Línuívilnun skref í átt að vistvænni fiskveiðistjórnun - Landssamband smábátaeigenda

Línuívilnun skref í átt að vistvænni fiskveiðistjórnun


Í dag birtist í Fréttablaðinu grein eftir Örn Pálsson undir fyrirsögninni:
„Línuívilnun skref í átt að vistvænni fiskveiðistjórnun“.

Í Fréttablaðinu 11. september sl. birtist grein eftir framkvæmdastjóra LÍÚ sem hann nefnir „Er tími loddaranna ekki liðinn?“ Eins og títt er úr þeim ranni er hreytt orðum í þá sem eru annarrar skoðunar. Fyrir barðinu verða auk trillukarlanna, hluti alþingismanna og meirihluti þeirra sem sátu landsfund Sjálfstæðisflokksins. Landsfundarfulltrúarnir samþykktu tillögu um línuívilnun til dagróðrabáta og „loddararnir“ ætla sér að fá hana samþykkta sem lög frá Alþingi.

Í greininni getur framkvæmdastjóri LÍÚ um mótsögn í tillögum landssfundar Sjálfstæðisflokksins. Þar gerir hann því skóna að fulltrúar landsfundarins af Snæfellsnesi sem samþykktu tillöguna hafi ekki vitað hvað þeir voru að samþykkja.

Sá hópur sem framkvæmdastjórinn tekur hér á beinið er eftir því sem ég þekki best til, upplýst fólk sem ég fullyrði að vissi hvað það var að samþykkja.
• Það vissi að línuívilnun mundi styrkja hinar dreifðu byggðir, með auknum umsvifum, aukinni atvinnu, meiri tekjum.
• Það vissi að línuívilnun mundi auka vægi umhverfisvænna veiða sem skilar komandi kynslóðum betra lífsviðurværi í formi gjöfullra fiskimiða.
• Það vissi að línuívilnun mundi skila ferskara hráefni til vinnslu og þar með bestu möguleikum á hágæðavinnslu þess.
• Það vissi að línuívilnun mundi skila hærra útflutningsverðmæti á hvert kíló sem tekið væri úr auðlindinni.
Auk Snæfellinganna vissi meirihlutinn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þetta líka.

Í dag fylgist sá hópur sem samþykkti tillögu Guðmundar Halldórssonar um línuívilnun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins með fulltrúum flokksins á Alþingi. Hann hlýtur að ætlast til þess að samþykktin verði fest í lög og komi til framkvæmda sem fyrst. Þeir sem verða undir á landsfundi verða einfaldlega að sætta sig við það, en ekki að hreyta í flokkssystkini sín.
Í flestum málum sem stjórnarflokkarnir leggja fyrir Alþingi gerist það að stjórnarandstaðan leggst gegn þeim. Línuívilnun er ekki eitt þessara málefna, allir flokkar sem nú sitja á Alþingi hafa lýst velvilja til hennar og ríkisstjórnin hefur skráð hana í stjórnarsáttmálann. Það er því engin fyrirstaða að hún komi til framkvæmda í haust eins og forsætiráðherra benti réttilega á á Ísafirði 22. apríl sl.

Örn Pálsson framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

...