Framtíð eða forneskja? - Landssamband smábátaeigenda

Framtíð eða forneskja?


Eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason birtist í Fiskifréttum s.l. föstudag.

Sem ég rita þessar línur er ég enn í páskaskapi, hef notið þess að skrölta í eigin garði yfir hátíðarnar og annað veifið hlustað á fréttir af Fischer og móðursýki heimspressunnar. Hvað sem öllum þeirra formælingum líður er gott að búa á Íslandi. Til merkis um þetta er ýmislegt: Þannig varð það frétt um páskana á mbl.is að maður fótbrotnaði og ekki er langt síðan að þess var getið í fjölmiðlum að hrútur beit bónda í fingur. Þetta er dásamlegt.

Svona hugarástand er kannski ekki það heppilegasta til að rita skoðun í Fiskifréttir. Þar þarf helst að vera ögn uppi á manni tippið og í knérunn vegið. Hvað er til bragðs? Ætti ég að elta ólar við skrif Björns Dagbjartssonar, sem í Skoðun Fiskifrétta þann 18. mars sl. heldur blákalt fram að „Talsmenn útgerðar smærri fiskiskipa hamast á ráðherra og ráðuneyti að leyfa veiðar á sífellt smærri og yngri fiski fyrir stundargróða sinn.....“? Æi, fjandakornið. Þessi ósannindi eru vart svara verð. En burtséð frá því -- ætli honum hafi aldrei dottið til hugar sá möguleiki að með því að vernda smáfisk sé verið að ala upp smáfiskastofn? Allavega virðist það ekki valda honum miklum áhyggjum að samsetning þorskstofnsins verður stöðugt lélegri eftir því sem smáfiskaverndunarstefnan er keyrð lengur.

Forskot?

Það vakti athygli mína fyrir skömmu hvað Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði á ráðstefnunni „Fiskurinn og framtíðin“ sem sjávarútvegsráðuneytið stóð fyrir 4. mars sl. Í ræðunni kom fram að hann telur að Ísland hafi misst forskot sitt í sjávarútvegsmálum. Þetta er fullyrðing af stærðargráðu sem vert er að ígrunda. Hann spurði sig nokkurra grundvallarspurninga, s.s. hvort við hefðum forskot í tækni, hvort stöðugleiki væri í greininni og hvort fjárfestar væru áhugasamir. Niðurstaðan hans var nei í öllum tilfellum.

Það fyrsta sem ég velti fyrir mér er hvort Íslendingar hafi einhvern tíma haft eitthvað „forskot“ í sjávarútvegi á alþjóðlegum vettvangi. Má vera: Við færðum sannarlega út í 200 mílur og börðumst fyrir því að mega murka lífið úr fiskistofnunum okkar sjálfir undir vísindalegu eftirliti, sem augljóslega er skynsamlegra en að útlendingar pjakki við það eftirlitslaust. Og sannarlega eru íslenskir sjómenn þeir afkastamestu á jörðu hér “pr. haus” – en við erum nú bara að veiða 1,5 - 2% af heimsaflanum. Útrás íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur vissulega staðið í einhver ár – en af fréttum að dæma er þar ekki tóm sæla á ferð.

Mér er næst að halda að forskot okkar hafi alla tíð verið heldur takmarkað og þá einkennst af stuttum “mómentum”, sögulega séð a.m.k. Og ég er ekki að gleyma kvótakerfinu, sem Þorsteinn Már tiltók sérstaklega.

Eigum alla möguleika

Á sama hátt er ég ekki í vafa um að Íslendingar eiga, með breyttum hugsunarhætti, frábæra möguleika til að verða þungavigtarþátttakendur í þróun sem hafin er frá þeim enda markaðskeðjunnar sem öllu ræður. Markaðsdeildir stórfyrirtækja í sölu á matvörum eru byrjaðar að breyta kúrs, byrjaðar að skrifa upp eigin siðareglur um innkaup á matvælum hvers konar, þ.m.t. fiski. Fyrir u.þ.b. ári auglýsti Carrefour, annar stærsti söluaðili á matvörum í heiminum, að fyrirtækið keypti einungis þorsk frá Íslandi sem veiddur væri á línu – þannig vildi fyrirtækið stuðla að ábyrgum fiskveiðum. Carrefour er leiðandi fyrirtæki og því augljóslega tímaspursmál hvenær önnur fylgja í kjölfarið. Mér er kunnugt að þessi stefnumótun Carrefour er síður en svo í bakslagi – þvert á móti. Þar á bæ segja menn fullum fetum að handfæra- og línuveiðar séu veiðar framtíðarinnar.

Hvar liggur forneskjan?

Hvernig ætla íslensk stórfyrirtæki í sjávarútvegi að bregðast við? Með sama hundshausnum og þegar Landssamband smábátaeigenda hefur haldið því fram að þetta sé óumflýjanleg þróun? Eða áframhaldandi ólátum útí línuívilnun og ganga svo langt að kalla hana forneskju og frat? Mér þætti fengur í því að fá að vera viðstaddur þar sem sömu aðilar útskýra þennan málflutning fyrir markaðsmönnum Carrefour. Það læðist að mér sá grunur að forneskjan verði talin liggja annars staðar en í því að Íslendingar hygli (þó enn sé með afar klaufalegum hætti) veiðarfæri sem þessir aðilar telja að tilheyri framtíðinni.

Þær ákvarðanir sem mestu skipta í framtíð verða hvorki teknar af stjórnvöldum né hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Þær verða teknar af þeim sem næst starfa neytendum. Er hugsanlegt að fjárfestum aukist áhugi við breytta stefnu? Er hugsanlegt að núverandi stefna tilheyri forneskju frekar en framtíð?

Svo ég detti nú í gírinn, þá sýnist mér jafnvel að smábátaflotinn sé sá hluti íslensks sjávarútvegs sem hafi sannarlega forskot á alþjóðlega vísu. Mér vitanlega á hann sér ekki hliðstæðu í virkjun nýjustu tækni, bæði hvað varðar smíði og hönnun, öryggisþætti, veiðigetu og hvaðeina.

Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...