Dragnótaveiðar á Skagafirði - Landssamband smábátaeigenda

Dragnótaveiðar á Skagafirði


Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag 28. október eftir Ragnar Sighvats um dragnótaveiðar í Skagafirði:

„Ekkert lát er á ágangi dragnótabáta á Skagafirði þótt afli þeirra hafi stórlega dregist saman undanfarið, samkvæmt aflaskýrslum. Það gat ekki öðruvísi farið þegar verið er að skarka með jafn stórvirkum veiðarfærum og þessi skip nota. Til dæmis er köstunarhringur hjá þessum skipum á sjöunda kílómetra, og er aumt að sjá þessi skip uppundir fjöruborði að hrekja alla smábáta í burtu sem eru að veiðum, því að ekki þýðir að renna færi þar sem dragnótabátar stunda veiðar sínar. Fólk hér í firðinum er alveg yfir sig hneykslað þegar það horfir á þennan stóra flota að veiðum hér á Skagafirði. Meira að segja eru skipstjórar á togurum frá Sauðárkróki farnir að tala um að það breyti ekki svo miklu hvort þeir séu á veiðum á firðinum eða dragnótabátarnir því að ekki munar svo miklu á veiðarfærum eftir að rockhoppararnir voru settir í staðinn fyrir fótreipið svo að hægt sé að skarka á sárari botni með dragnótinni, því að ekki vantar vélaraflið hjá þessum bátum. Það er svo komið að lítið sem ekkert hefur fengist á handfæri í sumar og línuveiðar á Skagafirði hafa hrunið. Þar sem áður fengust tvö til þrjú hundruð kíló á bala fást í dag um 50 kg, svo að ekki fer á milli mála hvað er að gerast hér á firðinum og kemur það okkur Skagfirðingum ekki á óvart því að það hefur aldrei endað öðruvísi en með ördeyðu á Skagafirði ef dragnótaveiðar hafa verið stundaðar þar að einhverju ráði. Það hefur verið reynt ítrekað að vekja athygli sjávarútvegsráðherra á þessu vandamáli að fá hann að samningaborðinu til að fá farsæla lausn á málinu, en ekkert hefur heyrst frá honum. Ég hef heyrt á forhertum flokksbræðrum hans hér í firðinum að hann þori ekki að andmæla forystu sægreifaklíkunnar og er það ekki stórmannleg framkoma þegar atvinna margra heimamanna er í veði. Svo stígur þessi sami maður á stokk og biður um bullandi lens inn á Alþingi í komandi kosningum að vori.

Á fundi sem haldinn var í smábátafélaginu Skalla hinn 14.10. sl. var samþykkt sáttatillaga að lokað yrði fyrir dragnótaveiðum innan línu sem dregin væri úr Ásnefi í N-enda Drangeyjar og þaðan í N-enda Málmeyjar og er þetta mikil tilslökun á fyrri tillögu en hún var úr Ketubjörgum í Almenningsnöf.

Það er stórt svæði sem dragnótabátar geta haldið áfram að veiða á, langt frá því að verið sé að hrekja þá í burtu úr firðinum. Allt er þetta gert til að ná samkomulagi í þessu máli. Færi vel á því að sjávarútvegsráðherra færi yfir tillögur Skalla og hefði svo samband við heimamenn svo hægt sé að boða til fundar og ræða málin sem fyrst því að þetta er málefni sem við Skagfirðingar óskum eftir úrlausn á sem fyrst en ekki seinagangi snigilsins.

Ragnar Sighvats
sjómaður á Sauðárkróki“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...