LS fundar með sjávarútvegsnefnd Alþingis - Landssamband smábátaeigenda

LS fundar með sjávarútvegsnefnd Alþingis


Í gær fundaði LS með sjávarútvegsnefnd Alþingis. Upphaflega var gert ráð fyrir 20 mínútna fundi, en þar sem túlkun LS á skýrslu Hafrannsóknastofnunar er með öðrum hætti en hjá fjölmiðlum og öðrum hagsmunasamtökum, stóð fundurinn yfir í 50 mínútur.

Á fundinum fór LS yfir ályktun stjórnar félagsins frá 5. júní sl., þar sem lagt er til að árleg þorskveiði takmarkist við 220 þúsund tonn á næstu þremur fiskveiðiárum.
http://www.smabatar.is/frettir/2007/06/09/997.shtml

Þá var ítrekað að LS hafnar sjónarmiðum Hafrannsóknastofnunar um að ástand þorskstofnsins sé svo bágborið að nauðsynlegt sé að minnka hámarksafla um þriðjung. Aflabrögð og samsetning aflans séu með miklum ágætum og t.d. mun betri en fiskveiðiárin 1998/1999 og 1999/2000 þegar stofnunin lagði til að hámarksafli yrði 250 þús. tonn.

LS vakti sérstaka athygli sjávarútvegsnefndar og gagnrýndi framsetningu Hafrannsóknastofnunar á niðurstöðum sem fram koma í skýrslu stofnunarinnar. Þar sé dregin fram biksvört mynd sem hefði haft þau áhrif að gagnrýni á skýrsluna væri nánast engin, hræðslutilfinning bæri alla slíka viðleitni ofurliði. Viðbrögð flestra væru því á einn veg: „Það er ábyrgðarlaust að fara ekki að tillögum Hafrannsóknastofnunar“. Að sama skapi væru þeir lýstir óábyrgir sem telja að ekki eigi að fara að tillögum stofnunarinnar.

Til marks um upplifun á aflabrögðum sjómanna, sem virðist ekki hafa neitt vægi hjá Hafrannsóknastofnun, væru gögn hennar um afla í botnvörpu í fyrra. Samkvæmt þeim væri hann 67% meiri en árið 2000 og væri nú í sögulegu hámarki á því 15 ára tímabili sem grafið næði til.

Þá benti LS sjávarútvegsnefnd Alþingis á fleira sem væri í sögulegu hámarki, en vegna villandi framsetningar færi það fram hjá mönnum í kynningu stofnunarinnar. Dæmi var tekið af hrygningarstofninum. Hafró sýnir þróunina frá 1955 og reiknar þannig meðaltalið 300 þús. tonn. Framsetningin sé afar áhrifarík til að hræða fólk, þar sem aðeins þrisvar á sl. 37 árum mælist hrygningarstofninn yfir meðaltalið og ekki sé hægt að sjá annað en allt sé í rjúkandi rúst. LS gagnrýndi þessa framsetningu harðlega og sýndi graf af hrygningarstofninum frá 1983 til og með 2006. Á því tímabili væri meðaltalið 175 þús. tonn og hann hefði vaxið jafnt og þétt á þessu tímabili. Sögulegt hámark væri á árinu 2005, 228 þús. tonn og meðaltal sl. 3 ára langt yfir meðaltali þessa 24 ára tímabils, 213 þús. tonn.

Á fundinum var rætt um þá skoðun Hafrannsóknastofnunar að veiði umfram ráðgjöf stofnunarinnar væri aðalástæða þess að stofninn mældist í lágmarki. Að mati LS er mismunurinn óverulegur og hefði það engu breytt varðandi útreikninga þó saman hefið farið ráðgjöf og afli.
Því til áréttingar var ýsuveiði á „umframveiðiárunum“ ´98/´99 til og með 2001/2002 tekin sem dæmi. Þá hefði veiðin verið rúmum fimmtungi umfram ráðgjöf. Þrátt fyrir það hefði stofnunin lagt til aukinn heildarafla. Árleg aukning hefði verið í tugum prósenta og hefði tillaga stofnunarinnar á 3 árum þrefaldast.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...