Þorskverndun nær hámarki - reglugerðarlokun á handfæri - Landssamband smábátaeigenda

Þorskverndun nær hámarki - reglugerðarlokun á handfæri


Sjávarútvegsráðuneytið hefur fallist á beiðni Hafrannsóknastofnunar um reglugerðarlokun á handfæri. Svæðið sem um ræðir er á Látragrunni en þar hafa nokkrir bátar verið á veiðum í sumar.
Mælingar á þorskafla þeirra hafa leitt í ljós að meira en 25% af fiskinum er styttri en 55 cm sem eru viðmiðunarmörk Hafrannsóknastofnunar varðandi lokun svæða.


Við umrætt svæði á Látragrunni liggja til grundvallar þrjár skyndilokanir.

Nr. 99 gilti frá 2. júlí til 16. júlí.
Sjá nánar: http://www.hafro.is/images/upload/099-07.pdf

Nr. 100 stækkaði lokunarsvæðið í austur og gilti frá 3. júlí til 17. júlí.
Sjá nánar: http://www.hafro.is/images/upload/100-07.pdf

Nr. 107 lokaði nánast sama svæði og nr. 99 tímabilið 17. júlí til 31. júlí.
Sjá nánar: http://www.hafro.is/images/upload/107-07.pdf


Reglugerðarlokunin sem nær til allra handfæraveiða á svæði suður af Látrabjargi tók gildi í gær, 31. júlí og gildir í óákveðinn tíma.
Sjá nánar:
http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=056f8cd8-b4d3-46d8-acb5-86bfb015d437


Ástæða þess að hér er fjallað svo ítarlega um veiðibannið er sú að um einsdæmi er að ræða. Ekki er vitað til þess að áður hafi verið beitt reglugerð við verndun smáfisks vegna handfæraveiða eingöngu. Þorskverndun Hafrannsóknastofnunar virðist því hafa náð hærri hæðum en áður eru dæmi um.


Félagsmaður sem hafði samband við skrifstofuna sagði aðspurður um lokunina:
„Mér er til efs um að nokkur önnur friðunaraðgerð geti toppað þetta. Þeir hjá Hafró og sjávarútvegsráðuneytinu eiga skilið að vera sæmdir orðu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Í ræðustúf sem fluttur væri vegna tilefnisins væri lögð áhersla á hina miklu ábyrgð, kjark, þor og framsýni sem orðuhafar sýndu með ákvörðun sinn að stöðva hinar stórhættulegu handfæraveiðar sem hamlað hafa uppbyggingu þorskstofnsins“!


Því er við að bæta að þorskafli á handfæri er í sögulegu lágmarki. Færri en nokkru sinni stunda veiðarnar og stefnir aflinn nú í að verða sá minnsti í sögu handfæraveiða.
Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu höfðu veiðst fjögur þúsund tonn af þorski á handfæri það sem af er fiskveiðiárinu en allt árið í fyrra varð aflinn 5.866 tonn.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...