Ráðist með botnvörpu inn í Ísafjarðardjúp - Landssamband smábátaeigenda

Ráðist með botnvörpu inn í Ísafjarðardjúp


Það var þungt hljóðið í stjórnarmönnum Eldingar er þeir komu til fundar á Ísafirði í gær 15. október. Ráðist hafði verið inn á viðkvæma veiðislóð þeirra með botnvörpu sem dregin var af þúsund tonna verksmiðjutogara, Örfirisey RE-4. Aldrei hafði það hvarflað að þeim að veiðarfæri sem víða um heim hefur verið bannað færi yfir aðal uppeldissvæði nytjastofna við Ísland – Ísafjarðardjúp. Enn síður að gjörningurinn skuli blessaður af Hafrannsóknastofnun. Stofnun sem lögum samkvæmt gegnir mikilvægu ráðgjafarhlutverki varðandi skynsamlega nýtingu auðlinda hafsins.


Ályktun stjórnar smábátafélagsins Eldingar er eftirfarandi:

Stjórn Eldingar harmar þau mistök að leyfa eitt þúsund tonna verksmiðjutogara, b/v Örfirisey RE-4 að toga inn eftir öllu Ísafjarðardjúpi í heila viku. Djúpið er eitt af aðal uppeldissvæðum nytjastofna við Ísland.
Fullvíst má telja að þessar botntrollsveiðar á grunnsævi hafi nú þegar valdið miklum skaða.

Stjórn Eldingar mótmælir harðlega að þúsund tonna verksmiðjutogara sé leyft að eyðileggja lífsbjörg smærri báta, sem stundað hafa þessa veiðislóð þegar veður eru válynd utan Djúpsins.

Stjórn Eldingar mótmælir enn fremur öllum botnvörpuveiðum innan 12 mílna.

Elding lýsir yfir furðu sinni á að Hafrannsóknastofnun standi að botnvörpuveiðum vegna veiðarfærarannsókna á þúsund tonna skipi innfjarðar. Veiðarnar eru í hróplegri mótsögn við þær friðunaraðgerðir sem stofnunin hefur staðið fyrir undanfarið.

Bent skal á að ekki hefur verið unnt að hleypa bátum til rækjuveiða á þessum tíma vegna mikils magns seiða og smáfisks í Djúpinu nú nýlega þegar m/b Dröfn RE stundaði rannsóknir þar á vegum stofnunarinnar.

Smábátasjómenn hafa fyrir því heimildir að ábúendum í Ísafjarðardjúpi hafi ekki orðið svefnsamt þegar verksmiðjutogari þessi skarkaði upp undir kartöflugörðum þeirra.


Stjórn Eldingar
15. október 2007.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...