Þorskurinn – engin lífvera sterk án fæðis - Landssamband smábátaeigenda

Þorskurinn – engin lífvera sterk án fæðis


Unnsteinn Guðmundsson, fulltrúi Hrollaugs í stjórn Landssambands smábátaeigenda hefur sent eftirfarandi til birtingar á heimasíðunni.UNNSTEINN100_1838_3.jpg

„Ágætu vísindamenn Hafrannsóknastofnunar. Réttið ykkur af.

Allsstaðar í lífríkinu er grunnforsenda fyrir viðhaldi stofna og einstaklinga, MATUR.
Það breyta litlu friðanir og aðrar hindranir á veiðum á meðan þið hafrannsóknarmenn látið viðgangast að veiða matinn, - orkuna, - grunninn fyrir fiska og aðrar lífverur til nauðsynlegrar orkuþarfar. Til að eðlileg framleiðsla sterkra hrogna og hrygningar geti orðið er þetta grunnurinn í öllu lífríkinu. Horaður og illa á sig kominn einstaklingur framleiðir síður hrausta einstaklinga, þó svo arfgengi hafi örugglega áhrif.

Ég tel nauðsynlegt að reyna að koma ykkur uppúr þessu fari sem mér finnst þið vera fastir í.

• Þið virðist láta átölulaust að veiða megnið af matnum sem þorskur og aðrir nytjastofnar þurfa til að fita sig nægilega fyrir velheppnaða framleiðslu hrogna og svilja og svo hrygninguna sjálfa.

• Þið virðist láta átölulausar flottrollsveiðar þar sem milljónir „hnífa” (ofurgirnið í möskvunum) skera allt sem á þeirra vegi er. Nú er flottrollið að veiða íslensk-norsku síldina og trollið kemur upp loðið af smáloðnu. Það sem hangir fast í trollinu sést en ekki það sem hefur skaðast til dauðs. Væri ekki farsælla að sleppa flottrollinu, nota nótina og hætta þannig að hræra í torfunum.

• Þið virðist láta átölulausa stöðuga offjölgun í hvalastofninum, samkeppnisaðila okkar í nýtingu auðlindarinnar. Tekur ekki ein hrefna 30 tonn á ári úr lífríki hafsins? Það væri kannski rétt að fara að verðlauna þá sem ná að drepa hval með samsvarandi fiskveiðiheimildum, innan ársins. 30 tonn fyrir eina hrefnu og samsvarandi fyrir aðrar hvalategundir.


Þið eruð á villigötum með reikningskúnstirnar. Það er alveg sama hvernig þið reiknið ef þið gleymið að setja aðalatriðið inn; fiskur eins og aðrar lífverur þarf mat – orku, til að stækka og einnig til að framleiða og hrygna sterkum hrognum, Það dugir engin reikningsformúla hjá ykkur til stækkunar þorskstofnsins ef þið ætlið að láta óátalið að heimila veiðar á matnum sem fiskurinn þarf. Með sömu reikningskúnstum verðið þið að fara að setja fram síðar þetta athyglisverða orð „ofmat” sem kemur nokkrum árum eftir góða seiðatalningu eða eitthvað álíka.

Ástæðan er einföld, þið látið viðgangast að veitt sé frá þorskinum maturinn sem hann þarf til viðhalds öflugum stofni. Það er óhugglegt að heyra ykkur sífellt segja að það þurfi að friða og friða þessi og hin veiðisvæðin til að byggja upp stofninn en látið svo viðgangast að hann vanti mat, FÆÐI. Það verður engin lífvera sterk án fæðis.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...