Kaþólskan á fullu... - Landssamband smábátaeigenda

Kaþólskan á fullu...


Eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason birtist í Fiskifréttum 29. apríl sl.

Síðasta hálfan annan áratug hafa trillukarlar hringt í mig um þetta leyti árs og spurt hvort ég telji að bætt verði við þorskkvótann eða af klipið. Ég, sjálfur bjartsýnismaðurinn, hef undantekningalaust spáð því að skorið verði niður, engu við bætt eða litlu sem engu skipti. Þetta hefur reynst rétt í flestum tilfellum. Hvernig fer um næstu fiskveiðiáramót veit ég ekki, en spái harðlífi og leiðindum.

Þessi langa og pínlega þrautarganga vísindamanna með þorskstofninn er fjarri því sem lagt var upp með þegar „ábyrgar” og „sjálfbærar” fiskveiðar voru rúnhöggnar í lög á síðustu öld og dauðhreinsaðar með lúðraþyt og söng fyrir stuttu, þegar dagakerfi handfærabáta var lagt af. Í gamla daga (upphafi kvótakerfis) var talað fjálglega um langtímaafrakstur uppá 350 þúsund tonn af þorski (stutt síðan að sú tala „var við sjóndeildarhring“) og alþjóðasamfélaginu misþyrmt árum saman með trúboðum íslenska „þekkingarþorpsins“.

Eins og vörubíll í hnakkann

Skemmst er að minnast að hingað kom víðfrægur breskur blaðamaður, staldraði við í yndislegum félagsskap í nokkra klukkutíma og flaug því næst til sinna heimkynna. Þar skrifaði hann voða fína bók og gaf Íslendingum hæstu einkunn allra þjóða varðandi veiðar á villtum botnfisktegundum. Ekki slæmt, en svo kemur frétt úr togararalli eins og vörubíll í hnakkann á öllu saman.
Viðbára Hafró er að látlaust hafi verið veitt umfram ráðgjöf. Skoðum það. Árið 1984 lagði Hafró til 200 þúsund tonna hámarksafla. Flotinn gamsaði í sig 323 þúsundum tonna – 62% umfram ráðgjöf. Hafró lagði engu að síður til 300 þúsund tonn árið eftir, en einfaldur töflureiknir sýnir að hafi verið vit í ráðgjöfinni 1984 hefði Hafró lagt til 177 þúsund tonn árið eftir, en ekki 70% umfram þá tölu. Sé farið styttra aftur í tíma lagði stofnunin til árið 1997 að veidd yrðu 218 þúsund tonn af þorski, en óvart veiddust 227 þúsund. Árið eftir lagði Hafró engu að síður til 250 þúsund tonna hámarksafla.
Afsakanir Bill Clinton – „I didn’t inhale” og „I didn’t have sex with that woman” verða skyndilega allrar athygli verðar.

Seiðarall ónýtt – eftir 33 ár

Árið 1970 var farið í fyrsta seiðarallið við Ísland. Tilgangurinn var að finna samband á milli „0-grúppunnar“ og nýliðunar, ásamt því að afla þekkingar um hvernig hrygning hefði til tekist. Þessar vísitölur reyndust ekki í samræmi við aðrar mælingar og á árinu 2003 var farið í síðasta seiðarallið. Það tók semsé 33 ár að komast að þeirri niðurstöðu að þetta rall væri tóm tjara.

Ef eitthvað væri að marka seiðavísitölurnar hefðu risaárgangar þorsks átt að alast upp við Ísland látlaust síðan 1997 og mælingin á árinu 1999 var svo stjarnfræðileg að sá stofn hefði þurft landvistarleyfi til að rúmast innan íslensks yfirráðasvæðis. Og hitt: Ef tölurnar væru marktækar hefur hrygning tekist með fádæmum öll þessi ár, þrátt fyrir hrygningastofn í lágmarki.

Togararall – hversu mörg ár?

Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að togararallið sé liðónýtt „mælitæki“ og geti aldrei gert betur en að vanmeta, oftast gróflega, stærðir botnfiskstofna.
Á undanförnum árum hafa orðið umtalsverðar breytingar í umhverfi hafsins. Hitabreytingar, breytt útbreiðsla stofna og hegðan, breyttar fiskigöngur og hvað eina. En einu geta menn treyst: Togararallið breytist ekkert. Það stendur jarðfast sem Péturskirkjan í Róm og húsbændurnir ámóta nýjungagjarnir.

Laxarall í þurrum malarholum

Ég hef áður notað myndlíkingar í þessu sambandi og finnst því við hæfi að líkja þessu við að „rallað“ væri í einhverri laxveiðiánni. Veiðistaðir yrðu ákveðnir í upphafi og sama hvað á gengi, veitt skal á þeim stöðum sem ákveðnir voru, punktur basta. Nú gæti áin hafa tekið upp á því í einni vorleysingunni að brjóta sér leið framhjá nokkrum af veiðistöðunum sem ákveðnir voru fyrir t.d. 20 árum, svo tala sé tekin af handahófi. Það breytir engu. Þó eftir standi skraufþurrar malarholur skal þar „veitt“ og það vegið inní niðurstöður. Og fyrir alla muni – nota sömu veiðarfærin.
Ég velti því fyrir mér, í ljósi þrjátíuogþriggja áranna sem það tók að dæma seiðarallið úr leik, hversu mörg ár það muni taka að komast að hinu sama með togararallið. Ég vona að það verði ekki í hlutfalli við stærð fiskanna sem elst er við.

Góðu fréttirnar eru semsé þær, að það er meira af þorski í sjónum en togararallið mælir. Slæmu fréttirnar eru þær að við fáum ekki að veiða í samræmi við það sem náttúran býður. Verstu fréttirnar eru þær að það er minna af þorski í sjónum en æskilegt væri. Ástæðuna tel ég m.a. þessa:

Smáfiskalíkneskið

Til tveggja áratuga hefur verið veitt úr stofnstærð (hvort sem hún er mæld rétt eða ekki) en ekki stofnformi. Þetta eru í mínum huga grundvallarmistök.
Til að árétta enn frekar stefnufestuna er álíka jarðfast fyrirbrigði á ferðinni og áður var getið og heitir Smáfiskavernd. Þar er gengið út frá því að stuttir þorskar séu ungir og langir eldri. Þetta er rangt. Stuttir fiskar geta verið gamlir og ungir langir. Rétt eins og hjá mannfólkinu. Ef formúlan gilti þar hefði afi minn í föðurætt aldrei verið fermdur og hvað þá sloppið í Ríkið á sinni 77 ára ævi.

Að auki er þorskurinn við Ísland ekki einnar ættar. Hann samanstendur af fjölmörgum litlum stofnum (undirstofnum?) en ráðgjöf Hafró hefur aldrei tekið tillit til þessa.

Ef veitt væri samkvæmt stofnformi en ekki stofnstærð væri veitt hlutfallslega mikið af smáfiski þegar mikið væri af slíkum kvikindum, mikið af millifiski þegar svo háttaði til og lítið af stórfiskum ef fáir slíkir væru á ferðinni. Og öfugt. Mitt prívat og persónulega veiðieðli segir mér að þetta sé rökrétt, heilbrigð og eðlileg nálgun við fiskveiðar – og yfirleitt allar veiðar.

Samkvæmt löggildri fiskifræði er náttúrulegur dauðdagi fiska því hærri sem þeir eru yngri. Nota bene - aðferð náttúrunnar. Af einhverjum ástæðum hafa vísindamenn ákveðið að „ballansera“ á móti þessu og reynt að stilla veiðidauðan í öfugu hlutfalli.
Sjálfum finnst mér rökréttara að læra af náttúrunni en að hafa vit fyrir henni.

Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...