Aðalályktun 2003 - Landssamband smábátaeigenda

Aðalályktun 2003


Sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir breyttum tímum. Umhverfisskilyrði í hafinu eru mjög að breytast og ekki einsýnt hvort það verður fiskveiðunum til framdráttar. Á sama tíma er samkeppnisstaða á helstu sölumörkuðum að gjörbreytast í kjölfar „innrásar” unninna fiskafurða frá Asíu.

Þessu til viðbótar hafa sviftingar í íslensku viðskiptalífi síðasta misserið opnað augu margra fyrir þeim áhrifum sem fiskveiðistjórnunarkerfið getur haft á atvinnuöryggi og efnahag einstakra byggðalaga. Fundurinn treystir því að skilningur hafi nú dýpkað hjá íbúum stærri byggðakjarna á málflutningi smábátaeigenda og íbúa hinna minni strandbyggða, sem í hart nær tvo áratugi hafa bent á það mikla óöryggi sem þeir hafa búið við hvað varðar nýtingarrétt til fiskimiðanna.

Í aðdraganda Alþingiskosninganna 10. maí fór mikið fyrir málefnum smábátaeigenda og lýstu allir stjórnmálaflokkar velvilja í þeirra garð. Fyrir kosningarnar kom skýrt fram, að héldi ríkisstjórnin velli yrði ívilnandi ákvæðum fyrir dagróðrabáta með fiskilínu hrint í framkvæmd, þegar á þessu hausti. Aðrar tímasetningar voru aldrei nefndar.

Andstæðingar málsins hafa, eftir kosningar, heimtað að ríkisstjórn og stjórnmálaflokkarnir sem að henni standa svíki loforð sín og sáttmála.
Fundurinn fordæmir slíkan málflutning. Hann kallar á vítahring loforða og vanefnda þeirra ásamt því að draga umræðuna um sjávarútvegsmálin í svaðið.

Fundurinn hvetur sjávarútvegsráðherra til dáða í þessu máli og að hrinda línuívilnun í framkvæmd hið allra fyrsta.

Fundurinn bendir á þá ótrúlegu staðreynd að fiskveiðilögin fela í sér ákvæði sem að óbreyttu leiða til þess að hundruðir smábátaeigenda verða að hætta rekstri. Þetta eru eigendur sóknardagabáta, en þeim er skammtað á yfirstandandi fiskveiðiári 19 sólarhringum til veiða. Fyrir sex árum voru dagarnir 84 og niðurskurðurinn því orðinn 78%. Verði lögunum ekki breytt mun sóknardögum þeirra fækka niður í 9 á fáum árum.
LS hefur til margra ára barist fyrir því að lögfestur verði lágmarksfjöldi sóknardaga og haft uppi mjög hógværar kröfur í því sambandi. Fundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra og Alþingi að ganga nú þegar til þess verks.

Barátta smábátaeigenda hefur alla tíð snúist um að vernda og efla þá líftaug sem nýtingarrétturinn er strandbyggðunum. Öflugur smábátafloti hefur undanfarin ár verið brjóstvörn hinna minni byggða og fundurinn brýnir háttvirt Alþingi til að standa þar vörð um.

 

efnisyfirlit síðunnar

...