Furðurlegt fréttamat - grein í Fiskifréttum - Landssamband smábátaeigenda

Furðurlegt fréttamat - grein í Fiskifréttum


9. janúar birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason í Fiskifréttum:

“Ég er sjálfsagt ekki einn um að velta vöngum yfir því hvað vekur athygli þeirra sem starfa í fjölmiðlaheiminum og hvað ekki. Nýliðið ár gaf óvenju mörg slík tilefni, ekki síst á sviði sjávarútvegsins. Stuttur pistill rúmar hvergi nærri úttekt á þessu en vil engu að síður nefna tvennt frá nýliðnu ári sem mér fannst athyglisvert hvernig lenti ýmist inni í kastljósi fjölmiðlanna eða utan þess.

Í desember sl. var mikill bardagahamur runninn á andstæðinga margnefndrar línuívilunar og ekki leið dagurinn án þess að vopnaglamrið skæri í eyru landsmanna. Helst var að skilja að Vestmannaeyjar myndu sökkva í sæ, Akureyri breytast í fátækranýlendu og Austfirðingar herða flóttann á mölina. Og svo framvegis.

Mitt í atinu skaut þessi óvígi her upp miklu neyðarblysi í formi skýrslu sem sýna átti og sanna að fiskur, veiddur á línu og króka yfirleitt, væri laka hráefni en annað af fiskiskipaflotanum. Slíkar veiðar væru því þjóðfélaginu dýrkeyptar og svo langt var gengið að tala um milljarðasóun vegna smábátaútgerðarinnar.

Þessi næstumþvíáramótaraketta vakti mikla athygli fjölmiðla og niðurstöður hennar tíundaðar athugasemdalaust dag eftir dag. Tilfinningaþrungin viðtöl og pistlar fylgdu í kjölfarið þar sem óskapast var yfir því að forsvarsmenn smábátaútgerðarinnar hefðu til langs tíma logið því að þjóðinni að línu- og handfærafiskur væri fyrirtaks hráefni.

Mér vitanlega hefur aðeins einn fjölmiðill séð ástæðu til að kanna þetta mál betur, en það gerðu Fiskifréttir í síðasta tölublaði ársins 2003. Athugun Fiskifrétta afhjúpaði skýrslu Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem fullkomna rökleysu og handónýta til þess að sanna það sem ætlast var til.
Þegar gögn uppboðsmarkaðanna eru skoðuð kemur í ljós að niðurstöður þess eðlis að línu- og handfærafiskur sé laka hráefni en annað eru í besta falli afurðir fljótfærni og hermæði, en í versta falli vísvitandi blekkingaleikur, settur upp í trausti þess að ætíð sé erfiðara að bera af sér sakir en hitt. Hvort heldur er rétt er staðreyndin sú að þessi skýrsludrusla og „niðurstöður” hennar fengu gríðarlega athygli fjölmiðla.
Tilgangurinn var að koma því inn hjá þjóðinni að krókafiskur sé tros hið versta. Gallinn er sá að íslenskur almenningur er ekki eins vitlaus og óvígi herinn heldur.

Leiðréttingar standa enn sem komið er svo til með öllu í skugganum og tilburðir til að kanna gögnin sem lögð voru til grundvallar í lágmarki.

Hitt sem ég vil nefna er að fjölmiðlum var seinni hluta síðasta árs margsinnis bent á þá staðreynd að samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eru fjölmargar stærðir í fiskveiðunum ekki látnar hafa áhrif á úthlutun aflaheimilda í upphafi hvers fiskveiðiárs.
Hér er átt við kunnuga hluti eins og Hafró afla, togara og netaröll, undirmál utan kvóta og „umframafla” sóknardagabáta sem og það sem sjaldnar er rætt, afla Færeyinga, Evrópubandalagsskipa, kvóta til áframeldis, sjóstangaveiði, afla sem eingöngu er sektað fyrir vegna umframkeyrslu, það sem hirt er til neyslu um borð eða borið í land og svo vitanlega það sem aldrei hefur vakið athygli eins eða neins – ívilnun til fullvinnsluskipa í formi lítillar reglugerðar um afskurð við flakavinnslu sem landa má án þess að kvóti viðkomandi skerðist.
Og þá er ótalið það sem er dauðasynd að nefna – brottkast, meðafla flotvörpuskipa og dráp á fiski sem sleppur af eða úr veiðarfærum.
Ekkert af framantöldu kemur til frádráttar aflaheimila í upphafi fiskveiðiárs og ekki að sjá að þetta hafi mikil áhrif hjá Hafró við mælingar á stærðum fiskistofna.

Hér er ekki um að ræða neinn tittlingaskít. Á árinu 2002 voru þetta yfir 17 þúsund tonn af þorski og hátt í 30 þúsund tonn af bolfiski í það heila. Í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir brottkasti, meðafla né aukadrápi.

Þetta kveikti ekki teljandi áhuga fjölmiðlanna, en hitt vakti óskipta athygli:

Hinn framangreindi óvígi her hamraði látlaust á því að ekki væri unnt að framkvæma línuívilnun nema skerða aflaheimildir annarra. Þá væri magnið sem færi í þessa hít svo óskaplegt að stóru útgerðarfyrirtækin hefðu vart fyrir soðningunni um borð að leik loknum. Með þessar fullyrðingar fékk hann að valsa langtímum saman, án teljandi athugasemda og þrátt fyrir þá augljósu staðreynd að magnið sem færi í línuívilnun yrði aðeins brot af þeim stærðum sem að framan er getið.

Hefði ekki verið athyglisvert fyrir fréttamenn að fá svör við t.d. þessum spurningum:

„Frá hverjum eru allar framangreindu stærðinar teknar?“ Og –

„Fyrst draga verður línuívilnun frá aflaheimildum – af hverju leggið þið ekki til að allt sem að framan er talið sé sett undir sama hatt?”

Hvers vegna voru þeir ekki spurðir?

Arthur Bogason formaður
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

...