Sambandsstjórn FFSÍ gagnrýnir framkvæmd togararallsins - Landssamband smábátaeigenda

Sambandsstjórn FFSÍ gagnrýnir framkvæmd togararallsins


Sambandsstjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) hefur sent frá sér ályktun í tilefni að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Þar segir m.a. að ef farið yrði að tillögum stofnunarinnar mundi það þýða aukið brottkast, einnig er í ályktuninni gagnrýnt framkvæmd togararallsins.

Í ályktuninni er lýst þungum áhyggjum vegna tillagna stofnunarinnar er varða þorsk. Vandséð er hvernig hægt verður að veiða 95 þúsund tonn af ýsu ef einungis má veiða 130 þúsund tonn af þorski. Að mati reyndra skipstjórnarmanna er slíkt nánast útilokað nema til komi aukið brottkast, sem enginn vill sjá.

„Sambandsstjórn FFSÍ lætur í ljósi efasemdir um að þau gögn sem notuð eru til grundvallar ráðgjöfinni og hafa þar verulegt vægi, gefi fullnægjandi vitneskju um stöðu og ástand fiskistofna á landgrunninu. Hvað botnvörpu varðar liggur t.d. ljóst fyrir að lítið sem ekkert mark er á því takandi hvort afli á sóknareiningu samkvæmt afladagbókum hafi aukist eða dregist saman þar sem menn eru í sífellt ríkara mæli að forðast að fá meiri afla en svo að við verði ráðið með góðu móti með tilliti til gæða hráefnisins.

Vegna breyttra umhverfisaðstæðna og breytts atferlis þorsks þá hefur fjölgað þeim togstöðvum í svokölluðu togararalli sem ekki gera neitt annað en að staðfesta að fiskurinn er ekki þar sem hann var vanur að halda sig. Þær togstöðvar sem ákveðnar voru á sínum tíma, ekki síst vegna þáverandi veiðireynslu, eru þar af leiðandi langt frá því að gefa rétta heildarmynd af Íslandsmiðum þar sem alltof fáar stöðvar eru á þeim veiðisvæðum sem fiskurinn hefur haldið sig að undanförnu. Sú staðreynd að engu má helst hrófla við í framkvæmd togararallsins er um leið sá Akkilesarhæll sem stendur því fyrir þrifum," að því er segir í ályktun frá sambandsstjórn FFSÍ.


Byggt á:
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1274640

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...