Rýmka þarf geymsluréttinn milli ára - Landssamband smábátaeigenda

Rýmka þarf geymsluréttinn milli ára


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 14. október sl.

Í dag heldur Landssamband smábátaeigenda aðalfund, þann 21. í röðinni, en 5. desember nk. fyllir félagið annan tug starfsævi sinnar. Þótt það sé freistandi að nota þennan vettvang til að stikla á nokkrum þáttum í sögu LS verður það að bíða betri tíma.

Fjölmargar tillögur liggja fyrir aðalfundinum, sumar eru endurfluttar en aðrar hafa verið samdar á fundum svæðisfélaga LS nú í haust. Meðal þeirra eru tillögur um að banna notkun flottrolls við loðnuveiðar og banna loðnuveiðar yfir sumarmánuðina. Varðandi síðara atriðið tel ég aðeins vera tímaspursmál hvenær það taki gildi. Yfir sumarið er loðnan feit og afarmikilvæg fæða fyrir þorskinn.

Skaðsemi flottrollsins

Þeir sem veiða með flottrolli halda því fram að ekki sé hægt að ná útgefnu aflamarki loðnu nema með hjálp flottrollsins. Andstæðingar flottrollsins benda hins vegar á að hér áður fyrr hafi gengið prýðilega að veiða loðnuna eingöngu í nót og ef þeir fái frið fyrir æðandi flottrollinu muni það takast áfram. Óumdeilt er að flottrollið kemur í veg fyrir að loðnan þétti sig í eins miklum mæli og hún gerði fyrir daga þessa veiðarfæris. Þannig dregur flottrollið úr getu nótaskipanna til veiða. Þá hefur verið bent á að togað er á móti loðnugöngunni sem valdi því að hún hægi verulega á sér. Það sést best á því að sjómenn í Þorlákshöfn hafa varla orðið varir við loðnugöngu sl. 3 ár. Loðnan hefur í minna mæli en áður fyrr skilað sér á helstu hrygningarslóðir þorsksins og það hefur spillt fyrir lífsskilyrðum hans. Einnig hefur verið bent á að þegar flottrollinu sé beitt verði á vegi þess annar fiskur, sem valdi bæði ósýnilegu brottkasti og afla sem skili ekki verðmæti. Undirritaður er þeirrar skoðunar að Hafrannsóknastofnun eigi að stíga skrefið til fulls og láta áhyggjur okkar helsta loðnusérfræðings, Hjálmars Vilhjálmssonar, á notkun flottrollsins ráða. Hjálmar! Það vantar að þú komir með tillögu og léttir þannig af þér áhyggjunum.

Heimila á frjálsan flutning aflamarks milli ára

Í lok síðasta fiskveiðiárs átti sér stað mikill hamagangur við að bjarga sér fyrir horn með ónýttar veiðiheimildir. Í krókaaflamarkinu voru fjölmargir nýliðar sem voru ekki alveg meðvitaðir um hvernig kerfið virkaði. Einnig var nokkuð um að menn færu seinna af stað á handfærunum en áður þar sem veiðiheimildir voru nokkru minni en þeir höfðu fengið í sóknardagakerfinu. Þetta hvoru tveggju leiddi til þess að menn lentu í basli með að ná kvótanum. Mitt í öllum erlinum við að bjarga veiðiheimildum fyrir horn, velti ég því fyrir mér hvers vegna verið sé að takmarka það aflamark sem flytja megi yfir á næsta ár.

Breytt viðhorf

Heimilt er að flytja allt að 20% af aflamarki hverrar botnfisktegundar ....frá einu fiskveiðiári yfir á það næsta” segir í lögum um stjórn fiskveiða. Frá því þessi regla var sett hafa átt sér stað fjölmargar breytingar, gjörbreytt viðhorf og fleira í þeim dúr sem ætti að gera þessa takmörkun óþarfa. Má þar nefna að nú er aðeins heimilt að flytja frá sér aflamark umfram aflamark sem flutt er til báts sem nemur 50% af samanlögðu aflamarki sem viðkomandi bátur fékk úthlutað. Þá er 50% veiðiskylda annað hvert ár.

Viðhorfið er breytt. Sá hugsunarháttur ríkjandi að fá sem mest verð fyrir aflann. Segjum sem svo að ætlunin sé að veiða í mars og apríl þegar verð eru þokkaleg, það gangi ekki upp og lélegt verð blasir við um sumarið. Hvers vegna á sá aðili ekki að geta beðið rólegur fram á haustið og veitt þegar verð er hátt?

Úrelt ákvæði

Kannski má rekja takmörkun á þessari færslu milli ára til þess að Hafrannsóknastofnun hafi viljað tryggja að aflaheimildir söfnuðust ekki upp. Þær röksemdir eiga ekki við í dag því Hafró hefur einmitt lagt að mönnum að geyma fiskinn í sjónum, þannig að hann gefi sem mest verðmæti.

Nokkuð er sama hvernig ég velti þessu ákvæði fyrir mér, ég kemst alltaf að þeirri niðurstöðu að það sé úrelt og sé beinlínis hemill á að hægt sé að ná hámarksverðmætum út úr úthlutuðum veiðiheimildum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

...