Grásleppuveiðar og dragnótaveiðar í skjóli „útflöggunar“ - grein í Fiskifréttum - Landssamband smábátaeigenda

Grásleppuveiðar og dragnótaveiðar í skjóli „útflöggunar“ - grein í Fiskifréttum


Í Fiskifréttum 5. nóvember sl. birtist grein eftir Örn Pálsson undir heitinu „Grásleppuveiðar og dragnótaveiðar í skjóli „útflöggunar“ “.

Á nýafstöðnum aðalfundi Landssambands smábátaeigenda bar að venju fjölmargt á góma. Meðal þess var umræða um komandi grásleppuvertíð. Undanfarin ár hefur heildarveiði verið í samræmi við þarfir markaðarins og verð til veiðimanna verið viðunandi. Upplýsingastreymi milli veiðiþjóða á vertíðinni hefur skilað sínu til að viðhalda þessum stöðugleika.

Markaðurinn takmarki veiðina

Þar sem grásleppumarkaðurinn er lítill og afarviðkvæmur hefur það þótt nauðsynlegt að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að veiðin fari umfram það sem markaðurinn kallar eftir. Á síðustu vertíð tókst þetta ekki. Veiði hjá einni þjóðinni fór nokkuð fram úr því sem búist hafði verið við. Þannig varð heildarveiðin 41 þús. tunnur eða um fimmtungi umfram það sem æskilegt hefði verið. Birgðir framleiðenda kavíars eru því í hærri kantinum sem leiðir til þess að draga verður úr veiði á næstu vertíð svo jafnvægi náist.

Stytting veiðitíma

Félagsmenn LS hafa eins og gengur misjafnar skoðanir á því hvaða aðferðum er best að beita til að draga úr veiði. Fyrir liggur að sóknargeta þeirra báta sem hafa grásleppuleyfi er langt umfram það sem veitt hefur verið á sl. árum. Þrjár hugmyndir hafa aðallega verið í umræðunni til að takmarka veiðina. Að setja hámark á afla á hverju veiðisvæði, þrengja reglur um fjölda neta og stytta veiðitíma.

Á aðalfundi LS var samþykkt að kæmi það í ljós að markaðsaðstæður yrðu með þeim hætti að draga þyrfti úr veiði til að minnka lýkur á verðlækkun þá bæri að gera það. Sú aðferð sem samþykkt var að gera tillögu um til sjávarútvegsráðueytisins var að stytta veiðitíma. Undanfarin ár hefur hann verið 3 mánuðir, en á komandi vertíð gæti reynst nauðsynlegt að stytta hann um þriðjung. Tel ég hér vera á ferðinni afarskynsama niðurstöðu, þar sem verið er að hugsa til framtíðar m.t.t. til afkomu fjölmargra aðila.

Háð samstöðu þjóða sem veiða grásleppu

Það sem hér hefur verið ritað er allt háð þeim fyrirvara að aðrar þjóðir sem veiða grásleppu geri slíkt hið sama, það er að þær dragi úr veiðum frá því sem var á síðustu vertíð. Hverfandi lýkur eru á að svo verði ekki, þar sem hagsmunir þjóðanna eru sameiginlegir og hagsmunaaðilar þar ekki síður en hér vel upplýstir um stöðuna. Nýfundnalendingar stjórna veiðum líkt og hér er gert – sóknarkerfi, auk veiðileyfa á ákveðin veiðisvæði, fjöldi neta takmarkaður svo og sá tími sem heimilt er að stunda veiðarnar. Á Grænlandi eru hins vegar engar takmarkanir aðrar en þær sem allir hafa að markaður sé fyrir hrognin. Þar kann því að mæða nokkuð á framleiðendum að sýna ábyrgð. Í Noregi er veiðum stjórnað líkt og hér auk þess sem enginn má veiða meira en sem svarar til 16 tunna. Takmarkaðar áhyggjur þarf að hafa að Dönum, þar sem þeir virðast ekki stunda veiðar nema þegar verð er í sögulegu hámarki sem ekki má búast við á næstu grásleppuvertíð.

Á sl. 10 árum er hlutfall Íslands í heildarveiðinni 30% (31%), Nýfundnalendinga 33% (25%), Norðmanna 15% (17%) , Grænlendinga 14% (23%) og Dana 9% (4%), tölurnar í svigunum eru 5 ára meðaltöl. Það er vonandi að þjóðunum takist að spila farsællega úr þeirri stöðu sem nú er, þannig að hagur veiðimanna og framleiðenda verði sem best tryggður.

Dragnótaleyfi ekki lengur svæðisbundin?

Löngu er orðið tímabært að sjávarútvegsráðuneytið taki til endurskoðunar reglur sem gilda um dragnótaveiðar. Þegar veiðarnar voru aftur leyfðar var það gert með því markmiði að nýta flatfiskinn. Óumdeilt er að dragnótin er kjörin til slíkra veiða. Á hitt ber hins vegar að líta að undangengin fimm fiskveiðiár hefur hlutur þorsks, ýsu og steinbíts verið um 60% af heildarafla dragnótabáta. Í reglugerð um dragnótaveiðar segir að: „Fiskistofu sé eingöngu heimilt að veita skipi leyfi til dragnótaveiða á því svæði sem skipið á heimahöfn enda skal skipið skráð innan þess svæðis, gert þaðan út og útgerð þess eigi þar heimilisfesti“.

Miðin umhverfis landið skiptast i fjögur leyfissvæði. Greinilegt er að reynt er að fara í kringum þetta ákvæði með breytingum á heimilisfesti. Þannig var Sólborg sem er 100 tonna dragnótabátur í eigu Brims í upphafi þessa fiskveiðiárs skráður á Raufarhöfn. Í krafti þess fékk hann leyfi til veiða á svæði 4, milli Rifstanga og Stokksnes og hefur nú þrætt Austfirðina hvern á fætur öðrum, heimamönnum til litillar skemmtunar. Nú nýverið var heimilisfesti Sólborgar fært til Grenivíkur og í krafti þess eru dragnótaveiðar nú stundaðar á svæði 3, Horn að Rifstanga. Annað skip öllu stærra og þekktara, Bjarmi SU (áður BA) hefur nú verið skráður á Eskifirði. Bjarmi er 200 tonna og 33 m langt skip og skarkar nú með dragnótina á Austfjörðum.

Lúti sömu reglum og togarar

Landssamband smábátaeigenda ályktaði eftirfarandi um dragnót á aðalfundi sínum 14. og 15. október sl.: „Landssamband smábátaeigenda leggur til að endurskoðaðar verði reglur um dragnótaveiðar m.t.t. breytinga sem orðið hafa á veiðarfærinu, stærð skipa sem stunda veiðarnar, veiðisvæða, fjarlægðar frá landi og samsetningu afla þegar tekið er mið af því að dragnótaveiðar voru leyfðar á nýjan leik til að nýta flatfiskinn. Það er krafa fundarins að dragnótabátar 15 m og lengri lúti sömu reglum um veiðisvæði og togarar.“ Það er von mín að sjávarútvegsráðherra taki vel í þær hugmyndir sem í ályktuninni eru og komi þar með almennilegu skikki á veiðar með dragnót.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

1 Athugasemdir

Sællir. mér alveg ofbíður frekjan í ykkur,vitið þið ekki að til er talsverður floti báta ca.12-70 tonn,sem farið hefur á snurvoð eftir að búið er að skerða ýsu og þorskkóta,til að færa SMÁBÁTUM !!
Ætlið þið að senda þessa punga út á togaraslóð?
Mér fynst þetta lísa ótrúlegum ódreingskap í garð annara en eigin félagsmanna

 

efnisyfirlit síðunnar

...