Munu orð standa? - Landssamband smábátaeigenda

Munu orð standa?


Í dag birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson, undir fyrirsögninni „Munu orð standa?“.

Á sunnudaginn verður haldinn í íþróttahúsinu á Ísafirði fundur sem mun að öllum líkindum snúast um ábyrgð alþingismanna gagnvart kjósendum. Ábyrgðin snýr að málflutningi þeirra í kosningabaráttunni, hverju var lofað og hvort ætlunin sé að standa við loforðin.

Í þessu tilfelli snýst málefnið um línuívilnun til dagróðrarbáta. Báðir stjórnarflokkarnir höfðu gert samþykktir um málefnið fyrir kosningar og því kom það ekki á óvart að það skyldi sett inn í stjórnarsáttmálann. Flestir bjuggust því við að línuívilnun yrði samþykkt strax og þing kæmi saman 1. október og ekki síst þar sem forsætisráðherra hafði gefið afar greinargóð svör um það á fundi á Ísafirði 22. apríl. Hann „sagði línuívilnun dagróðrarbáta koma til framkvæmda í haust ef allt gengi eftir enda hafi hún verið samþykkt á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðisflokksins og hann vissi ekki til þess að aðrir flokkar hefðu sett sig á móti þessari tillögu” (RÚV 23. apríl)

Óvænt útspil sjávarútvegsráðherra varð til þess að málið tók skyndilega aðra stefnu. Hann lýsti því yfir að hann hygðist afnema byggðakvótann og koma á línuívilnun í staðinn. Formaður Framsóknarflokksins sagði hugmyndir um afnám byggðakvóta ekki hafa verið bornar undir ríkisstjórn og sagði að aldrei hefði verið rætt um þann möguleika að afnema byggðakvótann. Það stendur í stjórnarsáttmála að það eigi að athuga möguleika á því að auka hann. (Fréttab. 10. júlí)

Fylgismenn línuívilnunar sáu þá að það var ekki ætlun
sjávarútvegsráðherra að koma á línuívilnun í haust eins og lofað var. Hann birtist í sunnudagsviðtali í Morgunblaðinu og sagði: „Ég hef ekkert svikið”. Því miður var ekki rætt um ábyrgð hans gagnvart þeim málflutningi sem sumir flokksbræðra hans sögðu að hefði trúlega tryggt meirihluta stjórnarflokkanna. Er það miður að ráðherrann hafi ekki verið spurður um slíkt, þar sem kveðið er skýrt á um málefnið í stjórnarsáttmálanum.

Mál hafa nú þróast svo að Elding – félag smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum – hefur haft forystu um að efna til fundar um málefnið á Ísafirði eins og áður hefur komið fram.
Yfirskrift fundarins er „Orð skulu standa“.

Þar skýra væntanlega þingmenn ríkisstjórnarflokkanna afstöðu sína gagnvart útspili sjávarútvegsráðherra. Þeir lofuðu en hann ekki. Ef þeir efna þá svíkur hstv. sjávarútvegsráðherra heldur engan. Hann væri að framfylgja samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Hvað það er sem rekur sjávarútvegsráðherra inn á þessa hliðargötu skal ósagt látið en það er von mín að hann komi aftur inn á aðalgötuna og fylgi henni í þessu máli svo samþykkt Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar sem hann er aðili að nái fram að ganga.

Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

...