Saga bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, eftir Gunnar Hjaltason, Reyðarfirði - Landssamband smábátaeigenda

Saga bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, eftir Gunnar Hjaltason, Reyðarfirði


Mikill hamagangur er í fjölmiðlum þar sem ályktanir úr öllum mögulegum og ómögulegum áttum eru um línuívilnun. Ég bý í Fjarðabyggð eða nánar tiltekið á Reyðarfirði. Um haustið árið 2000 sendum við í Félagi smábátaeigenda á Austurlandi bréf til allra sveitarstjórna á Austurlandi með beiðni um stuðning við tillögu þá sem hér fylgir og var samþykkt á aðalfundi LS:
Tillaga Árna Jóns Sigurðssonar samþykkt á aðalfundi LS 14.-15. október 1999.
„Skorar á Alþingi að taka upp nýtt veiðikerfi smábáta, sem miðist við báta ca. 3 tonn að stærð með hefðbundinn gang. Fái þeir 65 sóknardaga með 30 tonna þaki, allt óframseljanlegt með öllu. Allir íslenskir ríkisborgarar megi stunda veiðar í þessu kerfi með handfærum.“

Tilefni þessa pistils er að gera grein fyrir hvernig klukkan slær eða mætti frekar segja hjartað slær hjá minni bæjarstjórn.

Svar bæjarstjórnar Fjarðabyggðar við ofangreindu bréfi var sent í bréfi dags. 29.12.2000 og er svona:
„Vegna samþykktar aðalfundar Landssambands smábátaeigenda 14. – 15. október 1999 um nýtt veiðikerfi smábáta bókar bæjarstjórn Fjarðabyggðar eftirfarandi: Bæjarstjórn er því fylgjandi að smábátaveiðar verði efldar en tekur ekki sem slíkt beina afstöðu til einhverra þátta í fiskveiðistjórnunarkerfinu.“

Svo mörg voru þau orð í þá daga. En nú má sjá eins og næsta ályktun ber með sér að að það eru breyttir tímar eða aðrir hagsmunir.

Á heimasíðu Fjarðabyggðar eru þessi ályktun bæjarstjórnar og sagt var frá í Morgunblaðinu.
„3. október 2003
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar ályktar gegn línuívilnun.
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar mótmælir hvers konar sértækum aðgerðum stjórnvalda við úthlutun aflahlutdeildar, hvort sem fiskur er veiddur á línu eða með öðrum veiðarfærum. Heildarhlutdeild smábáta sem ekki eru á aflamarki í afla hefur aukist jafnt og þétt og sú aukning eðli máls samkvæmt gengið á rétt annarra. Sú línuívilnun sem nú er í umræðunni mundi enn auka forréttindi smábáta á kostnað annarra útgerðarflokka. Afleiðingar línuívilnunar gagnvart Fjarðabyggð yrðu þær að aflaheimildir flyttust úr sveitarfélaginu og atvinnu- og tekjumöguleikar sjómanna, fiskverkafólks og fyrirtækja drægjust saman. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar skorar því á stjórnvöld að hverfa frá öllum hugmyndum um línuívilnun.“

Er þetta ekki að hafa skoðun á fiskveiðistjórnuninni? Þá mætti spyrja sig hvort bæjarstjórn hafi ekki hugmynd um þá miklu smábátaútgerð sem var á Norðfirði á árum áður og svo nú. Hafa menn virkilega ekki fylgst með því sem er að gerast t. d. í þrem bæjarfélögum hér á austur og norðaustur kantinum. Halda menn að fiskverkafólki á Seyðisfirði sé skemmt? Ég held ekki. Hvað verður um þann kvóta sem þar var? Hvers vegna kynna menn sér ekki staðreyndir og rök fyrir því að línuívilnun verði tekin upp. Hvers vegna eru menn ekki sjálfum sér samkvæmir?
Það er ástæða fyrir því að stjórnarflokkarnir hafa samþykkt það á sínum aðalfundum og síðan í stjórnarsáttmála að línuívilnun verði tekin upp. Það er í mínum huga enginn vafi á því að stjórnin hélt velli vegna þessara samþykkta.

Bæjarfélög hafa nú hækkað aflagjöld um 60%. Fjarðabyggð hefur hækkað um 25%. Gott mál fyrir þá sem miklu landa en sjaldgæft er að sveitarfélög nýti sér ekki alla tekjumöguleika. Það er ekki samhljómur í ákvörðunum en áform eru um verulegar hækkanir á fasteignagjöldum í bæjarfélaginu. Þar er ætlunin að ná hámarkstekjum.

Ég vil benda bæjarstjórnarmönnum í Fjarðabyggð og öðrum að kynna sér það sem þeir ákveða að álykta um. Það er ótrúlegt að sveitar- og bæjarstjórnir á landsbyggðinni skuli álykta gegn ákvörðunum sem eru mikilvægar til að styrkja búsetu á landsbyggðinni.

Þá ber að þakka af heilum hug samþykktir sveitarstjórna sem styðja smábátaútgerð.


Reyðarfirði 7. október 2003

Gunnar Hjaltason, Reyðarfirði
form. Félags smábátaeigenda á Austurlandi

 

efnisyfirlit síðunnar

...