Orsök lélegrar nýliðunar er ekki að finna í veiðum umfram ráðgjöf - Landssamband smábátaeigenda

Orsök lélegrar nýliðunar er ekki að finna í veiðum umfram ráðgjöf


Föstudaginn 20. júlí sl. birtist í Fiskifréttum eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda:


„Miðvikudaginn 11. þ.m. var á heimasíðu LS fjallað um villandi framsetningu Hafrannsóknastofnunar á ástandi hrygningarstofnsins. Á kynningarglæru stofnunarinnar (Hrygningarstofn) er sýndi þróun í stærð stofnsins frá 1955 til 2006. Meðaltal er reiknað 299 þús. tonn og viðeigandi lína dregin gegnum það. Á Mynd 1 (sem fengin er úr gögnum Hafrannsóknastofnunar) sést því glöggt að hrygningarstofninn hefur verið undir því meðaltali sl. áratugi.image003.png

Gagnrýnt var á heimasíðu LS að ekki væri dregið fram með áberandi hætti að á tímabilinu 1983 til 2006 – síðustu 24 árin – hefði hrygningarstofninn verið í vexti og í sögulegu hámarki þessa tímabils árið 2005. Meðaltalsstærð hans var 175 þús. tonn á tímabilinu.image001.png Mynd 2. Sjá nánar á http://www.smabatar.is/frettir/2007/07/11/1022.shtml).

En það er fleira gagnrýnivert í kynningu Hafrannsóknastofnunar á ástandi þorskstofnsins. Lítum á nýliðunina. Eins og varðandi hrygningarstofninn nær kynningarmynd stofnunarinnar um nýliðun til árgangsins sem fæddur er 1952 og er því 3 ára nýliði 1955. Meðfylgjandi mynd um nýliðun (Mynd 3, sem fengin er úr gögnum Hafrannsóknastofnunar) er ekki síður skelfileg en myndin af þróun á stærð hrygningarstofnsins, enda hitti hún beint í mark. Menn sem sátu kynningarfundinn setti hljóða. Mynd 3:image006.png

Engin nýliðun fyrir ofan meðaltalið 179 milljónir einstaklinga, utan ársins 2000, á undanförnum 22 árum, á tímabilinu 1985 til 2006. Ráðherrar, flestir alþingismenn og blaðamenn, auk formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands tóku andköf. „Það verður að sýna ábyrgð og fara nú einu sinni eftir ráðgjöf Hafrannsóknasóknastofnunar“!

Hefðu þessir aðilar gefið sér tíma til að rýna í skýrslu stofnunarinnar og leita ráðgjafar þeirra sem eru á miðunum allan ársins hring er ég sannfærður um að þeir hefðu litið með líkum hætti til ráðgjafarinnar og stjórn Landssambands smábátaeigenda.

Meðfylgjandi mynd (Mynd 4) sýnir hvernig nýliðunin hefur sveiflast á tímabilinu 1985-2006.image002.png Lárétta línan sýnir meðaltal 134 milljónir 3 ára nýliða. Er nema von að spurt sé: Hvað er að?

Af þessum myndum um nýliðun er ekki hægt að draga þá ályktun að orsök „lélegrar“ nýliðunar sé að finna í veiðum umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Auk þessarar framsetningar er rétt að taka fram að það er engin ávísun á góða nýliðun þótt farið sé að ráðgjöf Hafró um að skerða þorskkvótann um þriðjung. Því til staðfestu er rétt að líta til áranna 1983 og 1984 sem bæði skila gríðargóðri nýliðun, auk ársins 1985 þ e.a.s. nýliðun er betri en áðurnefnt 22 ára tímabil. Þau ár var veiðin langt umfram aflareglu – að meðaltali 80 þús. tonn á ári – 37% umfram reiknaðan afla samkvæmt aflareglu.

Einnig er rétt að skoða nær í tíma. Fiskveiðiárin 1998/1999 og 1999/2000 voru veidd 165 þús. tonn umfram aflareglu eftir að endurmat á stærð veiðistofns hafði farið fram – sem er 48% umfram. Það virtist ekki koma að sök því nýliðun á þessum árum var í sögulegum hæðum á hinu 22 ára tímabili.

Er það nema von að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ofsafenginn niðurskurð sé gagnrýnd?

Stjórn LS telur að stærð hrygningarstofns og þróun nýliðunar undanfarinna ára sé ekki með óeðlilegum hætti og gefi því ekki tilefni til að boðaður niðurskurður komi til framkvæmda 1. september nk. Þvert á móti hafi uppbygging stofnsins gengið vel á síðastliðnum árum og hann sé afar sterkur um þessar mundir.“


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...