Dökkt útlit með grásleppuvertíð á Nýfundnalandi - Landssamband smábátaeigenda

Dökkt útlit með grásleppuvertíð á Nýfundnalandi


Eins og greint var frá hér á síðunni fyrir réttum mánuði, fengu samtök fiskimanna á Nýfundnalandi (FFAW) ákvörðun um verð fyrir grásleppuhrogn á yfirstandandi ári frestað. Ástæðan var fyrst og fremst sú hversu lág verð kaupendur buðu fyrir komandi vertíð þar um slóðir.

Verð var svo loks ákveðið fyrir fáeinum dögum og varð niðurstaðan sú að lágmarksverðið er u.þ.b. 152 krónur fyrir kg af blauthrognum sem er 34% hækkun frá lágmarksverðinu 2006. Verðsamingar eru og með þeim hætti að verðið til sjómanna hækkar samhliða hækkandi útflutningsverði.

En eins og sakir standa er alls óvíst hvort sjómenn á Nýfundnalandi þurfi mikið að velta fyrir sér hrognaverðinu. Fyrstu grásleppuveiðisvæðin voru opnuð hinn 14. maí s.l. og eins og segir í fréttatilkynningu frá FFAW fyrr í dag var árangurinn "hræðilegur".

Fyrstu fjögur svæðin sem opnuð eru ár hvert liggja út af Suður og Suð-vesturströndinni. Þau hafa jafnan reynst gjöfulust. Þá hafa fyrstu dagarnir undantekningalítið gefið mjög góða veiði. Sú varð ekki raunin þetta árið. Einn grásleppuveiðimaður sem fékk á fyrsta degi vertíðarinnar á síðasta ári um 730 kg af hrognum í 50 net, fékk nú aðeins um 20 kg í sama netafjölda. Þetta lýsir ástandinu á öllu svæðinu, þ.e. menn eru að fá eina til tvær grásleppur í net og þaðan af minna.

Í ljósi þess að ákveðið hefur verið að vertíðin standi aðeins í 15 daga á árinu 2007, hefur náðst samkomulag milli FFAW og yfirvalda um að fresta grásleppuvertíðinni enn frekar. Langflestir veiðimanna hafa nú þegar tekið netin í land og svæðunum verið lokað um óákveðinn tíma.

Þetta hrun í veiðinni er fyrst og fremst rakið til mjög lágs sjávarhita, en hann er nú 5 gráðum lægri en venjulega og mikið krap á svæðinu. Þá liggur hafís upp að allri Norð-austur strönd Nýfundnalands og hefur það ástand lítið breyst allar götur síðan í mars. Þessir miklu kuldar hafa og áhrif á annan veiðiskap við suðurströndina t.d. humarveiðar sem dregist hafa saman um helming. Þá hefur þetta haft mikil áhrif á fiskeldið á svæðinu.

Í fréttatilkynningunni frá FFAW má ráða að þrátt fyrir að menn hafi ekki gefið upp alla von um grásleppuvertíð árið 2007, er alls óvíst hvort opnað verði á ný fyrir veiðarnar á yfirstanandi vertíð.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...