Ályktun Aðalfundar LS 2007 - Landssamband smábátaeigenda

Ályktun Aðalfundar LS 2007


Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda haldinn 18. og 19. október 2007 á Grand Hótel í Reykjavík ályktar eftirfarandi:

Landssamband smábátaeigenda lýsir miklum áhyggjum yfir þeirri ákvörðun Hafrannsóknastofnunar og í kjölfarið stjórnvalda að hafa að engu reynslu, skoðanir og tillögur smábátaeigenda sem og fjölmargra starfsbræðra þeirra á stærri skipum flotans varðandi ástand þorskstofnsins.

Í stað þess að leita skýringa á því hvers vegna gjáin breikkar sífellt milli vísindamanna og reynslu þeirra sem starfa á vettvangi, eru sjónarmið hinna síðarnefndu troðin í svaðið og „fiskifræði sjómannsins” gerð að skammaryrðum sem standi fyrir græðgi og óábyrgni. Fátt er fjær sanni. Fiskifræði sjómannsins lítur að öllum þeim þáttum er varða fiskveiðarnar, s.s. gerð veiðarfæra, svæðisskiptri nýtingu og friðun miða, samspil ætis og fiskistofna sem og annarra umhverfisþátta. Stundum er niðurstaða fiskimanna sú að rétt sé að veiða meira – en stundum minna. Það síðarnefnda er sjaldnast fréttaefni.

Bent skal á að fjölmargir veiðimenn hafa til langs tíma krafist þess að loðnuveiðar verði annað hvort stöðvaðar, dregið verulega úr þeim eða núverandi veiðarfærabeitingu breytt verulega. Þá krefst Landssamband smábátaeigenda þess að samspil loðnu- og rækjuveiða verði rannsakað í tengslum við ætisþörf og -leit þorsksins. Fram til þessa hefur verið skellt skollaeyrum við þessari „fiskifræði sjómannsins”. Í áratugi var farið í einu og öllu eftir tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi rækjuveiðar í Húnaflóa. Rækjuveiðarnar á svæðinu undir þessari strangvísindalegu stjórnun eru nú rjúkandi rústir.

Landssamband smábátaeigenda telur aðferðafræði stofnunarinnar (togararallið) ónýta mælistiku sem hvorki getur mælt stærð þorskstofnsins né fjölda nýliða. Það er t.d. staðreynd að sáralítill hluti togstöðvanna er innan 12 mílna lögsögunnar þar sem stærstur hluti þorskstofnsins elst upp og heldur sig.

Skyndilokanir vegna smáþorsks hafa aldrei verið fleiri en á yfirstandandi ári. Þetta stingur gjörsamlega í stúf við fullyrðingar um lélega nýliðun. Hingað til hefur Hafrannsóknastofnunin ekki séð ástæðu til að útskýra þessa þverstæðu.

Þeirri spurningu er einnig ósvarað hvers vegna veigaminnstu veiðarfærin sem notuð eru af íslenskum fiskimönnum ná dag eftir dag, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár að veiða meira á hverja úthaldseiningu en þegar þorskstofninn átti að vera, samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunarinnar, margfalt stærri. Sú skýring stofnunarinnar að þorskurinn sé svo „veiðanlegur” er herfileg móðgun við heilbrigða skynsemi og á ekkert skylt við vísindalega nálgun. Myndu þær skýringar veiðimanna, eftir langvarandi lélega veiði, teknar gildar að nóg væri af fiski en „veiðanleikinn” í lágmarki?

Landssamband smábátaeigenda krefst þess að reynsla veiðimanna og tillögur þeirra fái vægi í ákvarðanatöku varðandi leyfilegan heildarafla. Allt tal um samráð og samvinnu við þá hefur nú opinberast sem hrein látalæti sem engu skipta.

Smábátaútgerðin er sá hluti útgerðarinnar sem tekur mestan skellinn af samdrætti í þorskveiðiheimildum. Það er því að nudda salti í sárin að nú þegar hafa verið opnuð viðkvæm svæði fyrir botndregin veiðarfæri á nokkrum stöðum við landið. Landssamband smábátaeigenda skorar á hstv. sjávarútvegsráðherra að stöðva þessa þróun nú þegar.

Hinn svokallaði „flati” niðurskurður í þorskveiðiheimildum er síður en svo flöt skerðing í heildartekjum hinna ýmsu útgerða. Þannig eru þeir sem hafa nánast allar veiðiheimildir sínar í þorski – sem á við um stærstan hluta smábátaflotans og sér í lagi þá sem stunda handfæraveiðar – að verða fyrir mun meiri búsifjum en stórútgerðarfyrirtæki með blandaðar veiðiheimildir. Það er krafa Landssambands smábátaeigenda að mótvægisaðgerðir stjórnvalda taki tillit til þessarar staðreyndar.

Smábátaútgerðin er burðarás fjölmargra sjávarbyggða. Sú mikla tekjuskerðing sem nú blasir við er jafnframt áfall fyrir byggðirnar. Framundan er varnarbarátta, en það er bjargföst sannfæring Landssambands smábátaeigenda að æ háværari kröfur á alþjóðavettvangi um vistvænar veiðar og hágæða hráefni muni reynast búbót sem um munar. Framhjá þessum staðreyndum geta hvorki stjórnvöld né aðrir litið.
100_8300.jpg

Mynd: Frá Aðalfundi LS 2007

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...