Gunnlaugur Finnbogason – útgerðir landsins mega ekki við niðurskurði - Landssamband smábátaeigenda

Gunnlaugur Finnbogason – útgerðir landsins mega ekki við niðurskurði


Gunnlaugur Finnbogason formaður Eldingar tjáði sig um tillögur Hafrannsóknastofnunar á fréttavef bb sl. mánudag.

Þar segir m.a.

„„Fyrir löngu orðinn leiður á þessu rugli“, segir Gunnlaugur Finnbogason, formaður Eldingar félags smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum, í kjölfar niðurskurðartillagna Hafrannsóknastofnunar í þorskveiðum.“

„Gunnlaugur segir að útgerðir landsins megi ekki við niðurskurði og telur að slíkt muni auka brottkast og rugl í kerfinu eins og hann orðar það. „Rétt fyrir síðustu aldamót talaði Hafró um að þorskurinn væri á uppleið en nokkrum árum er aflinn kominn niður fyrir 200 þús. tonn og núna leggja þeir til 130 þús. tonn. Það er leiðinlegt að segja þetta en þeir virðast ekki vita hvað þeir eru að gera og því þarf að skipta um lið í brúnni á Hafró og prófa nýjar aðferðir. Þetta er ekki að virka hjá þeim.““

„Gunnlaugur segist telja að sjávarútvegsráðherra breyti aflareglunni ekki og kvótinn haldist í u.þ.b. 180 þús. tonnum. „Það er ekki lítið af þorski í sjónum, mönnum hefur gengið vel að veiða hann undanfarið og þá sérstaklega á vertíðinni. Það var mok í vetur fyrir sunnan. Veiðar gengu illa 92 – 93 og þá var lítið af honum en svo er ekki í dag. Það væri sama þó þorskurinn gengi upp á hraðbrautina, Hafró myndi ekki viðurkenna að nægur þorskur væri í sjónum.“

Gunnlaugur undrast einnig niðurskurð í steinbíti og segir hann ganga þvert á reynslu sjómanna. „Það var mikil steinbítsveiði í vetur og einungis lélegt tíðarfar sem hamlaði mönnum við veiðarnar.““

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...