Þorskur úr Atlantshafi úr hillunum hjá Manor í Sviss - Landssamband smábátaeigenda

Þorskur úr Atlantshafi úr hillunum hjá Manor í Sviss


Fyrr í mánuðinum birtist grein í Fiskifréttum þar sem greint var frá því að WWF - World Wide Fund, hefði gefið út lista í Sviss til leiðbeininga fyrir þarlenda neytendur um hvaða fisktegundir þeim væri óhætt að setja ofaní sig og hverjar ekki. Listinn var byggður á umferðarljósakerfinu: fiskar á grænu voru í lagi, á gulu vafasamir og harðbannað að borða tegundirnar á rauðu. Undir rauða merkinu var m.a. að finna þorsk úr Atlantshafi og engin sundurgreining á því hvort hann var frá Nýfundnalandi eða Noregi.

Í morgun kom ný frétt sama eðlis. Smásölukeðjan Manor í Sviss (www.manor.ch) hefur ákveðið að ganga til liðs við samtök sem heita „Friend of the Sea", (http://www.friendofthesea.org/) en þau hafa meðal annars tekið að sér að votta fisktegundir og fiskveiðar.

Manor ákvað það sem sitt fyrsta skref í málinu að fjarlægja úr hillum sínum þorsk úr Atlantshafi, ýsu, lúðu, bláugga túnfisk og Atlantshafslax. Á vefsíðunni Fishupdate.com er vitnað í viðtal við innkaupastjóra Manor SA. Þar segir hann að í framtíðinni verði aðeins á boðstólum hjá þeirra verslunum þorskur, lax og lúða frá eldisstöðvum sem vottaðar hafa verið af Friend of the Sea. Í árslok 2008 verður einungis boðið uppá vottaðar sjávarafurðir. Ekki minnist hann á ýsuna, en það verður að teljast með hreinum ólíkindum að hún skuli talin vera í útrýmingarhættu. Hvaðan þessir aðilar fá upplýsingar hlýtur að vera rannsóknarefni fyrir íslenskan sjávarútveg og yfirvöld.

Í viðtali við Paolo Bray, framkvæmdastjóra Friend of the Sea segir hann m.a.: "Manor sýndi hugrekki við ákvörðun sína sem allur iðnaðurinn ætti að taka sér til fyrirmyndar. Við erum viss um að neytendur munu kunna að meta þetta. Þessi ákvörðun mun ekki aðeins létta álaginu af þessum ofveiddu tegundum, hún mun einnig létta álaginu af sjávarbotninum þar sem nokkrar þessara fisktegunda - þ.e. þorskur, ýsa og lúða - eru aðallega veiddar af botntrollstogurum, veiðiaðferð sem plægir sjávarbotninn og eyðileggur kóralla og svampa ásamt því að sópa öllu öðru upp í leiðinni".

Er ekki kominn tími til að íslenskur sjávarútvegur fari að bregðast við af einhverri alvöru við þessari upplýsingagjöf til fiskkaupenda erlendis?

Fréttinni fylgdi mynd af Atlantshafslaxi - merktum „Friend of the Sea" - sem þýðir væntanlega að samtökin hafa nú þegar vottað einhverja laxeldisstöð við Atlantshafið.

ad1.JPG.jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...