Festa verður sóknardagakerfi smábáta í sessi - Landssamband smábátaeigenda

Festa verður sóknardagakerfi smábáta í sessi


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum í dag:

„Festa verður sóknardagakerfi smábáta í sessi.

Mikið eiga þeir bágt, kom í hug minn við lestur á grein Magnúsar Kristinssonar í síðasta tölublaði Fiskifrétta. Óskaplega hafa trillukarlar og fylgismenn þeirra verið vondir við þá! En sjálfsagt kunna þessir menn ekki að þakka fyrir sig þegar fulltrúar stórútgerðarinnar djöflast á þeim eins og nú nýverið.
Í tilvitnaðri grein frá sl. viku er vælt og skælt yfir því að örlítið brot af fiskveiðiflota landsmanna, og það minnstu bátarnir, skulu fá að veiða í 19 sólarhringa á ári.


Nýliðun nauðsynleg

Háværar raddir almennings krefjast þess að kvótakerfið í núverandi mynd verði aflagt. Um það mál var meðal annars kosið í vor. Fylgismenn kerfisins unnu nauman sigur og hjálpaði þar ekki lítið að ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu breytingum á lögum um stjórn fiskveiða sem miðuðu að því að treysta útgerð dagróðrabáta með línu, sem í mörgum tilfellum er síðasta hálmstrá minni sjávarbyggða. Breyting sem nú er komin í framkvæmd að nokkru leyti og er ágætt dæmi um pólitísk klókindi til að halda völdum.

Í samfélagi okkar vega stjórnvöld og meta hverju sinni hvernig bregðast skuli við háværri og oftar en ekki heiftúðugri gagnrýni þegar kvótakerfið á í hlut. Í þeim darraðardansi halla óákveðnir sér gjarnan að andstæðingum kerfisins, ekki síst þegar teknar eru fúlgur fjár út úr því.

Ein leiðin til að koma í veg fyrir að ekki sjóði upp úr er að viðhalda innan kerfisins möguleika fyrir nýliða til að hasla sér völl í útgerð. Ég hef átt þess kost að fylgjast með aðilum sem byrjað hafa útgerð í sóknardagakerfi smábáta. Hann er mörgum þeirra erfiður uppgöngu, útgerðarstiginn, en þrautseigja og nægjusemi hafa á endanum skilað þeim flestum á leiðarenda. Þessi harði skóli hefur fært þjóðinni afburðamenn til að nýta hina sameiginlega auðlind landsmanna.

Mál að linni

Verði farið að kröfu stórútgerðarinnar um að þeir 300 bátar sem róa í sóknardagakerfinu fái einungis að veiða í 3 – 4 daga á hverju fiskveiðiári, sjá allir sem vilja, eiginhagsmunaseggir meðtaldir, að upp úr mun sjóða. Engu yrði eirt fyrr en allt hefði verið stokkað upp. Opnað inn á akurinn, nýjum úterðaraðilum gefið tækifæri og sams konar flokkun framkvæmd eins og átt hefur sér stað frá upphafi kvótakerfisins. Besta leiðin fyrir Magnús og félaga til að komast hjá slíku er að þeir hætti þeirri endemis vitleysu að mönnum sé það bjóðandi að reka fyrirtæki sín á ársgrundvelli á færri starfsdögum en virkir dagar eru í mánuðinum.

Viðræður við sjávarútvegsráðherra
og sjávarútvegsnefnd

Talsvert er liðið á annað ár frá því Landssamband smábátaeigenda lagði fram hugmyndir sínar um framtíð sóknardagakerfisins Markmiðið væri að stemma stigu við afkastaaukningu sóknardagabátanna og í staðinn yrði veiðikerfi þeirra fest í sessi. Meðan ekki væri almenn sátt um að handfærabátar fengju að róa í fleiri daga en 23 mundi LS ekki gera ágreining um þann dagafjölda. Í tillögunum var gert ráð fyrir því að líkt og dögum fækkar nú ef bátur er stækkaður myndi aukið vélarafl að auki spila þar inn í. Þá var gert ráð fyrir að fjöldi handfærarúlla um borð yrði að hámarki 5.
Auk þessa þátta gerðu hugmyndirnar ráð fyrir að heimilað verði að nýta sóknareiningar allt árið. Við þá breytingu mundi afli eitthvað dragast saman án þess að það þyrfti að koma niður á aflaverðmæti.

Landssamband smábátaeigenda ræddi þessar tillögur á fjölmörgum fundum á sl. ári við sjávarútvegsráðherra og aðstoðarmann hans. Á öllum stigum var tekið vel í tillögurnar þó vissulega hafi verið ágreiningur um fjölda sóknardaga. Þegar komið var að ákvörðunartöku var ráðherrann hins vegar ekki reiðubúinn til að ljúka málinu.

Bókun sjávarútvegsnefndar og ummæli ráðherra

Hugmyndir LS voru og kynntar í sjávarútvegsnefnd og fengu þar góðar viðtökur. Nefndin opnaði svo á málið nú nýverið þar sem meirihlutinn setti eftirfarandi bókun í nefndarálit við frumvarp ráðherra um línuívilnun:
„Málefni svonefndra dagabáta hafa verið rædd í nefndinni. Ekki reyndist unnt að leggja til tillögur um framtíðarskipan í málefnum þeirra sem þó er mikilvægt verkefni. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vinnu við það verði hraðað.“

Tillaga LS er nú aftur komin á borð sjávarútvegsráðherra og þess beðið að hann komi að málinu á nýjan leik. Ráðherrann gerir sér ágæta grein fyrir stöðu mála, ella hefði hann tæpast sagt á síðasta aðalfundi LÍÚ:
„Þá bíður okkar ennþá óleyst vandamál varðandi veiðar dagabáta og munum við jafnframt vinna að lausn þess.“

Að lokum

Til þeirra sem láta málflutning trillukarla koma sér úr jafnvægi: Trillukarlar eru skipstjórnamenntaðir, trillukarlar eru ekki undanþegnir eftirliti, trillukarlar eru ekki slæmir atvinnurekendur, trillukarlar eiga ekki aðild að nefndum sem sjávarútvegsráðherra skipar. Trillukarlar gera ekki kröfu um hertar reglur né aukna gjaldtöku hjá öðrum útgerðaraðilum, þeir láta stjórnvöldum það eftir.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.“

13 Athugasemdir

Sæll Örn. Ég held að Magnús Kristinson verði að kanna málin áður hann fer að gagnrína? Ég gat ekki skilið betur en svo að hann héldi að dagabátar réru með línu, og svo eftirlitið er það nú svo að það er varla vinnufriður fyrir eftirliti(Símakrókur/Afladagbók/ofl).

Sælir verið þið.
Það að vera að bjóða vélatakmörkun og festa einhvern ákveðin fjölda af rúllum á dagabátana í staðinn fyrir 23 daga gólf í kerfið hvaða rugl er þetta!Ég hef ekki verið spurður að því hvað ég vilji og þaðan af síður hvaða álit ég hafi á þessum tilllögum.Af hverju er ekki reynt að semja um kvóta á þessa báta?Væri það ekki betra meðan að dagarnir eru þó 19 heldur en að þurfa kannski að fara að reyna semja þegar dagarnir verða orðnir 12-15.Það er alveg klárt hvað ég myndi vilja.Ég veit um marga fleiri sem eru sama sinnis.
Það að tala um nýliðun í þessari grein þá vil ég segja að það væri miklu gáfulegra fyrir þann sem er að spá í fara í útgerð að kaupa sér einhvern góðan bát í krókakerfinu sem kostar á bilinu 6-12 milljónir og geta þá notað hann allt árið heldur en að kaupa dagabát fyrir 20-30 milljónir og geta notað hann 19-23 daga á ári.Þó svo að það mætti dreifa þessum dögum yfir 12 mánaða tímabil.

Ég er sammála Hilmari Það verður aldrei friður með dagakerfið þessvegna eigum við að berjast fyrir kvóta núna áður en dögonum fækkar enn meir

Ég er algjörlega ósammála þeim félögum Hilmari og Óla. Af hverju selja þeir ekki þessa dagabáta sína og kaupa sér kvótabáta og hirða þennan ímyndaða gróða sem Hilmar talar um, ef þeir eiga þá dagabáta. Mín skoðun er að dagabátaútgerð sé lífstíll, við erum þó frjálsir menn þessa 19 daga ársins.

Það sem ég var að reyna koma að en þér tókst að misskilja var að Örn Pálsson talaði um í sinni
grein að dagakerfið væri nauðsynlegt til að nýjir menn kæmust í útgerð.(nema ég hafi misskilið Örn).Þá er hagstæðara að kaupa bát í krókakerfi heldur en í dagakerfi.Hvað gróðann varðar þá getur vel verið að ég selji bara dagabátinn ef að einhver hefur áhuga.Svo getur nú verið að dagarnir verði ekki fleiri en 18 á næsta ári og svo framvegis.

Sæll Bjarni
Ég hóf þessa dagabátaútgerð þegar dagarnir voru 84. Þá talaði enginn um lífstíl, heldur var þetta 100% atvinna viðkomandi sjómanna. Í dag hefur þessi atvinna verið tekin og gerð að nánast engu og það án nokkurra aðgerða LS. Það er niðurlægjandi að heyra þig tala um að útgerð dagabáta sé lífstíll og eigi að vera það áfram. Það er undarlegur lífstíll að vera skertur úr 84 dögum niður í 19. Ef þú hefur ekki tekið eftir því þá gera lög ráð fyrir því að dagarnir skerðist um 10% á ári svo þú verður sennilega "frjáls maður" 17 daga á næsta fiskveiðiári. Finnst einhverjum það ásættanlegt? Dagakerfið eins og það er í dag er gjörsamlega úr takt við nútímann og allt annað sem viðgengst í sjávarútvegi. Eftirlitskostnaður með þessu kerfi er gríðarlegur. m.a. telur fiskistofa nauðsynlegt að halda úti fjölda veiðieftirlitsmanna í öllum sjávarbyggðum landsins til að gæta að reglum dagakerfisins sé fylgt. Að mínu mati er engan vegin réttlætanlegt að það sé verið að halda úti sérstöku fiskveiðstjórnunarkerfi fyrir 292 báta, með þeirri óánægju og togstreytu sem það veldur milli kerfa. Til að viðhalda þessari hringavitleysu þá leggur LS til að teknar verði upp takmarkanir á vélastærð og takmörkun á veiðarfærum. Ekki munu slíkar aðgerðir einfalda regluverkið og eftirlit með því. Að halda því fram að þetta sé eitthvað frjálsræði er hrein firra. Mér finnst algerlega óásættanlegt að LS sé að semja um hin og þessi takmörk án nokkurs samráðs við eigendur dagabáta. LS hefur aldrei svo mikið sem haft fyrir því að spyrja okkur eigenda dagabáta hvort við hefðum hugsanlega áhuga á kvótasetningu þessara báta heldur þvert á móti fundið því allt til foráttu.

Er ekki einfaldast að úthluta dagabátum aflaheimildum í samræmi við veiðireynslu síðustu ára þannig að þeir verði hluti af krókaflamarkskerfinu og reyna þannig að auka sátt og samlyndi innan greinarinnar. Þannig ættu eigendur dagabáta kost á að gera út árið um kring og byggja upp sína atvinnu á ný sem frá þeim hefur verið tekin.

Sæll Óttar,,,,,,,
Ég vil minna þig á það að potturinn á bak við dagabátana er í kringum 2,000 tonn þannig að báturinn þinn fengi sirka 7 tonn,,,,,ég geri ráð fyrir að þú sért ekki að sækjast eftir því eða hvað,,,það hefur enginn maður sem skiptir máli viðurkennt rétt þessara báta til þessara 10 til 13 þúsund tonna sem þessir bátar hafa verið að veiða síðustu ár þannig að ég held að allt tal um kvótasetningu á þessu sé bara rugl,þetta eru draumórar manna sem vilja hagnast á þessu,,,,,,,

Sæll Heimir Ingvson,

Það hefur ríkt mikil óvissa um framtíð sóknardagakerfisins allt frá því kerfinu var komið á fyrir 7 árum. Þeir aðilar sem í kerfinu vinna eru orðnir mjög langþreyttir á að stöðu mála. Þar sem enn hefur ekki tekist að festa kerfið í sessi og finna því varanlegan farveg er ekki úr vegi að horfa til annara leiða.

Heimir, ég myndi mjög gjarnan vilja sjá frá þér málefnalegar tillögur um hvaða leiðir þú telur færar til að tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll þessara báta.

Sælir klukkufélagar...! Ég sé að það hefur tekist að sá fræjum illinda og sundurlyndis meðal okkar dagamanna, sennilega eins og flestir áttu von á sem höfðu eitthvað með það að gera að skipta smábátamönnum upp í þær tvær fylkingar hagsmuna sem þær eru í dag. Eg verð nú að segja fyrir mitt leiti sem dagamaður að mér huggnast ekki að menn skuli vera komnir í hár saman útaf því hvert stefnir svona opinberlega. En, það hlýtur að vera út af einhverju sem menn eru farnir að opna sig hér nú , á þessum síðustu og verstu(fæstu) (klukku)tímum.Ég held að forysta okkar í LS , sem hefur staðið sig sórkostlega í vörslu hagsmuna félaga okkar í krókakerfinu(kvótadeildinni), hafi skotið sig talsvert illa í fótinn með því að fara að bjóða hitt og þetta í skiptum fyrir "hitt og þetta" í samningum við ráðherra sjávarútvegsins undanfarið. Það liggur hvergi fyrir svo ég viti, að það hafi verið sótt um umboð eða verið leitað eftir áliti þeirra sem eru í dagakerfinu, og eiga allt sitt undir í því, til að bjóða það sem heyrst hefur að vilji LS stendur til að semja um.Hvað þá að það sé sátt um að draga saman seglin í veiðarfærum eða vélargetu, í skiptum fyrir kyrrstöðu í sóknarhörku. Þar sem ég á heima (Hornafirði) hefur litlu púðri verið eitt í áhyggjur yfir afdrifum dagabáta, heldur er yfrleitt látið nægja að tyggja upp einhverjar meinlausar og áherzlulitlar yfirlýsingar um aukningu starfa og annað í þeim dúr sem kemur ekki illa við neinn þ.e.a.s. á fundum í smábátafélaginu Hrollaugi. Í framhaldi af þessu verð ég að taka undir mikið af því sem Óttar og Hilmar eru að segja , um að það er ekki fýsilegt að horfa fram á stanslausar skerðingar á dögum næstu árin án þess að velta fyrir okkur möguleikum þess sem okkur stendur til boða ef við viljum þiggja aflaheimildir í stað sóknardaganna sem við höfum í dag , en örugglega ekki í haust við óbreytta stöðu. Ef fer fram sem horfir verðum við fljótlega(3-5 ár) komnir niður í 12-14 daga, sem var ekki einu sinni fjarlægur möguleiki fyrir 2 árum. Það er allveg krystalklárt í mínum reiknistokk að það er ekki "lífstíll" sem ég sækist eftir, að reyna að lifa af því. því segi ég að það þurfi að sækja eftir umboði dagamanna BEINT OG MILLILIÐILAUST til að semja fyrir þeirra hönd svo ró komist á , og félagar okkar í kerfinu verða að standa með okkur eins og við hingað til, því þeir fóru ekki aleinir þangað sem þeir eru í dag.Með kveðju áður en við teljum sóknina í sekúndum.óli lú.....

Sæll Óttar
Ég held að við flestir værum hættir og farnir úr þessu dagakerfi ef það væri ekki einhver lífstíll fólgin í því. Ég er hins vegar sammála þér í því að ekki sé rétt að takmarka veiðigetu dagabáta með þessum hætti. Væri ekki nær að takmarka sóknargetu með takmörkun á sóknarfjarlægð frá heimahöfn ca.50mílur? Þá sætu allir við sama borð.

Sæll Óttar aftur,,
Ég skil áhyggjur þínar vel í sambandi við þetta,ég stend í þessu líka þannig að ég þekki aðeins til,ég vil leggja áherslu á dagana og að fá gólf í þá,,og þá er ég að tala um ekki færri en 23 daga,ég veit að það er bölvuð hungurlús fyrir marga en það eru bara ansi margir sem ná þessu ekki hvernig sem það má nú vera,en það gæti verið byrjunin og í leiðinni að við hver 10 þús tonn í úthlutun upp fengum við 1 dag til dæmis frá 180 þús tonnum en gólfið væri 23 og færi aldrei neðar.
En í sambandi við rúllufjölda er mér nokkuð sama
svo lengi sem þær verða ekki færri en 4 en með
vélarstærðir og takmarkanir á þeim er ég á móti og
með framkvæmdina á þeim pakka get ég ekki skilið
það verður ógerningur á eftir að leigja og versla varanlega til sín á eftir fyrir þá sem vilja nýta
þessar dýru fjárfestingar sínar betur,þar kemur inní,stærðir bátana,nýting,og svo þá kanski vélarafl,það er út í hött,,,,,en það er nú kanski aðal málið með þessu öllu.En með kvóta hef ég ekkert að gera þó að við fengum 60% af því sem við höfum verið að veiða,sem ég tel vera tala sem aldrei fengist einu sinni.En svo væri ég til að kanna það hvort dagarnir gætu ekki verið bara sér veiðileifi þannig að við gætum verið á því á sumrin eins og verið hefur en við gætum verið með kvóta líka sem við værum að veiða þess á milli,og gætum keipt og leigt til okkar eins og aðrir,enn og aftur til að nyta bátana okkar betur.

Maður grípur nú bara um höfuð sér við að lesa þessa vitleysu sem bæði Bjarni og Heimir eru búnir að setja frá sér í þessari umræðu. Það getur varla verið að þeir hafi nokkurntíman gert út dagabát.Heimir segir að þeir aðilar sem rætt hafi kvótasetningu þessara báta miðað við afla síðustu ára SKIPTI BARA EKKI MÁLI, ég veit um fjölmarga menn SEM SKIPTA BARA HEILMIKLU MÁLI sem eru á því að athuga þennan möguleika. Einnig segir hann að þettað séu draumórar manna sem vilja græða á þessu. Ég byrjaði í þessu 1996, 1997 voru dagarnir 84, 1998 voru þeir 40, 1999 voru þeir 23, 2003 komnir í 21, 2004 komnir í 19, svo finnst mönnum það skrítið að einhverjir sem SKIPTA EKKI MÁLI lýsi yfir vilja til að kanna aðra möguleika en að láta dögonum fækka enn meir, bara afþví að lífstíllinn þeirra er í hættu. Nei Heimir þetta er ekki hugsað til að græða heldur til að geta búið til heilsárs verkefni fyrir þessar eignir okkar. Þessi tillaga hjá Bjarna um að takmarka sóknarfjarlægð frá heimahöfn um 50 mílur er meira en lítið undarleg. Hver á að fylgjast með því að Bjarni fari ekki 50,1 mílu frá sinni heimahöfn og hver á sektin við svoleiðis glæp að vera?? Þá verða Hornfyrðingar og fleiri austanmenn sem sumir hverjir fara hringinn um landið yfir sumarið bara að sitja heima og heyra bara um mokið fyrir vestan í Auðlindinni. Stór svæði geta verið að klikka eins og tildæmis Breiðafjörðurinn í fyrra, þá er nú betra að geta fært sig á fengsælli mið án þess að vera að fremja stórglæp. Ég vil láta kanna báða möguleikana, gólf í dagana eða kvóta og síðan verði það við dagabátaeigendur sem kjósum um það hvort kerfið við viljum til að vinna eftir. Þetta er ekki eithvað sem LS á að vera að díla með hvorki rúllur eða vélar í okkar bátum, þar hljótum við að hafa eitthvað um málið að segja.Við verðum að standa saman og finna góða niðurstöðu í þessu máli sem nítist okkur sem allra best á komandi árum og eiðir óvissunni sem hefur fylgt þessu kerfi frá upphafi.

Óli,,
Hvaða menn hafa rætt það að kvótasetja þessa báta
öðruvísi en að nota viðmiðunnina sem er að baki þeim öllum sem er um 2,000 tonn,þ a s sirka 7 tonn á bát aðrir en trillukarlarnir niður á briggju,,,,,,,,,þegar ég sagði (menn sem skpta máli) þá á eg við ráðamenn þjóðarinnar svo sem sjávarútvegsráðherra til að mynda.

 

efnisyfirlit síðunnar

...