Fyrirhugaðar breytingar á slægingarstuðlum - Landssamband smábátaeigenda

Fyrirhugaðar breytingar á slægingarstuðlum


Í Morgunblaðinu í dag er eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson „Fyrirhugaðar breytingar á slægingarstuðlum“:

„Í Morgunblaðinu í gær ritar framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna grein sem ber heitið „Af slægingarstuðlum“. Þar ræðst hann á formann Eldingar, félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum, Gunnlaug Finnbogason, með ótrúlegum hætti. Hann segir grein hans sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag „einstaklega rætna grein í garð Hjartar Gíslasonar blaðamanns“. Í greininni leyfir Gunnlaugur sér að hafa þá skoðun að nefndur Hjörtur sé málpípa LÍÚ. Það er framkvæmdastjóra LÍÚ nægjanlegt tilefni til að túlka greinina á framangreindan hátt.

„Svokallaðir“

Framkvæmdastjórinn hefur tamið sér að taka það sérstaklega fram þegar hann fjallar um smábátaeigendur, smábáta, krókabáta og það sem viðkemur og tengist útgerð smábáta, að hér sé um „svokallaða“ að ræða. Þannig segir hann í grein sinni, Gunnlaug formann Eldingar, vera „formann félags eigenda svokallaðra smábáta á norðanverðum Vestfjörðum“. Í grein hans má sjá eftirfarandi orðnotkun:
• „hinna svokölluðu smábátamanna“
• „útgerðir svokallaðra smábáta“
• „hafa á svokallaða krókabáta“
Um títtnefnt orð segir í Orðabók Menningarsjóðs: „sem er nefndur eða kallaður svo, en e.t.v. með vafasömum rétti“.

Aukinn réttur vigtunar á slægðum afla

Á fundum sjávarútvegsráðuneytisins og Fiskistofu um endurskoðun reglugerðar um vigtun kom fram ósk frá Samtökum fiskvinnslustöðva að vigtun til kvóta yrði alfarið miðuð við slægðan fisk, undir þetta tóku fulltrúar LÍÚ. Fulltrúar smábátaeigenda og Samtaka fiskvinnslu án útgerðar voru á öðru máli, þeir töldu slíkt óráð. Bentu þeir á að vinnslur sem sérhæfðu sig í útflutningi á ferskum fiski vildu fá fiskinn óslægðan og væri hann jafnvel flakaður þannig. Einnig var bent á að breytingin mundi leiða til aukins kostnaðar við vigtun. Vinnsluaðilar þyrftu að koma sér upp löggiltum vigtunarbúnaði og hafa sérstakan starfsmann með réttindi til vigtunar. Einnig væri ótækt að útgerðir þyrftu að eiga það undir fiskverkendum um land allt hvort þeir fengju rétta vigt á fiskinn eftir að þeir hefðu slægt hann.
Ávinningurinn væri ekki það mikill af breytingunni að hún ætti rétt á sér.
Þegar þessar skoðanir voru komnar fram tók formaður nefndarinnar, Vilhjálmur Egilsson, þá ákvörðun að leggja til að reglugerðinni yrði breytt á þann hátt að óskaði útgerðaraðili eftir að óslægður afli yrði vigtaður eftir slægingu mundi sú vigtun gilda til kvóta.

Slægingarstuðull

Á þessum tímapunkti hófu fulltrúar SF og LÍÚ að ræða slægingarstuðulinn, þeir töldu hann vera of háan í þorski og ýsu. Í gildandi reglugerð er hann hæstur í
• löngu 20%
• 16% í þorski, ýsu og ufsa
• 10% í steinbít, keilu og skötusel
• 8% í grálúðu, skarkola, sandkola, skrápflúru, langlúru og þykkvalúru.
Mesta áherslu lagði fulltrúi LÍÚ á að lækka stuðlana í þorski, ýsu og steinbít.

Þó slægingarstuðlar tilheyrðu ekki reglugerð um vigtun sjávarafla ákvað formaður nefndarinnar að skoða málefnið. Hafrannsóknastofnun lagði fram tölur um slóginnihald í þorski, ýsu og ufsa. Fulltrúi stofnunarinnar tók það skýrt fram að tölurnar byggðust aðeins á frumathugun. Þar kom fram að slóginnihald í þessum þremur tegundum var misjafnt eftir því hvaða veiðarfæri voru notuð og á hvaða árstíma var veitt. Ekki lágu fyrir upplýsingar um slóginnihald á einstökum veiðisvæðum. Slægingarstuðull í þorski var að meðaltali 15% en 12% í ýsu. Þegar sundurgreint var eftir veiðarfærum var meðaltalið í þorski eftirfarandi:

Net 19%
Lína 10%
Handfæri 10%
Dregin veiðarfæri* 14%
* troll og dragnót, ekki sundurgreint

Við þessar upplýsingar óx þeim SF og LÍÚ mönnum ásmegin og lögðu til að stuðlar í þorski og ýsu yrðu lækkaðir í 10%. Fulltrúar LS voru andvígir því að hreyfa við stuðlunum. Þeir hefðu verið lækkaðir 1999 úr 20% í 16% á grundvelli ítarlegrar skoðunar og umræðu. Hér væri aftur á móti vinnuplagg byggt á frumathugun sem ekki væri fullnægjandi við ákvörðun um breytingar í málefni sem varðaði kvótaúthlutun. Allar slíkar breytingar yrðu að fá ítarlega umfjöllun og engu að breyta nema fyrir lægi athugun á málinu í heild. Til dæmis þyrfti að skoða hvort stuðlar ættu að vera tengdir veiðarfærum, árstíma og veiðisvæðum.
Þar sem ákvörðun um heildarafla væri í afla upp úr sjó mundi veiðarfæratenging stuðla að, sbr. plagg Hafró, hækkun krókaaflamarks í þorski um 7%, fyrir dregin veiðarfæri yrði hækkunin rúm 2%, en þorskaflamark fyrir net mundi lækka um 3,5%.

Sjávarútvegsráðherra skoði málið nánar

Það kom því Landssambandi smábátaeigenda á óvart að sjávarútvegsráðherra skyldi boða breytingar á slægingarstuðlum í þorski, ýsu og ufsa sem væru ekki alfarið veiðarfæratengdir. T.d. liggur fyrir í plaggi Hafró að slóginnihald í þorski sem veiddur er í net er 19% en ekki 12% eins og boðað er.
LS hefur rætt málefnið við sjávarútvegsráðherra og komið sjónarmiðum sínum á framfæri og óskað eftir því að hann fari betur yfir málefnið, enda nægur tími þangað til boðuð breyting á að koma til framkvæmda.


Örn Pálsson framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...