Brýnasta úrlausnarverkefnið í sjávarútveginum: Lækning við Munchhausen heilkenni veiðimanna - Landssamband smábátaeigenda

Brýnasta úrlausnarverkefnið í sjávarútveginum: Lækning við Munchhausen heilkenni veiðimanna


Það er rétt að enda vikuna á nokkrum Munchhausen frásögnum veiðimanna af gangi mála á miðunum þessa dagana. Ástæða þess að hinn gamli lygalaupur er nefndur í þessu sambandi er að engu skiptir hvaða fréttir berast frá veiðimönnum. Ekkert mark er á þeim tekið.

Þorskur, þorskur og aftur skrattans þorskur – sem er ekki til!


Á Hornbanka er mok hjá þeim handfærabátum er þangað fara. Þar er einn maður á að fá um 3 tonn á „stuttum degi” af fallegum þorski – sem er sama tala og getið var um hér fyrir skemmstu um handfærabát sem hefur undanfarið skakað útaf Patreksfirði. Til samanburðar: þegar stofninn mældist tvisvar til þrisvar sinnum stærri þótti gott að skrapa í 500 kg yfir „langan dag” og bingó ef náðist í tonnið. Samkvæmt Hafrannsóknastofnuninni er skýringin sú að þorskurinn er svo veiðanlegur, en ekki að mikið sé af honum. Að sjálfsögðu! Hvernig dettur mönnum annað í hug!

Nær Hornströndum bárust fréttir af trillukarli sem fékk 5,4 tonn í lok vikunnar á 24 bala, eða 225 kg á balann (eftir stutta lögn). Megnið var steinbítur en ætlunin var að veiða hann eingöngu. Þoskurinn var hinsvegar svo veiðanlegur að um 1200 kg (50 kg á balann) var þorskur af öllum stærðum og gerðum.

Þá bárust þau tíðindi af svæðinu við og útaf Eyjafirði, að á nýliðinni grásleppuvertíð hefðu tveir grásleppubátar landað 35 tonnum af þorski sem var að meðaltali 12 – 14 kg en eins og kunnugt er samkvæmt opinberum gögnum er sá fiskur ekki til. Einum stærsta þorskinum var skellt á vigt og hentist hún í 38 kg. Grunur sérfræðinga beinist að því að vigtin á staðnum sé svona snarvitlaus og brýnt að bæta þar úr hið snarasta. Hér er á ferðinni prýðilegt dæmi um þvæluna í veiðimönnum. Þessir stóðu semsé í þeirri trú að þeir væru að landa stórþorski. Svo var auðvitað ekki. Hann er ekki til og það er hinn opinberi sannleikur. Allir sem einn sjá í gegnum þessa dellu veiðimannanna.

Þorskur er farinn að veiðast í miklu magni allt niður á 500 faðma á Hampiðjutorginu og þeir togarar sem leituðu þar grálúðu urðu að flýja svæðið vegna þess hve þorskurinn var veiðanlegur en grálúðan ekki. Vissulega er þetta bara ímyndun - eða öllu heldur ofskynjanir - hjá þessum ábyrgðarlausu skipstjórum. Þeir fóru jafnvel að fabúlera um göngu frá Grænlandi og hvað eina, sem sýnir betur en allt annað á hversu háu afneitunarstigi þeir eru gagnvart þeim opinbera sannleik Hafrannsóknastofnunarinnar að þorskurinn er í sögulegum lágmörkum og megnið af honum ekki til.

Það er sannarlega fullkomið ábyrðarleysi af hálfu veiðimanna að voga sér að halda því fram að mikið sé af þorski á miðunum. En þeir láta sér ekki segjast – svo ósvífnir eru þeir að notfæra sér grímulaust hvað síðustu þorskarnir á Íslandsmiðum eru mikið gefnir fyrir að láta veiða sig. Einhverjir veiðimenn velta því nú reyndar fyrir sér hvort hlýnandi sjór hafi svona herfileg áhrif á greind þorsksins og geri að verkum að hann hnappast umsvifalaust saman hvar sem veiðarfærum er dýft í sjó. En hvað vita þessir menn?

Allt framansagt er rækileg sönnun þess hve lítið veiðimenn vita um ástandið á miðunum. Þeir eru haldnir veruleikafirringu sem gæti riðið þorskstofninum að fullu, ef einhver tæki minnsta mark á þeim. Til allrar hamingju bendir ekkert til þess. Svo galnir eru þeir að halda því fram að reynsla þeirra af daglegri glímu í áratugi við að veiða fisk hafi eitthvað að gera með raunveruleikann. Sannleikurinn er sá að Hafrannsóknastofnunin sem fer í togararallið sitt og „veiðir" á stöðum sem voru niðurnegldir fyrir meira er 20 árum (og enginn veiðimaður lítur við í dag) veit í kjölfar rallsins allt um ástandið á miðunum.
Þetta sér hver heilvita maður og með ólíkindum að einhver vogi sér að draga það í efa.

Brýnasta úrlausnarverkefnið í íslenskum sjávarútvegi liggur fyrir. Það verður að finna lækningu við Munchhausen heilkenninu sem íslenskir veiðimenn eru þungt haldnir af. Þeir fara á sjó nánast alla daga ársins og halda því oftar fram en ekki að þorskur sé útum allt. Þessa vitleysu verður að stöðva án tafar. Annars hrynur þorskstofninn.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...