Óvinurinn fundinn? - Landssamband smábátaeigenda

Óvinurinn fundinn?


Það er kunnara en frá þurfi að segja að á árinu 1992 voru þorskveiðar bannaðar við austurströnd Kanada. Enn þann dag í dag er engin afgerandii skýring fundin á því hvers vegna þorskstofnum hrakaði svo heiftarlega að til þessa óyndisúrræðis var gripið. Væntanlega er ástæðan sú að “ein” skýring er einfaldlega ekki til.
Ýmsu var og er um kennt. Ofveiði í úthafinu af stórum togaraflotum, bæði kanadískum og erlendis frá, miklum breytingum á umhverfinu í hafinu, sístækkandi selastofnum og svo framvegis.

Margir fiskimanna á Nýfundnalandi, sérstaklega við Austurströndina, halda því fram í dag, að verulegt magn sé af þorski á grunnslóðinni, inná flóum og fjörðum. Þá sé talsvert af ýsu þegar utar dregur. Vísindamenn viðurkenna fæst af þessu og fara vægast sagt varlega í allar yfirlýsingar sem gætu vakið bjartsýni. Þeir segja þó að þorskstofninn við suðurströnd Nýfundnalands sé í bærulega ástandi, en sá stofn var aldrei jafn illa staddur og við austurströndina og annarsstaðar á svæðinu.

Hverju sem um er að kenna varðandi hrun þorskstofnanna á þessum slóðum er ekki síður athyglisvert hversu lítið þeir hafa rétt úr kútnum, miðað við fyrri frægðartíma. Eins og í fyrra tilfellinu eru uppi ýmsar kenningar og sumar þeirra halda því blákalt fram að þorskurinn komi aldrei aftur – sama hvaða aðgerða menn grípi til.

Selurinn


Fiskimenn nefna oftast risastóra selastofnana sem ástæðuna og vissulega hljóta þeir að taka drjúgan toll. Til eru myndbönd, tekin neðansjávar rétt norðan við höfuðborgina St. John’s, sem sýna mikið magn af dauðum þorski liggjandi á botninum. Fiskurinn virðist í fyrstu alheill. En ef betur er að gáð er gat á maga þeirra og lifrina vantar. Svona gengur nú blessaður selurinn um náttúruna. Það yrði eitthvað sagt ef fiskimenn tækju þetta til fyrirmyndar.

Opinberar tölur frá Kanada segja að fjöldi sela við austurströndina sé um þessar mundir 5,5 milljón kvikindi. Af einhverjum ástæðum hefur vöðuselsveiðikvótinn verið skorinn niður um 17% frá síðasta ári, eða í 270 þúsund dýr fyrir árið 2007. Reyndar hafa selveiðimenn átt í miklum erfiðleikum við veiðarnar. Fjöldinn allur af bátum hefur frosið inni í rekís við austurströndina. Rekís hefur verið meiri en um árabil við Labrador og Nýfundnaland. Kanadíska strandgæslan hefur sent sína stærstu ísbrjóta til að bjarga lífi manna og bátum. Bátarnir hafa oftar en ekki verið mjög illa farnir eftir glímuna við ísinn. Að sjálfsögðu hafa kanadískir Grænfriðungar frætt landa sína á heimasíðum hver kostnaður skattgreiðenda þar í landi er vegna þessara björgunaraðgerða.

Það er vert að geta þess að þeir eru allnokkrir á Nýfundnalandi og Nova Scotia sem vilja síst af öllu að þorskurinn komi aftur. Þeir hafa snúið sér að öðrum veiðum og eru greinilega ekki í jafn sterku ástarsambandi við þorskinn og gerist og gengur meðal Íslendinga.

Hvað um það, hér skal getið einnar kenningar sem sett hefur verið fram og er ekki síður athugunar virði en aðrar.

Kenneth Frank er vísindamaður sem starfað hefur frá 1983 við Haffræðideild Bedford stofnunarinnar í Dartmouth í Nova Scotia. Fyrir tæpum tveimur árum sýndi hann, ásamt félögum sínum, fram á í fyrsta skipti að ruðnungsáhrif þess að fjarlægja hluta úr fæðukeðju á ekki einungis við á þurrlendi og í ferskvatnskerfum, heldur og í höfunum. Kenneth og félagar rannsökuðu hin ýmsu stig fæðukeðjunnar á landgrunninu austur af Nova Scotia, þar sem þorskurinn nánast hvarf skömmu uppúr 1990.

Rækjan - óvinurinn fundinn?


Þeir komust að því að fæðukeðjan hefði í kjölfarið endurnýjast og “fjölgunarsprenging” orðið hjá þeim tegundum sem fyrrum voru bráð þorsksins. Hér var fyrst og fremst um að ræða rækju, makríl, síld og krabba. Náttúran tók sig semsé til og framleiddi í “gatið” eftir þorskinn.
Þessar tegundir nærast á stóru dýrasvifi sem leiddi til þess að magn þess minnkaði mjög sem olli því að plöntusvif jókst verulega – þar sem stóra dýrasvifið nærist á því. Í kjölfarið minnkaði magn uppleystra nítrara, þar sem plöntusvifið nærist á þeim.

Ástæða þess að þorskurinn hefur ekki náð sér á strik, segir Kenneth Frank, er sú að þorsklirfur eru í reynd stórt dýrasvif. Afleiðingar þess að þorskurinn hrundi er að dýrasvifsæturnar ráða nú ríkjum í vistkerfinu. Þorskurinn muni því ekki ná sér á strik vegna þess að þessi litlu rándýr éta hann einfaldlega upp, nánast til agna.

Kenneth lætur ekki staðar numið við þorskinn. Með þessari kenningu sinni útskýrir hann að auki ástæður þess að sumar tegundir tannhvala hafa ekki fjölgað sér, þrátt fyrir áratuga friðun. Hlutverk þeirra í náttúrunni hvarf einfaldlega með fækkun þeirra. Sama eigi við um þorskinn.

 

efnisyfirlit síðunnar

...