Haga grásleppan og rauðmaginn sér sem tveir ólíkir ,,stofnar”? - Landssamband smábátaeigenda

Haga grásleppan og rauðmaginn sér sem tveir ólíkir ,,stofnar”?


Föstudaginn 2. apríl birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason:

Sveiflur í grásleppuveiðum:

Haga grásleppan og rauðmaginn
sér sem tveir ólíkir ,,stofnar”?

Mig langar að víkja ögn útaf vananum í þessum pistli, svona í og með vegna páskanna sem í hönd fara. Í stað þess að fjalla um það sem á döfinni er á sviði hagsmunabaráttunnar set ég hér á blað hugrenningar um mál sem valdið hefur miklum heilabrotum og það langt út fyrir raðir fiskimanna. Hér á ég við miklar og óútskýrðar sveiflur í grásleppuveiðum, hérlendis sem annars staðar.

Rannsóknir skortir

Því miður er það svo að vísindalegar rannsóknir á þessum sérkennilega marbúa liggja alfarið niðri. Nú síðast þegar sótt var um fjárveitingu til yfirstjórnar Hafrannsóknastofnunar um verkefni á þessu sviði var því hafnað. Í Noregi eru nánast engar rannsóknir stundaðar og þrátt fyrir að grásleppuveiðarnar séu strandveiðiflotanum mikilvægar á Nýfundnalandi er þessu ekkert sinnt. Þetta er furðulegt í ljósi þess að veiðarnar gefa af sér um 5-6 milljarða króna verðmæti á ársgrundvelli og þar af hérlendis um 1,5 milljarða á síðasta ári. Í löndunum framantöldu ásamt Danmörku og Grænlandi eru stundaðar grásleppuveiðar.

Miklar sveiflur í afla

Sjálfsagt förum við nærri um að skýra í einstaka tilfellum hvað veldur sveiflum í stærð fiskistofna. Þeir þættir sem þyngst hljóta að vega eru hita- og seltustig sjávar, framleiðsla og framboð ætis, hvernig hrygning tekst til og hversu mikið og hvernig er veitt eða ekki veitt. Mikil breyting á hverjum þessara þátta hefur og keðjuverkandi áhrif á alla hina.

Grásleppuveiðar við Ísland hafa ekki farið varhluta af miklum sveiflum í magni. Frá því að kappsamar atvinnuveiðar hófust fyrir árið 1970 hefur veiðin mest farið í um 13 þús. tonn af grásleppu úr sjó árið 1984 og niður í 2400 tonn árið 2000. Í Kanada fór veiðin í 12 þús. tonn árið 1987 en hrundi niður í 750 tonn árið 2000. Danmörk á metið í þessum efnum: Á árinu 1997 veiddust þar 4600 tonn af þeirri gráu úr sjó, en árið eftir einungis 45 tonn. Breytileiki í sókn skýrir þetta ekki með nokkru móti og þessar miklu sveiflur koma ekki heldur heim og saman við mælingar á umhverfis?áttum.

Sérstaða hrognkelsanna

Þessi forneskjulegi fiskur hefur eina sérstöðu í íslenskum fiskveiðum. Talað er um veiðar á grásleppu, en hún er vitaskuld aðeins betri helmingur stofnsins. Hrognkelsi er samheiti hennar og rauðmagans, karlsins hennar (-kelsi þýðir flikki eða bólga). Ástæðan er vitaskuld sú að grásleppan er nýtt hrognanna vegna og því miður hefur ekki komið fram arðbær aðferð til að nýta fiskholdið.

Rauðmaginn hefur aldrei verið nýttur í neinni samlíkingu og raunar eingöngu á Íslandi. Ég hygg að sá misskilningur sé algengari en margan grunar að bleikjan sé “kona” urriðans. Þennan misskilning má sjálfsagt rekja til hrognkelsisins, en þar er þessu öfugt farið með kviðlitinn og kynin.

Tilgáta

Mig langar að setja fram tilgátu sem gæti að hluta til skýrt framangreindar sveiflur. Tilgátan er hvorki flókin eða torskilin: Kynin tvö haga sér, utan örstutts tímabils til viðhalds stofninum, sem tveir ólíkir stofnar. Fyrir vikið er afkoma kynjanna hugsanlega háð ólíkum umhverfisskilyrðum og viðkomubrestur eða öfugt því mögulegur hjá öðru hvoru þeirra. Þá má vel hugsa sér að þetta sé frábær aðferð náttúrunnar til að hindra algeran viðkomubrest stofnsins.

Hvað bendir til þessa? Það er vitað að rauðmaginn og grásleppan ferðast ekki saman upp að ströndinni. Rauðmaginn mætir löngu fyrr og sem slíkur einn af fyrstu vorboðunum. Það er og vitað að vikum saman sér hann alfarið um að púa súrefni í hrognahreiðrin og verja þau. Grásleppan lætur sig hverfa að hrygningu lokinni. Fyrir vikið ferðast þau ekki saman frá ströndinni, á úthafið eða hvert sem för þeirra er heitið.
Það vekur athygli að meðafli hrognkelsa í flotvörpur nær og fjær landi er grásleppa – a.m.k. hef ég aldrei heyrt um rauðmaga í því sambandi.

Hrunið við Nýfundnaland

Mér finnst athyglisvert að skoða hrunið í veiðunum við Nýfundnaland með framangreint í huga. Þar í landi er það bjargföst trú sjómanna að alls ekki megi veiða rauðmagann og því er sáralítið vitað um ástand hans yfirleitt. Ég hef spurst fyrir um hvort menn hafi orðið varir við lítinn rauðmaga einhverjum árum fyrir vertíðina þar árið 2000. Engin svör – ekkert vitað. Er hugsanlegt að rauðmaga”stofninn” sem sjá skyldi um púið og puðið í kring um hrognin sem áttu að skila sér sem hrygnandi fiskur árið 2000 upp að ströndum Nýfundnalands hafi hrunið vegna aðstæðna sem grásleppan slapp við? Einhverjum árum fyrir 2000 minnist ég þess að veiðimennirnir þar í landi fundu hana ekki upp við ströndina, heldur dýpra. Veiðin við Nýfundnaland var flest árin fyrir hrunið með ágætum.

Klókur veiðimaður sem stundar eitt sterkasta veiðisvæðið við Ísland sagði mér að eina vertíðina hefði “grásleppan dengt sér uppí fjöruna, en þegar hún fann ekki rauðmagann fór hún strax aftur á dýpið þar sem veiðin varð þokkaleg. Lítill rauðmagi sást það árið.

Er þetta hluti skýringarinnar?

Til nokkurra ára hef ég reynt að afla mér upplýsinga um gengi rauðmagaveiðanna hér við land af þeirri ástæðu að almennt er talið að góð rauðmagaveiði sé undanfari góðrar grásleppuvertíðar. Af þessari upplýsingaöflun dreg ég hinsvegar þá ályktun að þetta samhengi sé alls ekki óbrigðult.

Sem sagt, bendir þetta ásamt ýmsu öðru til þess að atferli grásleppunnar og rauðmagans sé í flestu eins og að um tvo ,,stofna” sé að ræða og því að hluta skýring á þessum miklu sveiflum í veiðinni?

Arthur Bogason

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...