Línuveiðar og línuívilnun – ómerkilegur áróður stórútgerðarinnar - Landssamband smábátaeigenda

Línuveiðar og línuívilnun – ómerkilegur áróður stórútgerðarinnar


Sl. sunnudag birtist eftirfarandi grein eftir Guðmund Halldórsson formann Eldingar:

„Línuveiðar og línuívilnun – ómerkilegur áróður stórútgerðarinnar

Tímabært má telja að víkja að nokkrum staðreyndum varðandi línuívilnun og áhrif hennar, einnig nokkrum órökstuddum og röngum fullyrðingum, sem andstæðingar hennar hafa slegið fram. Meðal þeirra sem þar hafa verið í broddi fylkingar er Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í Ísafjarðarbæ, en á málflutningi hans um þessi efni hefur mér stundum þótt meiri slagsíða en hægt sé að una þegjandi.
Í desemberhefti Útvegsins, fréttabréfs Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir Einar Valur m.a.: „Nú eru 100 ár síðan Vestfirðingar sýndu þá miklu framsýni að setja fyrstir Íslendinga mótor í bát og mér þykir það vægast sagt skjóta skökku við að nú skuli menn 100 árum seinna vera verðlaunaðir sérstaklega fyrir að berjast fyrir því að hverfa aftur til fortíðar og fara að vinna með höndunum einum saman. Þetta er fullkomin öfugþróun ...“
Hér á Einar Valur bersýnilega við það ákvæði, sem sett var inn í lög um stjórn fiskveiða rétt fyrir síðustu jól, að línuívilnun sem þá var lögfest skuli einskorðuð við dagróðrabáta sem beita línu í landi. Það er alrangt hjá Einari Val, að þeir sem hlut eiga að þessu máli hafi barist fyrir handbeitingu í landi.

Hverjir vildu handbeitingu?

Ég vil af þessu tilefni árétta, að í þeirri tillögu um línuívilnun, sem ég flutti á síðasta Landsfundi Sjálfstæðisflokksins og þar var samþykkt, var aldrei talað um beitingu í landi. Þar var hins vegar talað um dagróðrabáta sem landa ferskasta hráefninu. Ekki var heldur minnst á landbeitingu í stefnuyfirlýsingum stjórnarflokkanna fyrir kosningar, né heldur er minnst á hana í stjórnarsáttmálanum. Þetta sérkennilega ákvæði er einfaldlega komið inn í lögin að kröfu sjávarútvegsráðherra. Ég vil minna Einar Val Kristjánsson á, sem og aðra, vegna þess að hann talar um að „hverfa aftur til fortíðar“, að meðalaldur fiskiskipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. er nærfellt fjórðungur aldar eða 24 ár. Öll endurnýjun í nýsmíði skipa hér á norðanverðum Vestfjörðum er í smábátum. Hér er hvert nýsmíðaða glæsifleyið af öðru að koma til róðra, nýir fimmtán tonna bátar af fullkomnustu gerð og með afbrigðum vel tækjum búnir, þannig að aldrei hefur annað eins sést, svo sem með þrívíddardýptarmælum sem sýna fjöll og dali í hafdjúpunum. Jafnframt hafa orðið miklar framfarir í línunni sjálfri. Ég leyfi mér að hafa þá skoðun, og það ekki að ástæðulausu, að sú harða krafa sjávarútvegsráðherra, að forsenda línuívilnunar skuli vera að línan sé handbeitt, sé komin frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, sem hefur um langan aldur haft tögl og hagldir í sjávarútvegsráðuneytinu. Krafan um landbeitingu var væntanlega sett fram til þess að LÍÚ og félagsmenn þess geti sagt að línuívilnunin sé bara fyrir smábáta en ekki skip innan þeirra vébanda. Krafa þessi er sannarlega ekki komin frá Landssambandi smábátaeigenda, einstökum félögum smábátaeigenda eða smábátamönnum yfirleitt.

1000 tonn eða 160 tonn?

Í áðurnefndu hefti Útvegsins verður Einari Val tíðrætt um línuívilnunina: „Hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf. starfa um 250 manns. Afleiðingar þess, að ef við misstum frá okkur yfir 160 tonn að óbreyttu, af þorski, ýsu og steinbít, sem færð verða útgerðarmönnum hraðfiskibáta hér á svæðinu og víðar, verða töluverðar.“ Þetta þykir mér loðið orðalag og fremur undarlegt, ekki síst í ljósi þess sem sami maður sagði um sama efni á opinberum vettvangi um þremur mánuðum fyrr. Véfréttastíllinn er þar alls ráðandi eins og hjá kollegum hans í LÍÚ: „Hvernig má vera að fólki detti það í hug að það muni styrkja byggð á Ísafirði, Hnífsdal og Súðavík ef kröfur smábátamanna ná fram að ganga? Ef svo færi þýddi það að tæp þúsund tonn af aflaheimildum Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. yrðu teknar af fyrirtækinu og afhentar öðrum útgerðum á sama svæði.“ Reyndar er þetta í samræmi við annan áróður frá hendi Landssambands íslenskra útvegsmanna. Það eru engin rök færð fyrir þeim tölum sem settar eru fram. Því síður er gerð grein fyrir þessu gríðarlega misræmi í málflutningi, þegar hann fullyrðir fyrst að „tæp þúsund tonn“ af aflaheimildum yrðu tekin af Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf. en segir nokkru síðar „... ef við misstum frá okkur yfir 160 tonn að óbreyttu, í þorski, ýsu og steinbít“. Hvernig stendur á þessu misræmi? Útvegsmenn voru reyndar með véfréttir af þessu tagi í hverju byggðarlaginu af öðru um allt land en færðu engin rök fyrir þeim tölum sem þeir slógu fram í áróðursskyni. Mér finnst slíkt vera óheiðarlegur leikur.

„Ef við misstum ...“

Ég hef líka sérstakar athugasemdir við það orðalag hjá Einari Val þegar hann segir „... ef við misstum frá okkur yfir 160 tonn að óbreyttu, í þorski, ýsu og steinbít“. Rökin fyrir þessum talnaleik eru ekki til. Það eru aðeins til rök og raunhæfar tölur varðandi þorskinn. Sjávarútvegsráðuneytið hefur einungis varðandi þorskinn gefið út með bindandi hætti hversu mikið skuli fara í línuívilnunina. Varðandi ýsuna og steinbítinn hefur ráðherra hins vegar lögum samkvæmt heimild til að stöðva þær veiðar ef þær teljast vera að fara eitthvað úr böndunum. Í annan stað hefur dregið úr ýsuveiðum vegna áhugaleysis manna á þeim veiðum út af verðhruninu á þessari fisktegund. Af þessum tveimur ástæðum er ákaflega hæpið að taka einhverjar tölur um ýsuna inn í þessa umræðu. Umræðan ætti að snúast um raunveruleikann en ekki einhvern órökstuddan hugarburð. Í Útveginum leggur Einar Valur á það áherslu, að Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. sé matvælaframleiðslufyrirtæki, orðnotkun sem minnir mig einna helst á kjúklingaframleiðslu tel farsælla að menn tengi sig frekar við hafið. Vissulega eru hölin stór hjá togurum Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. og mikið af hráefni skemmist af þeim sökum og því óhæft til matvælaframleiðslu. Smábátamenn á línuveiðum eru ekki að taka nein stór höl. Hjá þeim kemur bara einn og einn fiskur. Hér mætti minna á hversu illa ýsan fer í trolli, svo dæmi sé tekið. Það veit ég af langri reynslu. Ef ýsan afhreistrast, þá er hún í flestum tilvikum dauð þótt hún sleppi. Það gildir um fleiri fisktegundir. Við vitum að togskipin drepa óhemju magn af fiski. Hins vegar vantar meiri rannsóknir til að geta staðhæft með nokkurri nákvæmni hversu mikið það er sem togveiðarnar drepa af fiski sem aldrei kemur upp í skipin. Engin efast hins vegar um að slíkt gerist. Togarar hafa þannig notið ívilnunar við veiðar sem nemur þúsundum tonna, en þess konar ívilnun þegja þeir um þunnu hljóði. Um línuveiðarnar gegnir allt öðru máli. Allt sem er drepið kemur um borð og dregst frá kvóta. Nýsett línuívilnun minnkar þá mismunun sem hingað til hefur tíðkast.

Öryggi í hráefnisöflun

Eitt af því sem Einar Valur og fleiri stórútgerðarmenn hafa nefnt smábátunum til foráttu, er að þeir séu ekki nógu stórir og öflugir til stöðugrar og öruggrar hráefnisöflunar. Við í Bolungarvík þekkjum þetta ekki. Með hinum nýju og öflugu fimmtán tonna smábátum okkar hefur aldrei dottið dagur úr vinnu. Hráefnisöflunin getur tæpast orðið öruggari, þótt vissulega sé heppilegt að hafa einnig stærri línuskip sem geta verið lengur úti og farið yfir stærra svæði. En það sem gerir ekki síst gæfumuninn varðandi smábátana er gangurinn. Þeir eru með yfirburða ganghraða gagnvart öðrum fiskiskipum. Þeir hafa það líka fram yfir önnur fiskiskip, að þeir landa alltaf alveg nýveiddum og algerlega ferskum fiski. Ísfisktogararnir eru aftur á móti búnir að eyða allt upp í viku af geymsluþoli fisksins þegar þeir koma með hann í land. Þetta geymsluþol ætti frekar að nýtast þegar fiskurinn er kominn á erlenda markaði. Því meira svigrúm og því meiri tími sem þar gefst, þeim mun lengra inn í löndin er hægt að selja fiskinn og stækka þar með markaðina.

Rosaleg skerðing hjá HG?!

Páll Halldórsson, skipstjóri á Páli Pálssyni ÍS, ísfisktogara Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., sagði opinberlega í haust, að hásetahluturinn á skipinu myndi rýrna um 900 þúsund krónur á ársgrundvelli ef aflaheimildir skipsins yrðu skertar vegna línuívilnunar. Þarna er skipstjórinn, líkt og fleiri, að slá fram einhverju sem á ekki við nein rök að styðjast. Ef hin nýju lagaákvæði um línuívilnun og byggðakvóta hefðu komið til framkvæmda 1. september á liðnu hausti, þá hefði úthlutun á þorskkvóta til Páls Pálssonar ÍS á fiskveiðiárinu 2003/2004 orðið 0,8% minni en hann er nú, en aftur á móti hefur málflutningur stórútgerðarinnar skert hann um 50% í byggðakvóta. Alls verða þetta því tæp 25 tonn. Þetta eru nú öll ósköpin. Skerðingin á þorskkvóta hjá öllum skipum Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. hefði að sama skapi orðið rúm 54 tonn á fiskveiðiárinu 2003/2004 þar með talin 50% skerðing á byggðakvóta. Þetta er enn eitt dæmið um órökstuddan talnaleik og fullyrðingar sem slegið er fram til að reyna að berja niður mál, línuívilnunina, sem er hreint og klárt byggðamál. Að lokum skal því hnýtt hér við sem framkvæmdastjórinn gleymir að minnast á í hinu ítarlega viðtali að sértækar aðgerðir stjórnvalda til HG á þessu fiskveiðiári eru tæp 104 tonn í þorski og þá er ótalinn væntanlegur þorskeldiskvóti, sem á sl ári var 50 tonn.

– Guðmundur Halldórsson, formaður
Smábátafélagsins Eldingar á norðanverðum Vestfjörðum.“

 

efnisyfirlit síðunnar

...