Sökudólgurinn er Hafrannsóknastofnun og loðnufloti landsmanna. - Landssamband smábátaeigenda

Sökudólgurinn er Hafrannsóknastofnun og loðnufloti landsmanna.


Í gær birtist hér á heimasíðunni hugleiðingar frá Unnsteini Guðmundssyni. Af því tilefni sendi Börkur Jónsson, nú fiskverkandi á Akranesi (bor@simnet.is) eftirfarandi:BorkurJonsson100_1942_2.jpg

„Ég tek fyllilega undir þessar röksemdir Unnsteins og vil þakka honum þetta innlegg sem gæti orðið kveikjan að því að koma umræðunni upp úr skítnum. Þessi staðreynd hefur blasað við öllum sem nálægt fiskveiðum á grunnslóð hafa komið undanfarin mörg ár. Við, sem stundað hafa fiskveiðar hér í Faxaflóa höfum verið mjög meðvitaðir um þessa slæmu þróun hvað varðar ætið fyrir þorskinn. Á undanförnum sex til átta árum hefur þorskurinn komið síðla vetrar á hrygningarslóð í Faxaflóa til að belgfylla sig af loðnu sem skaparinn sá um að væri alltaf til staðar á réttum tíma og á réttum stað til að tryggja að náttúruleg fjölgun þorsksins og annarra fiska væri trygg.

Það hafa sennilega aldrei verið unnin eins alvarleg náttúruspjöll á Íslandi eða Íslandsmiðum eins og loðnuveiðifloti okkar hefur framið með gengdarlausri loðnuveiði, og til að kóróna glæpinn og þar með hrun þorskstofnsins hefur hinu ægilega flottrolli verið beitt við veiðarnar.

En þorskurinn hefur sömu hvatir og við mennirnir, hann vill lifa og hann vill klára sitt verk, hann vill hrygna og leggja sitt af mörkum til að viðhalda stofninum þrátt fyrir að honum séu flestar bjargir bannaðar.

Við sem höfum fylgst með þessari þróun vitum manna best hvað þorskurinn gerir til að bjarga sér og ná fram sínu markmiði.

Þorskurinn finnur enga loðnu þar sem hún á að vera en þorskurinn finnur mikið af ýsuungviði og þorskungviði sem reynist honum hið besta fæði,
þorskurinn gerir meira, 6-8 kg þorskar éta 2 kg meðbræður sína af góðri list,
og þorskurinn gerir meira, hann fer alveg upp í þarann og mylur í sig krabba og önnur botndýr, hann rótar upp hrognaköku grásleppunnar og fær magafylli.

Eftir þessar ægilegu hamfarir þorsksins í ungviði og öðru æti hefur þorskurinn náð að þroska hrognin og hrygnir ef já þetta stóra ef,ef,ef. EF hann verður ekki veiddur í þorskanet og aflífaður þrátt fyrir alla hans baráttu undanfarnar margar vikur til að tryggja viðhald stofnsins og þrátt fyrir að hrygningin átti að verða í dag.

Heill árgangur af ungviði farið í fæðu hrygningarþorsks.

Afleiðingar hinna miklu hryðjuverka loðnuflota landsmanna eru nú að verða mun víðtækari en nokkurn hefur órað fyrir.

Eftir að hrygningu lýkur þarf þorskurinn meira æti og þá er nærtækast að ráðast á sandsílið sem margar fleiri tegundir slást um allan sólarhringinn á sumrin. Hér í Faxaflóanum hefur alltaf verið mikið sandsíli um allan flóann bæði djúpt og grunnt.

Hér umhverfis Akranes hefur mátt fylgjast með sílistorfunum nálægt klettunum þar sem sjófuglar og krían hafa haft úr nógu að moða.

Undanfarin ár hefur þessi sjón horfið, sílið er búið, þorskurinn át það með hjálp fugla og e.t.v. fleiri.

Krían reynir varp á þeim slóðum sem stutt var í æti áður. Ekkert æti, varpið misferst.

Bjargfuglar reyna það sama og náttúran boðar þeim. Ekkert æti, varpið misferst.

Svartbakurinn sem áður var í miklu mæli hér við Faxaflóann er nánast horfinn, vantar æti.

Sílamávurinn kemur hingað í stórum flokkum á vorin eins og hann hefur gert undanfarin mörg ár til að verpa með góðum árangri en nú misheppnast það að miklu leyti nema hann hafi nóg af æðar- og mófuglum til að éta.

Allt eru þetta afleiðingar af hinum ægilegu hryðjuverkum loðnuflota Íslendinga og Hafrannsóknastofnunar sem hefur hvatt til loðnuveiða og gerir enn!


Ráðamenn þessarar þjóðar sem standa frammi fyrir ákvörðun varðandi þorskinn skulu gera sér fulla grein fyrir því að:
• Kvótakerfið hefur ekkert með þetta alvarlega ástand að gera.

• Brottkast á fiski hefur heldur ekkert með það að gera.

• Einhver þúsundir tonna sem smyglað er framhjá vigt hefur sömuleiðis ekkert með þetta alvarlega ástand að gera.

Sökudólgurinn er Hafrannsóknastofnun og loðnufloti landsmanna.

Tillögur Hafrannsóknastofnunar um stórfeldan niðurskurð á þorskveiðum er að mínu mati alröng tillaga.

Við eigum að auka veiðar á þorski í 200.000 til 250.000 tonn næstu tvö til þrjú árin.

Og stóra málið það sem allt veltur á, það á að stöðva allar loðnuveiðar þegar loðnan gengur upp á grunnin og setja algjört bann á flottroll.

Það þarf enginn að segja mér það að fræðimenn hjá Hafró viti þetta ekki eins vel og við sjómennirnir. En það þarf einhver að upplýsa mig um ástæðuna fyrir því að þessi stórfelldu HRYÐJUVERK eiga að halda áfram.

Börkur Jónsson
sjómaður og fiskverkandi á Akranesi.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...