Fréttablaðið - Stórútgerðin og sjómannasamtökin hvetja ríkisstjórn til að svíkja kosningaloforð - Landssamband smábátaeigenda

Fréttablaðið - Stórútgerðin og sjómannasamtökin hvetja ríkisstjórn til að svíkja kosningaloforð


Í dag birtist í Fréttablaðinu grein eftir Örn Pálsson, undir fyrirsögninni „Stórútgerðin og sjómannasamtökin hvetja ríkisstjórn til að svíkja kosningaloforð.
Það vekur athygli að barátta Landssambands smábátaeigenda fyrir línuívilnun hefur sameinað önnur hagsmunasamtök í sjávarútvegi. LÍÚ, Sjómannasambandið, Farmanna- og fiskimannasambandið og Vélstjórafélag Íslands hafa sent frá sér sameiginlega ályktun, þar sem Alþingi er hvatt til að fella frumvarpið um línuívilnun.
Það er með ólíkindum hversu lítið þarf til að sameina þessa aðila þegar trillukarlar eiga hlut að máli. Gera má ráð fyrir að sáttasemjari kynni sér þetta og vonandi ná þessir aðilar að gera með sér kjarasamning, en stóli ekki einn ganginn enn á að stjórnvöld taki af þeim ómakið, stilli upp samningi þar sem samtökunum er nauðugur einn kostur, að skrifa undir.

„Þeir stela af okkur ýsunni“
1995 var lögfest á Alþingi þorskaflahámarkskerfi krókabáta sem takmarkaði þorskveiðar þeirra verulega. Þorskkvótinn sem þeir fengu var frá því að vera helmingur þess sem þeir höfðu veitt árin á undan og upp í 70%. Við þessar aðstæður hófu menn að koma sér fyrir í þorskaflahámarkinu og sáu fljótt að þar var ekki lífvænlegt öðru vísi en að drýgja þorskkvótann með veiðum á öðrum tegundum. Fram að því höfðu þeir veitt fátt annað en þorsk. Nokkurn tíma tók að ná árangri við þessar veiðar, en það tókst og 4 árum síðar var LÍÚ farið að væla yfir því að þorskaflahámarksbátar væru að „stela frá þeim ýsunni“. Það vafðist ekki fyrir þeim, frekar en fyrri daginn, hver ætti fiskinn í sjónum. En er ekki þjóðinni hagstæðara að ýsan sé veidd á línu, henni landað samdægurs til vinnslu sem gefur allt að helmingi hærra útflutningsverðmæti en sjófrystingin?
3. desember 1999 kvað Hæstiréttur upp dóm sem kallaður hefur verið Valdimarsdómur. Stjórnvöld túlkuðu dóminn á þá leið að ekki væri hægt að verja veiðkerfi þorskaflahámarksbáta á annan hátt en með því að kvótasetja aukategundir. Túlkun þessari var kröftuglega mótmælt sem leiddi m.a. til þess að kvótasetningin kom ekki til framkvæmda fyrr en 1. september 2001. Ekki verður það tíundað hér hversu mikið áfall þetta varð fyrir þennan bátaflokk.
Það er ekki til í orðabók trillukarla að leggja árar í bát. Lög kváðu á um að þeir mættu ekki nota önnur veiðarfæri en þau sem hvað minnstri röskun valda á lífríkinu, línu og handfæri. Þá máttu ekki stærri bátar en 6 brl. vera innan kerfistins en því var breytt nokkru síðar og mörkin sett við 15 brt. Þeir hófu því baráttu fyrir að ívilnað yrði umhverfisvænum veiðum. Línuívilnun til dagróðrabáta þar sem beitt væri eða stokkað upp í landi varð niðurstaðan. Auk þess að veiðarnar eru umhverfisvænar, skapa þær mikla atvinnu í landi og yrði þannig mikil lyftistöng fyrir hinar dreifðu byggðir.

Þeir sem lofuðu unnu kosningarnar
Réttindabaráttan var rekin áfram og sífellt fjölgaði í þeim hóp sem tók undir með kröfum trillukarla um línuívilnun. Línuívilnun dagróðrabáta var samþykkt á landsfundi og flokksþingi stjórnarflokkana. Málinu fylgt eftir til loka kosningabaráttunnar sem lauk með stjórnarmyndun þar sem línuívilnun dagróðrabáta var sett í stjórnarsáttmálann. Stórútgerðin lét málið kyrrt liggja í kosningabaráttunni, hún kaus að lemja á Samfylkingunni um að ef hún kæmist til valda gætu Íslendingar gleymt sinni eigin stóriðju – sjávarútveginum.
Stórúterðin náði sínu markmiði og ríkisstjórnin hélt velli.
Í kjölfar þeirrar staðreyndar hafa trillukarlar knúið á um innlausn kosningaloforðanna. Samtökin fjögur sem fallist hafa í faðmlög orga hins vegar á stjórnvöld um að þau svíki gefin loforð sem m.a. urðu þess valdandi að núverandi stjórnarflokkar héldu völdum.
Þessi krafa endurspeglast m.a. í ummælum forstjóra Samherja handhafa Útflutningsverðlauna forseta Íslands 2003, er hann lét falla 8. þessa mánaðar:
„Spurningin í dag er, eigum við að halda áfram með verkið eða eigum við að segja að þeir verði verðlaunaðir sem fara aftur á bak í þróuninni; að handbeiting, handflökun og svo framvegis verði lykilorðið hjá stjórnmálamönnum framtíðarinnar.“
Hráefnið sem smábátaeigendur hafa fært að landi hefur m.a. lagt grunn að dýrustu ferskflakamörkuðum Íslendinga. Það væri því stórt skref afturá bak að þrengja að þessari útgerð.
Trillukarlar horfa stolltir inn í framtíðina staðráðnir í að halda áfram að nýta sameiginlega auðlind okkar Íslendinga, þjóðinni til hagsældar.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...