„Mikill ávinningur af lækkun krónunnar“ - Landssamband smábátaeigenda

„Mikill ávinningur af lækkun krónunnar“


Eftirfarandi viðtal Sigurðar Boga Sævarssonar við Örn Pálsson birtist í 4. tbl. Ægis 2006 :

„Fall krónunnar að undanförnu kemur sér vel fyrir útgerðina. Afurðir hækka í verði, þó aðstæður leiði jafnframt til þess að skuldir í erlendum myntum aukast, en síðustu ár hafa smábátamenn í vaxandi mæli fært sig yfir í erlend lán. Þannig eykst greiðslubyrðin nokkuð, en engu að síður er ávinningurinn af lækkun krónunnar fyrir útgerðina mikill“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Frá áramótum hefur gengi krónunnar veikst um 28% og evran komin yfir 95 kr. þegar blaðamaður Ægis ræddi við Örn. „Ef henda á reiður á ummæli hagspekinga um gengismál að undanförnu hef ég stundum á tilfinningunni að helsta ástæðan fyrir þessari siglingu krónunnar niður á við sé vegna þess að hún sé töluð þannig. Ef rétt reynist má ekki búast við að hún styrkist fljótlega aftur. Fyrir tveimur árum sögðu menn að gengisvísitalan væri á réttu róli í kringum 130. Sjálfur hallast ég hins vegar að því að til lengri tíma litið verði hún töluvert lægri svona niðurundir 115, það er Bandaríkjadollarinn á 68 til 70 kr. og evran nærri 85 kr. Mér heyrist að í dag séu ansi margir farnir að nefna þessar tölur og það gerir mig enn staðfastari í þessum vangaveltum,“ segir Örn.

|

Spádómar eru erfiðir


Þegar litið er til síðustu fimm ára hafa sveiflurnar á genginu verið mjög miklar og segir Örn að með ólíkindum sé að sjávarútveginum hafi alltaf tekist að bregðast við aðstæðum. „Þú manst sjálfsagt eftir þessu ástandi sem hér var á árinu 2001. Þá fengust yfir 100 kr. fyrir dollarann í tæpt ár og evran var að gefa okkur 85 til 87 kr. Mér finnst ósennilegt að við lendum aftur inn í svipuðum aðstæðum. Nú er evran orðin töluvert sterkari gjaldmiðill en dollar og mér sýnist sú þróun ekki vera á undanhaldi. Sterk evra kemur sér mjög vel fyrir smábátaútgerðina, þar sem mikill meirihluti aflans er seldur á það svæði. Gera má ráð fyrir að gengi hennar verði í næstu mánuði um 90 krónur, en um síðir leiti hún jafnvægis og vona ég að hún gefi okkur ekki færri krónur en 85,“ segir Örn og bætir við að um gengismál og fiskgengd gildi hið sama. Spádómar séu alltaf erfiðir viðfangs, forsendurnar síbreytilegar og sífellt óvæntar uppákomur.

„Eina ráðið sem Seðlabankinn hefur til að hafa hemil á verðbólgunni er hækkun stýrivaxta. Við það eykst vaxtamunur við önnur lönd, sem gæti kallað á enn meiri áhuga erlendra aðila í að fjárfesta í skuldabréfum í íslenskum krónum. Það gæti því styrkt krónuna meir en æskilegt væri gagnvart útflutningnum en um leið myndi verðbólgan minnka. Kannski er þetta það umhverfi sem við erum komin í ef við ætlum að halda verðbólgunni í 2,5% á hverju tólf mánaða tímabili sem er það markmið sem sett hefur verið.“

|

Fiskverð hefur hækkað mikið


Miklar verðhækkanir að undanförnu segir Örn vera áhyggjuefni og því verði að ná tökum á verðbólgunni strax. „Með verðbólgu hækka skuldir almennings, verðlag vöru og þjónustu og þar með allur tilkostnaður við útgerðina sem gæti leitt til þess að ávinningur okkar af hækkandi fiskverði skili sér ekki að fullu,“ segir Örn og heldur áfram:
„Fiskverð hefur hækkað mikið að undanförnu. Í kringum síðustu áramót gátu menn vænst þess að fá 100 kr. fyrir hvert kg. af ýsu. Verðið í dag er hins vegar komið í 200 kr. og hefur jafnvel náð enn meiri hæðum á góðum degi. Til dæmis fengust 400 kr. fyrir ýsuna í vikunni eftir páska þegar fisk vantaði á markað vegna hrygningarstoppsins. Mikil og aukin eftirspurn eftir íslenskum fiski að undanförnu vinnur líka með okkur. Þegar Kínafiskurinn kom inn á markaðinn kom tímabundin niðursveifla, sem ég tel að nú sé afstaðin. Fiskkaupendur þekkja íslenskar afurðir af gæðunum og þá á ég ekki síst við línufiskinn sem gjarnan kemur á markað erlendis innan við sólarhring eftir að hann var veiddur hér á grunnslóðinni.“

 

efnisyfirlit síðunnar

...