Viðbrögð félagsmanna við frumvarpi um línuívilnun - Landssamband smábátaeigenda

Viðbrögð félagsmanna við frumvarpi um línuívilnun


Það skýrist nú óðum hvað frumvarp sjávarútvegsráðherra um línuívilnun felur í sér. Í símtölum við félagsmenn í dag hafa þeir lýst ánægju með að frumvarpið skuli komið fram. Þar er gert ráð fyrir að ívilnun komi til framkvæmda 1. febrúar í ýsu og steinbít og þorskurinn í upphafi næsta fiskveiðiárs.
Töluverðrar óánægju gætir hins vegar um nokkur atriði frumvarpsins. Þar má nefna að ráðherra kýs að línuívilnun skuli ekki ná til dagróðrabáta þar sem stokkað er upp í landi. Leiða má að því lýkur að þarna sé um mistök að ræða þar sem samþykktir stjórnarflokkanna gengu ekki svo langt. Báðir flokkarnir voru sammála því að línuívilnun yrði skilyrt við dagróðrabáta og Framsóknarflokkurinn vildi einnig binda hana við að hjá þeim væri beitt eða stokkað upp í landi.
Annað atriði sem óánægja er með er að ívilnunin skuli ekki ná til keilu, löngu og karfa. LS mun fara fram á við sjávarútvegsnefnd að úr þessu verði bætt, ívilnun taki til þessara tegunda.
Þriðja atriðið er að ráðherra skuli hafa fallist á helsta baráttumál stórútgerðarinnar að línuívilnun skuli dregin frá heildarafla áður en til úthlutunar kemur. LS hefur ávallt kynnt línuívilnun þannig að hún eigi ekki að skerða veiðiheimildir annarra. Það hafa einnig aðrir gert sem talað hafa fyrir málinu. Búast má við að þetta atriði verði tekið sérstaklega fyrir hjá sjávarútvegsnefnd.

 

efnisyfirlit síðunnar

...