Eru meðalþyngdartölur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar rangar? - Landssamband smábátaeigenda

Eru meðalþyngdartölur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar rangar?


Smábátaeigendur um land allt skoða nú þá stöðu sem upp er komin eftir að ráðherra ákvað að minnka veiðiheimildir í þorski um þriðjung.

Undantekningalaust gagnrýna félagsmenn í LS ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Einkum gremst mönnum að ráðherra hafi kosið sömu aðferðafræði og Hafrannsóknastofnun að taka ekkert tillit til sjónarmiða smábátaeigenda og sjómanna.

Auk þeirrar gagnrýni sem hér hefur komið fram um röksemdir Hafrannsóknastofnunar um að leggja til þriðjungs samdrátt í þorskveiðum er rétt að vekja athygli á meðalþyngdartölum sem stofnunin leggur til grundvallar við útreikning á stærð veiðistofns. Þyngdarfallinu má líkja við að náttúruhamfarir hafi átt sér stað í lífríkinu.

Sjómenn sem leitað hefur verið til um sérfræðiráðgjöf fullyrða að meðalþyngdartölur séu í engu samræmi við veruleikann. Hér er stórmál á ferðinni og því nauðsynlegt að Hafrannsóknastofnun gefi skýringar á gríðarlegu þyngdarfalli 10, 11, 12, 13 og 14 ára fisks, auk þess að upplýsa um mælingar sem meðalþyngdin er byggð á.

Tafla 3.1.2 í skýrslu Hafrannsóknastofnunar sýnir meðalþyngd í afla eftir aldri. Þar er áætluð þyngd 2007 á framangreindum fimm aldursflokkum, tölurnar í sviga fyrir aftan eru meðalþyngdir á tímabilinu 1985 – 2007:

10 ára 5,819 kg……………..(8,728 kg)
11 ára 6,201 kg……………(10,144 kg)
12 ára 6,508 kg……………(11,844 kg)
13 ára 6,751 kg……………(13,202 kg)
14 ára 6,943 kg……………(15,317 kg)

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...