Ástand hrygningarstofnsins – villandi framsetning Hafrannsóknastofnunar - Landssamband smábátaeigenda

Ástand hrygningarstofnsins – villandi framsetning Hafrannsóknastofnunar


Framsetning Hafrannsóknastofnunar á ástandi hrygningarstofnsins hefur orðið mörgum að umtalsefni. Tvær myndir af ástandinu eru sýndar. Annars vegar ferillinn frá 1955 og hins vegar frá 1980. Báðar myndirnar eru mjög sláandi. Ályktun flestra sem hafa setið undir kynningum stofnunarinnar er að hrygningarstofninn sé í afar slæmu ásigkomulagi, nauðsynlegt sé að byggja hann upp.
Fáir lesa það hins vegar út úr kynningunni að hrygningarstofninn hafi verið í sögulegu hámarki 2005, 228 þús. tonn, þegar tekið er mið af tímabilinu frá 1981 til 2007.

Lítum aðeins nánar á þetta:

1955myndin sýnir súlurnar sitt hvoru megin við meðaltalið sem er 300 þús. tonn. Ferillinn byrjar í 938 þús. tonnum 1955 og er yfir meðaltali til 1965. Eftir það fer hann aðeins fjórum sinnum yfir meðaltalið, 1969, 1970, 1979 og 1980. Öll hin árin eru undir meðaltali, alls í 38 ár. Sjá mynd:Slide1.jpg


1980myndin er birt í ástandsskýrslu stofnunarinnar. Þar byrjar ferillinn í 356 þús. tonnum árið 1980. Í frjálsu falli niður og hlykkjast svo öll árin langt undir upphafsreit ferilsins. Ekki er gerð tilraun til að setja inn á myndina lárétta meðaltalstölu. Hvers vegna? Kannski vegna þess að hún hefði jákvæð áhrif – þar sem meðaltalið er 185 þús. tonn! Sjá mynd:Hrygnst.f.1980.jpg


Að síðustu er mynd sem sýnir þróun hrygningarstofnsins frá 1983. Á myndinni sést glöggt að hann hefur verið í vexti frá þeim tíma og fáum sem mundi detta í hug að eitthvað væri að eins og Hafrannsóknastofnun metur ástandið. Sjá mynd:Slide2.jpg

Hætt er við að erfiðara hefði verið fyrir Hafrannsóknastofnun að sannfæra ráðamenn þjóðarinnar um niðurskurð þorskveiðiheimilda um 60 þúsund tonn ef matreitt hefði verið með jákvæðum hætti.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...