Smábátakerfið: Gríðarleg samþjöppun - Landssamband smábátaeigenda

Smábátakerfið: Gríðarleg samþjöppun


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum í dag:

Sjávarútvegsráðherra hefur nú ákveðið aflahámörk 17 tegunda fyrir næsta fiskveiðiár. Heildartonnafjöldi þeirra er 628.700 á móti 617.500 nú. Veiðiheimildir eru óbreyttar í 8 tegundum, aukning er í 5 tegundum og í 4 tegundum er kvótinn minnkaður. Aukið er myndarlega í keilu og skötusel, en mestu skerðingarnar verða í skrápflúru, sandkola og úthafsrækju.

Þegar litið er yfir úthlutunina er það þorskurinn sem ég staldra einna helst við. Þar gerast þau tíðindi að sjávarútvegsráðherra víkur frá hugmyndum Hafrannsóknastofnunar um að útkoma úr aflaregluformúlu gefi 187 þúsund tonn með því að gefa út 6 þúsund tonna hærri veiðiheimild. Skerðing þorskkvótans milli ára verður því ekki 5,6%, heldur 2,5%. Helst hefði ég vilja sjá ráðherrann stíga fleiri skref fram á við og auka þorskkvótann frá því nú er.

LS mælti með 220 þús. tonnum

LS mælti með því að gefinn yrði út 220 þúsund tonna jafnstöðuafli næstu 3 fiskveiðiárin. Tillagan var óbreytt frá því sem félagið mælti með fyrir ári, enda ekkert sem kallar á breytingar þar á. Meðal þess sem haft var til hliðsjónar er tilfinning sjómanna, þeirra sem eru á vettvangnum allan ársins hring. Þekking sem byggð er á áratuga reynslu, skoðunum dagbóka þar sem hliðstæðna er leitað, ár- og veðurfari, hitastigi, magainnihaldi, holdafari þorsksins og síðast en ekki síst aflabrögðum. Það er mín skoðun að þessar upplýsingar hafi alltof lítið vægi í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Stöðugt hringl með heildaraflann síðastliðin ár skiptir ekki nokkru máli við uppbyggingu þorskstofnsins, en hefur afar neikvæð áhrif á útgerðina.

Stærri bátar og öflugri

Það hefur vart farið fram hjá lesendum Fiskifrétta að miklar breytingar hafa átt sér stað á örstuttum tíma í útgerð krókaaflamarksbáta. Yfirbyggðir 15 tonna bátar hafa streymt inn í kerfið og aflaheimildir 10 til 20 báta sem áður voru gerðir út í veiðikerfinu eru nú nýttar af einum báti. Þannig hefur krókaaflamarksbátum fækkað vel á þriðja hundrað frá 1. september 2004. Segja má að þessi þróun hafi byrjað fyrir alvöru þegar sóknardagakerfið var aflagt og alls 293 sóknardagabátar runnu inn í krókaaflamarkið. Heildarfjöldi virkra krókaaflamarksbáta varð á þessum tímamótum 827 en í lok maí sl. höfðu einungis 577 krókaflamarksbátar landað afla það sem af var fiskveiðiárinu. Líklegt má þó telja að einhverjir eigi eftir að skila sér til handfæraveiða í sumar, en það breytir því ekki að gríðarleg samþjöppun hefur átt sér stað.

Meiri afli en menn óraði fyrir

Almennt hefur útgerð þessara stærri báta gengið vel og afli þeirra verið langt umfram það sem menn óraði fyrir að þeir mundu veiða þegar stækkun þeirra var heimiluð. Ekki er óalgengt að óyndi geri vart við sig hjá áhöfnum þessara báta ef ekki tekst að komast nærri 100 tonnum eftir hvern mánuð. Í lok maí sl. voru alls 16 bátar sem fiskað höfðu meira en 500 tonn á fiskveiðiárinu. Meðaltal afla þessara báta var 764 tonn og jafngilti afli þeirra 23% af heildarafla krókabáta.

Í töflunni sem hér fylgir er sýndur afli, fjöldi báta, meðaltal og hlutfall af heildarafla allra báta í krókaaflamarkinu. Borið er saman fiskveiðiárið 2003/2004 og yfirstandandi fiskveiðiár til 26. maí. Þar má glöggt sjá að 151 bátur hefur aflað meira en 100 tonn á tímabilinu, að meðaltali 294 tonn, og er afli þeirra 83,4% af heildarafla þeirra 577 báta sem róið hafa.
Þá sýnir taflan einnig heildarafla bátanna og að meðaltal í lok maí var 92 tonn, sem er 20 tonnum meira en 827 bátar öfluðu á öllu fiskveiðiárinu 2003/2004.

Handfæraafli dregst saman

Að lokum er ekki úr vegi að skoða þær breytingar sem orðið hafa á hlut einstakra veiðarfæra. Í sóknardagakerfinu var einungis heimilt að veiða með handfærum og því tryggt að ákveðinn hluti afla krókabáta skilaði sér með þeim. Það skal þó ekki fullyrt neitt í þeim efnum því náttúruöflin höfðu mjög mikið um það að segja. Síðustu ár veiðikerfisins var afli á handfæri hins vegar mjög góður og veðurfar með betra móti. Við samanburð kemur í ljós að þorskafli á handfæri dróst saman um helming eða um 7.500 tonn. Fór úr 14.261 tonni fiskveiðiárið 2003/2004 í 7.531 tonn 2004/2005.

Hvort það sem hér hefur verið lýst eigi eftir að ganga til baka skal ósagt látið. Hér er um ákveðna þróun að ræða sem er ef til vill ekki í orðsins fyllstu merkingu þróun því breytingarnar hafa gerst, eins og flest hér á landi, á örskotsstundu.


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...