðrum tegundum.
 • hvetur til að jöfnunarsjóði verði úthlutað varanlega.
 • leggur til að svigrúm verði veitt til allt að 100 kg umframafla í karfa, löngu, keilu, kola og steinbít án þess að til sekta komi.
 • mælir með að línubátar minni en 15 metrar fái að róa eftir steinbít í Faxaflóa og Breiðafirði í hrygningarstoppi þorsks. Veiðisvæði verði valin í samráði við Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa hafi eftirlit með veiðum.

Málefni grásleppuveiðimanna

 1. Veiðitími allra veiðisvæða skal vera 90 dagar nema annað sé tekið fram.
 2. Upphafstími hvers veiðisvæðis skal vera eftirfarandi:
  1. 1. apríl
  2. 20. apríl og 10. maí á innra svæði
  3. 10. apríl og 20. apríl á innanverðu Ísafjarðardjúpi
  4. 1. apríl
  5. 20. mars
  6. 20. mars sunnan línu réttvísandi austur frá Svartanesi og 30. mars fyrir norðan þá línu. Veiðitímabili á öllu svæði ljúki á sama tíma.
  7. 20. mars og 20. apríl
   1. Aðalfundur LS krefst þess að Fiskistofa framfylgi lögum og komi í veg fyrir að aðrir en þeir sem hafa grásleppuleyfi og stundi grásleppuveiðar, landi grásleppu eða grásleppuhrognum utan veiðitíma.

   Rannsóknir á virkni veiðarfæra

   Aðalfundur LS

   • ítrekar enn og aftur fyrri ályktanir um að ekki megi lengur dragast að rannsaka virkni veiðarfæra, eins og Alþingi hefur reyndar lagt til líka. Ekki sé lengur við það unandi að ekki sé gert upp á milli veiðarfæra við veiðiráðgjöf og þann útúrsnúning fiskifræðinga að einu gildi hvernig dauður fiskur hafi verið drepinn. Mikill munur hljóti að vera á því t.d. hvort fiskur sé veiddur á handfærakrók, án þess að skaða umhverfið hið allra minnsta, hvað þá heldur að hafa minnstu áhrif á viðgang fiskistofna, eða þá á nýtísku togara með nokkur þúsund hestafla vélar, dragandi á eftir sér jafnvel tvö ?súpertroll? í einu, eyðileggjandi umhverfið stórkostlega, samanber kóralsvæði við Noreg og ekki síður við Ísland. Auk þess að ógna öllu öðru lífríki sjávarins, eins og bitur reynsla sýni.

   Hrygingarstopp

   Aðalfundur LS

   • samþykkir að beina því til stjórnvalda að krókaveiðar allt í kringum landið verði undanþegnar hrygningarstoppi.

   Lokun veiðisvæða

   Aðalfundur LS

   • skorar á stjórnvöld að heimila ekki togveiðar á svæði út af Faxaflóa sem að sunnan markast af línu sem dregin er réttvísandi 270° frá Stafnesvita og að vestan markist af 23°42´V og að norðan af 64°20'N. Jafnframt verði undantekningalaust allar bolfiskveiðar í botnvörpu bannaðar innan 4 mílna línunnar út af Breiðafirði og að alvarlega verði skoðað hvort réttlætanlegt er að vera með botnvörpu á svæðum sem lokuð eru fyrir línuveiðum. Einnig að 1. júní opnunin fyrir rækjubátana inn eftir álnum í Breiðafirði verði endanlega felld í burtu, algerlega óháð öllum mælingum.
   • skorar á sjávarútvegsráðherra að hann beiti sér fyrir því að loðnuveiðar verði bannaðar í Breiðafirði innan línu sem dregin er úr Skálasnagavita í Látrabjarg.

   Skjól fyrir ungviðið

   Til að fjölga stöðum sem eru skjól fyrir uppvaxandi ungviði, mælir fundurinn með að heimilað verði að sökkva ónýtum skipum á uppvaxtarsvæðin.

   Stjórnun fiskveiða

   Aðalfundur LS

   • krefst þess að snúið verði aftur til fyrra kerfis, þorskaflahámarks, svo hefja megi að nýju uppbyggingu í strandbyggðum landsins.
    Fundurinn bendir á að kvótasetning smábáta hefur haft mjög neikvæð áhrif á strandbyggðir landsins og hefur sýnt sig að vera óþörf aðgerð. Ýsustofninn er á hraðri uppleið og ráðherra gaf út reglugerð um að steinbítsveiðar yrðu frjálsar. Kvótasetning vinnur gegn markmiðum fiskveiðistjórnunarlaganna sem eru að byggja upp atvinnu og treysta byggð í landinu.
    Til vara hefur fundurinn samþykkt að skora á stjórnvöld að taka upp línuívilnun hjá dagróðrarbátum þar sem beitt er eða stokkað upp í landi. Við löndum yrði 80% aflans í þorski færð til kvóta, en 50% í öðrum tegundum. Með línuívilnun mundu stjórnvöld stíga mikilvægt skref í átt til virkrar veiðarfærastýringar við nýtingu auðlindarinnar.
   • lýsir áhyggjum vegna stóraukinnar notkunar flottrolls við síld- og kolmunnaveiðar. Það sjá allir sem þora að vera heiðarlegir að þessi stóru troll sem dregin eru heilu og hálfu sólarhringana, veiða ýmislegt annað en síld og kolmunna.
    Það er undarlegt meðan stjórnendur fiskveiða á Íslandi telja sig vera að byggja upp fiskistofna, fái þessar veiðar að viðgangast athugasemdalaust. Allir þeir sem gætu breytt þessu brjálæði, loka augunum og þykjast ekkert vita. Þetta má ekki einu sinni ræða.
    Fundurinn krefst þess að allar flottrollsveiðar innan 50 mílna verði bannaðar þangað til sannað verði opinberlega með rökum að ekki séu árlega tugir eða hundruð tonna af þorskseiðum og fleiri tegundum fiska sett í bræðslu eða dælt hökkuðu í sjóinn.
    Þetta þolir enga bið.

   Dragnótaveiðar

   Aðalfundur LS

   • leggur til að endurskoðaðar verði reglur um dragnótaveiðar m.t.t. breytinga sem orðið hafa á veiðarfærinu, stærð skipa sem stunda veiðarnar, veiðisvæða m.t.t. fjarlægðar frá landi og samsetningu afla þegar tekið er mið af því að dragnótaveiðar voru leyfðar á nýjan leik til að nýta flatfiskinn. Það er vilji fundarins að dragnótabátar 15 m og lengri lúti sömu reglum um veiðisvæði og togarar.
   • mótmælir harðlega öllum undanþágum á dragnótaveiðar í Eyjafirði sem hafa átt sér stað nú í haust. Það er með öllu óþolandi að einstök fyrirtæki geti með einu símtali við ráðuneytið fengið undanþágur til veiða fyrir sig á þennan hátt, þótt það eigi að heita veiðar til áframeldis á þorski.
    Smábátafélagið Klettur barðist áralangri baráttu fyrir því að fá bann við dragnótaveiðum í innanverðum firðinum, sem tókst á endanum. Það er lágmark að það sé virt.

   Lífeyrissjóður sjómanna

   Aðalfundur LS

   • skorar á stjórnvöld að veita fé til Lífeyrissjóðs sjómanna þannig að sjóðurinn geti greitt lífeyri til sjómanna frá 60 ára aldri.
    Á móti falli Lífeyrissjóður sjómanna frá öllum kröfum á hendur ríkinu vegna vanefnda þess til bóta við breytingar á lögum sjóðsins sem leiddu til aukinna skuldbindingar án innistæðu.

   Fiskmarkaðir

   Aðalfundur LS

   • lýsir áhyggjum af þróun eignarhalds á íslenskum fiskmörkuðum og telur eðlilegt að löggjöfin festi í sessi leikreglur sem tryggja hlutlaust umhverfi þessa mikilvæga þáttar í verðmyndun sjávarfangs.

   Hvalveiðar

   Aðalfundur LS

   • telur að hefja skuli hvalveiðar nú þegar, enda sýni rannsóknir að hægt sé að stunda þær sjálfbærar.

   Sjálfvirka tilkynningaskyldan

   Aðalfundur LS

   • ályktar að haldið verði áfram að bæta STK kerfið og þjónustu tækjanna verði komið í viðunandi horf, menn verða að geta treyst þeim tækjum sem skylt er að hafa.

   Hætt verði að úthluta skipstjórakvóta

   Aðalfundur LS

   • krefst þess að nú þegar verði hætt að úthluta skipstjórakvóta þar sem öll rök fyrir þessari úthlutun eru brostin og skipstjórarnir komnir í land.

   Einkahlutafélög

   Aðalfundur LS

   • leggur til að menn geti breytt sínum rekstri yfir í einkahlutafélög þó eigendur séu fleiri en einn og sé ekki gert það ómögulegt með sköttum á söluhagnað, þar sem enginn söluhagnaður er heldur aðeins breyting á rekstrarformi.

   Grunnskólar kenni veiðar og veiðarfæragerð

   Aðalfundur LS

   • skorar á LS að beita sér fyrir að komið verði á kennslu í grunnskólum í veiðum og veiðarfæragerð.

   Fyrirhugaðri hækkun aflagjalds mótmælt

   Aðalfundur LS

   • varar við þeirri hugmynd stjórnvalda að hækka aflagjald um 100%. Fundurinn bendir á að þær breytingar sem orðið hafa á nýtingu á samgöngumannvirkjum á umliðnum árum verði fyrst skoðaðar áður en ákveðið verður að gjaldsetja eina atvinnugrein umfram aðra í þessum efnum. Einnig mótmælir fundurinn auknum gjaldtökum á smábátaútgerð.

   Óvarið blý við handfæraveiðar

   Landssamband smábátaeigenda ítrekar fyrri samþykktir aðalfunda þess eðlis að félagsmenn hætti að nota óvarið blý við handfæraveiðar. Skal að því stefnt að óvarið blý hverfi úr notkun við handfæraveiðar innan þriggja ára.

   Greinargerð: Þrátt fyrir að enn hafi ekki mælst blýmengun á Íslandsmiðum sem rakin verður til fiskveiða er það í hugum margra og ekki síst veiðimannanna sjálfra til vansa að óvarið blý sé skilið eftir í umtalsverðu magni vegna tapaðra veiðarfæra. Fram eru komnar lausnir í þessum efnum og líklegt að sá verðmunur sem er í dag á hinum nýju sökkum og óvarinna blýsakka muni að mestu hverfa við aukna framleiðslu. Umhverfisráðuneytið hefur fundað með LS vegna málsins og lagði þar fast að félaginu að stefna að því að innan fárra ára verði notkun óvarins blýs hætt við handfæraveiðar.

   Úthlutun þorskkvóta til áframeldis mótmælt

   Aðalfundur LS

   • mótmælir harðlega úthlutun á þorskkvóta til áframeldis. Stór hluti þessarar úthlutunar fer til kvótasterkustu fyrirtækja landsins og væri því eðlilegt að fyrirtækin leggðu sjálf til veiðiheimildir við eigin tilraunastarfsemi, en þær ekki teknar af heildarúthlutun.

   Veðurdufl og veðurstöðvar

   Aðalfundur LS

   • leggur til að komið verði fyrir veðurdufli við vestanvert Snæfellsnes (nánar tiltekið vestur af Skálasnagavita við Öndverðarnes) og veðurstöðvum á Reynisfjalli eða Dyrhólaey og á Glettingi.

   Nefndir kosnar á aðalfundi:

   Grásleppunefnd LS 2002 ? 2003:

   Eðvald Daníelsson, Hvammstanga

   Einar Sigurðsson, Raufarhöfn

   Hallgrímur Guðfinnsson, Selfossi

   Jón Trausti Jónsson, Reykjavík

   Júlíus Bessason, Húsavík

   daganefnd LS 2002 ? 2003:

   Árni Jón Sigurðsson, Seyðisfirði

   Bæring Gunnarsson, Bolungarvík

   Friðþjófur Jóhannsson, Reykjavík

   Hafþór Jónsson, Patreksfirði

   Svavar Gunnþórsson, Grenivík

   Stjórn Landssambands smábátaeigenda 2002-2003

   Arthur Bogason formaður, Reykjavík

   Bergur Garðarsson varaformaðu, Akranesi

   Guðmundur Lúðvíksson, Akureyri

   Gunnar Ari Harðarson, Grindavík

   Gunnar Hjaltason, Reyðarfirði

   Gunnar Pálmason, Garðabæ

   Hilmar Zophaniasson, Siglufirði

   Hjörleifur Guðmundsson, Patreksfirði

   Ingólfur Andrésson, Drangsnesi

   Jóel Andersen, Vestmannaeyjum

   Ketill Elíasson, Bolungarvík

   Skarphéðinn Árnason, Akranesi

   Sæmundur Ólason, Grímsey

   Unnsteinn Guðmundsson, Höfn

   Þorvaldur Garðarsson, Þorlákshöfn

   Þorvaldur Gunnlaugsson, Kópavogi

   Áheyrnarfulltrúar

   Björn Guðjónsson, Reykjavík

   Rögnvaldur Einarsson, Akranesi

   Félagslegir endurskoðendur

   Einar Jónsson, Akranesi

   Símon Sturluson, Stykkishólmi

 

efnisyfirlit síðunnar

...