Aukin verðmæti í botnfiski - Landssamband smábátaeigenda

Aukin verðmæti í botnfiski


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 12. ágúst sl.

Í síðastliðinni viku gaf sjávarútvegsráðuneytið út 7 reglugerðir sem lúta að stjórn fiskveiða á komandi fiskveiðiári. Reglugerðirnar eru lítt breyttar frá því sem nú er. Þau atriði sem ég kýs að gera hér að umtalsefni varða heildarafla og ígildastuðla.

Önnur grein reglugerðarinnar um veiðar í atvinnuskyni fjallar um leyfilegan heildarafla í óslægðum botnfiski og í 13. grein hennar er ákvæði um þorskígildisstuðla. Við samanburð milli ára á þeim 14 fisktegundum sem tilgreindar eru í 2. greininni kemur ýmislegt fróðlegt fram.

Úthlutun hækkar

Í tonnum talið er úthlutunin nú 495.700 tonn, hækkar um 16.634 tonn milli ára eða 3,5% eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Mest er aukningin í ýsu, 14.288 tonn, en ýsukvótinn fer í 105 þúsund tonn. Þá hækka langa og skötuselur um fjórðung hvor tegund og langlúra um fimmtung. Ufsinn eykst um 10 þúsund tonn, fer í 80 þúsund. Minnkun er í þremur tegundum. Þorskurinn lækkar um 3,4%, var 205 þúsund tonn, en verður á næsta fiskveiðiári 198 þúsund tonn. Ótaldar eru 6 tegundir sem breytast ekkert milli ára.

Verðmætin aukast

Þegar litið er til þorskígilda – verðmæta – koma í ljós ánægjuleg tíðindi. Alls eru þau nú 321.174 en verða á komandi fiskveiðiári 344.347, hækka um 23.173 ígildi. Þorskígildi í botnfiski aukast því um 7,2% milli ára. Af einstaka tegundum hækkar grálúðan mest í verði er nú 1,64 en verður 2,04, um fjórðungs aukning. Ígildastuðull karfa hækkar um 14,9%, skarkoli hækkar um 14,2% og ýsan 10,3%. Þannig hækka ígildastuðlar 9 tegunda, en 4 verða lægri á næsta ári en á þessu fiskveiðiári. Mest er lækkunin í keilu og löngu um 10% í hvorri tegund.

Sprenging í útflutningi á ferskum fiski

Það hefur ekki farið fram hjá neinum í sjávarútvegi hvílík sprenging hefur orðið í útflutningi á ferskum fiski. Aðdáunarvert er hversu fyrirtækin eru fljót að skipta yfir og nýta sér þá möguleika sem eru bestir hverju sinni. Af hverju viðtalinu af öðru við forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja dylst það engum að tækifærin liggja í ferska fisknum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar eru í Hagtíðindum – Sjávarútvegur, 9. júní síðastliðinn var ferskur þorskur orðinn 16,5% af heildarútflutningi þorsks á síðastliðnu ári og verðmætin 19,1%. Aukningin í magni milli ára var 41,7%.

Ferska ýsan komin yfir 50%

Ýsan bætti um betur þar varð aukningin 88,4%; 100,2% í heilli ýsu og 52,8% í flökum. Þar af var hlutur ferskrar heillar ýsu í heildarmagni 40% eða 15.831 tonn. Með þessari gríðarlegu aukningu er hlutur ferskrar ýsu og flaka í heildarútflutningsmagni kominn yfir 50% eða alls 19.848 tonn af 39.448 tonna heildarútflutningi ýsuafurða. Það vekur hins vegar athygli að verð á nýrri, kældri eða ísvarinni heilli ýsu er afar lágt, hvert kílógram skilaði aðeins 120 krónum. Þó það verð sé í lægri kantinum verður að telja það viðunandi þegar tekið er mið af gríðarlegu framboði sem var á ýsu í fyrra.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

...