Ályktun Aðalfundar LS 2006 - Landssamband smábátaeigenda

Ályktun Aðalfundar LS 2006


Á aðalfundi LS var í lokin samþykkt eftirfarandi ályktun:

22. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda fagnar þeirri langþráðu breytingu sem varð á gengi íslensku krónunnar á árinu 2006. Rekstrarumhverfi sjávarútvegsins hefur gerbreyst til hins betra og ekki hvað síst hjá smábátaflotanum.
Þá er það ekki síður ánægjulegt að veiðar smábátaflotans hafa sjaldan gengið betur, sem stingur algerlega í stúf við kolsvartar skýrslur Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand þorskstofnsins.

Fundurinn telur brýna nauðsyn að Hafrannsóknastofnun endurskoði í heild sinni þá aðferðafræði sem hún notar við stofnstærðamælingar, sem og samvinnu sína við veiðimenn.
Smábátaflotinn telur hundruðir báta sem með nýjustu staðsetningar- og upplýsingatækni leggja nánast alla daga ársins í gríðarlegan gagnagrunn um dreifingu fisks, þéttleika, hitafar og fleira. Þá hafa afladagbækur verið færðar til margra ára, en hvað af þeim verður eftir að þær eru komnar í hendur stofnunarinnar er með öllu óljóst. Það er sannfæring fundarins að útúr öllum þessum upplýsingagrunni má auðveldlega lesa að stórkostleg brotalöm er á stofnstærðamælingum Hafrannsóknastofnunar.

Til fjölda ára hafa aðalfundir LS hvatt stjórnvöld til að leyfa á ný hvalveiðar í atvinnuskyni. Nú eru þær orðnar að veruleika og 22. aðalfundur LS lýsir fullum stuðningi við þá ákvörðun. Í ljósi fréttaflutnings bæði af innlendum og erlendum vettvangi í kjölfar þess að veiðarnar hófust, vill fundurinn hvetja stjórnvöld til að nota tímann vel fram að hvalveiðivertíðinni 2007 og vopna þau íslensku fyrirtæki hérlendis sem erlendis með skýrum og greinargóðum upplýsingum varðandi þetta mál.

Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að Íslendingar vilja vera til fyrirmyndar við nýtingu auðlinda sjávar og það er einmitt á þeim forsendum sem kaupendur fiskafurða hérlendis frá geta gert sívaxandi kröfur um gæði, tegundir veiðarfæra og rekjanleika afurða. Og þeim fer sífjölgandi sem líta sérstaklega til íslenska smábátaflotans í þessu sambandi.

Sú staðreynd ætti að vera stjórnvöldum hvatning til að viðhalda og efla fyrirkomulag á borð við línuívilnun og eins og LS hefur áður bent á, ætti hliðstæð ívilnun að vera fyrir hendi þar sem verðmæti afurðanna er margfaldað – t.d. þar sem annars vegar er unnið til manneldis en hins vegar í skepnufóður.

Undanfarin misseri hefur smábátum fækkað verulega og stórir og öflugir bátar veiða sífellt hærra hlutfall aflaheimilda smábátaflotans. Þá blasir við sú staðreynd eftir að sóknardagakerfi smábáta var lagt af, að handfæraveiðar hafa stórlega dregist saman.
22. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda skorar á stjórnvöld að leita leiða, í samvinnu við LS, með að markmiði að hefja handfæraveiðar á ný til vegs og virðingar.

Smábátaútgerðin er hluti af mannlífi og menningu íslensku þjóðarinnar. Sérkenni hennar og hlutverk ber að varðveita á sama tíma og henni er gert kleift að mæta ströngustu kröfum nútímans um gæði fiskafurða og ábyrgar fiskveiðar.

Í nýgerðri kvikmynd um íslenska trillukarla eru lokaorðin þessi: “ódýrasta byggðastefna stjórnvalda er öflug smábátaútgerð“. 22. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda gerir þau að sínum.

 

efnisyfirlit síðunnar

...