Næstu skrefin í hvalveiðum - Landssamband smábátaeigenda

Næstu skrefin í hvalveiðum


eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 17. nóvember sl.:

Hlé hefur nú verið gert á hvalveiðum. Eftir er að veiða tvær langreyðar og flestar þær hrefnur sem veiðileyfi var gefið út fyrir. Á þessum tímamótum er rétt að meta stöðuna -- hvað hefur áunnist, hvað tapast -- og vinna úr þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið.

Það hnykkti í mörgum trillukarlinum sem sat aðalfund LS nú nýverið þegar forstjóri Bakkavarar Group, Ágúst Guðmundsson, flutti þar erindi og sagði m.a. álit sitt á veiðunum. Þá hafði Hvalur 9 nýhafið veiðar sem trillukörlum fannst hið besta mál.
Ágúst kom hins vegar úr annarri átt til fundarins. Hann hafði ekki verið umkringdur hvalablæstri við fiskveiðar. Hann rær á öðrum miðum, selur fullunnar vörur á disk neytandans. Hann fræddi smábátaeigendur um fyrirtækið Bakkavör Group. Alls er hann með 16 þúsund manns í vinnu, starfrækir 46 verksmiðjur sem staðsettar eru í 7 löndum.
Ágúst lýsti því þegar hann einn morguninn sat við eldhúsborðið á heimili sínu í London og heyrði sagt frá því á BBC að Íslendingar hefðu hafið hvalveiðar. Viðbrögð hans við fréttinni voru: „Hvað er að gerast?“ „Eru menn nú endanlega búnir að missa vitið?“. Fundarmenn upplifðu viðbrögð Ágústar og kipptust við, enda allir fylgjandi því að hefja hvalveiðar.

Ágúst hélt áfram: Hvers vegna fékk hann, sem stjórnar íslensku stórfyrirtæki í London, ekkert að vita áður en veiðar hófust? Undirbúningur fyrir væntanleg viðbrögð væri nauðsynlegur. Margvíslegar spurningar hefðu getað hellst yfir frá viðskiptavinum og þá er eins gott að hafa örugg svör á reiðum höndum.


Fullgilt sjónarmið

Ég tel að þetta sjónarmið Ágústar eigi fullan rétt á sér, það á ekki að fara af stað með jafn umdeilt mál og hvalveiðar öðru vísi en allir okkar sendiherrar séu settir inn í málefnið. Bæði sjávarútvegs- og utanríkisráðuneytið eiga að vita að margir af okkar sterkustu sendiherrum eru þeir sem starfa í atvinnulífinu erlendis og eiga allt undir neytendum komið. Forstjórinn sagðist sem betur fer ekki hafa misst af viðskiptum vegna þessa, en aldrei að vita hver viðbrögðin verða.
Ég er sammála Ágústi varðandi þetta mál. Verði hvalveiðum haldið áfram í vor verður að standa betur að upplýsingaþættinum.

Þá vék Ágúst að spurningunni: Hvers vegna erum við að þessu? Er það kannski eingöngu til að geta sagt við umheiminn: „Við skulum sýna þjóðum heims hver ræður í þessum efnum, hér hefur það alltaf verið stefnan að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni. Nú standast veiðarnar alþjóðalög, nægur hvalur í sjónum sem veldur ójafnvægi í lífríkinu, okkur ber skylda til að bregðast við og hefja veiðar.“
Ágúst blés á þessi sjónarmið og sagði slík rök ekki að neinu haldi koma í því að verja veiðarnar. Málið snérist um tilfinningar fólks og þá væru slíkar röksemdir einskis virði. Þær mætti kannski nota í rökræðum stjórnmálamanna en almenningur sem væri á móti hvalveiðum vegna þess að hann elskaði dýrin, þau væru falleg o.s.frv., hlustaði ekki á slíkt.


Er þetta einhver bisness?

Ágúst spurði: Hvað hafið þið útúr þessu? Er þetta einhver bisness? Verðið þið ekki að vega og meta hver ávinningurinn er í samanburði við orðstír heillar þjóðar?
Menn sátu sem steinrunnir undir sköruglegum málflutningi Ágústar, þar sem kvað nú aldeilis við annan tón en hjá framkvæmdastjóra þeirra í upphafi fundarins sem sagði m.a. eftirfarandi um hvalveiðarnar:

„Ég tel nauðsynlegt að minna á þennan þátt í upphafi máls míns, þar sem hann hefur snert viðkvæmnistaugar mínar svo á undanförnum dögum að vinnufriður hefur vart gefist. Allir Íslendingar hvar í flokki sem þeir standa eiga að standa með ákvörðun sem styrkir sjálfstæði þjóðarinnar. Við eigum að koma fram sem ein heild. Ekki að gefa lítt upplýstum aðilum tækifæri til að spila á strengi sundrungar og jafnvel að ganga svo langt að persónugera málið. Við eigum ekki að leggjast flöt þegar hótað er. Við söfnum rökum, við styrkjum stöðu okkar í málflutningi, verði niðurstaðan sú að ákvörðun okkar stríðir ekki gegn alþjóðalögum, ekki gegn niðurstöðu vísindamanna um að gengið sé of langt gegn náttúrunni, þá ber okkur skylda til að vinna okkar verk. Það erum við að gera með hvalveiðum, ef við gefum þumlung eftir verður það vatn á myllu þeirra sem berja vilja á rétti sjálfstæðrar þjóðar til ákvörðunar.“

Vissulega eiga orð og skoðanir Ágústar fullan rétt á sér. En eins og sjá má er himinn og haf milli skoðananna tveggja. Hann nálgast viðfangsefnið útfrá beinum viðskiptalegum forsendum, en undirritaður útfrá því sem sjálfstæð þjóð þarf að axla, nýta þær auðlindir sem hún býr yfir með skynsamlegum hætti og tryggja þannig sem mest jafnvægi í lífríkinu.


Hvernig eigum við að bera okkur að?

Ég segi það nú ekki að ég sé búinn að kúvenda í málinu í rökræðum við sjálfan mig á undanförnum dögum. En vissulega hefur sótt á mig efi, ekki hvort við eigum að veiða hvalinn, heldur hvernig við berum okkur að. Ég er til dæmis ekki í vafa um að við þurfum að standa allt öðruvísi að málum þegar veiðarnar hefjast aftur. Þá megum við ekki kynna veiðarnar sem hvalveiðar í atvinnuskyni ef enginn markaður er fyrir kjötið.

Við eigum jú allt okkar undir viðhorfi neytenda og hluti þeirra vill ekki drepa hval því þeim finnst hann fallegur, aðrir vilja ekki drepa hval og sjá engan tilgang í því, þar sem engin markaður sé fyrir kjötið. Bæði sjónarmiðin eiga rétt á sér. Hið fyrra ráðum við lítt við, en hið síðara er að sjálfsögðu hægt að uppfylla með því að skilyrða útgáfu veiðileyfis við sölusamning á afurðinni. Þarna á ég við að hvalveiðar yrðu stundaðar í atvinnuskyni.

Því sem hér hefur verið ritað er ætlað að vekja lesendur til umhugsunar og hvetja til að málið verði skoðað betur og velt við sem flestum steinum. Þá er það mín skoðun að nauðsynlegt sé að veiða fleiri tegundir til að rannsaka. Þannig má fá betri heildarmynd af málinu og sjá hvaða skaða ójafnvægi í lífríki hafsins að völdum of margra hvala veldur okkur.

Að lokum skal hér birt ályktun aðalfundar LS um hvalveiðar sem fundarmenn samþykktu með kröftugu lófataki:

„22. aðalfundur LS fagnar þeirri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila atvinnuhvalveiðar á nýjan leik eftir 20 ára hlé.“

Skilaboð síðustu daga varðandi hvalveiðar eru: Förum varlega og undirbúum næsta leik í stöðunni afar vel.


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssamband smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...