Hið ósýnilega brottkast flottrollsins - Landssamband smábátaeigenda

Hið ósýnilega brottkast flottrollsins


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 23. nóvember sl.

„Forsíða Fiskifrétta 2. nóvember sl. var tvískipt. Efri hlutinn sýndi jákvæða nýtingu á síld. Rétt við bæjardyr Grundfirðinga voru þrjú síldveiðiskip að dæla úr nótum sínum, tvö þeirra voru búin að fá vel í sig, en það þriðja greinilega nýkomið til veiða. Enginn ágreiningur er um síld- og loðnuveiðar með nót.

Neðri hluti forsíðunnar boðaði hins vegar að mínu mati endalok flottrollsveiðar á loðnu og síld. Fyrirsögn fréttarinnar var:

Rannsóknir á flottrollsveiðum: 60-80% loðnunnar sleppa út úr trollinu

Stöðugur ágreiningur hefur ríkt um notkun flottrolls við loðnu- og síldveiðar. Fylgismenn flottrollsins hafa sagt það nauðsynlegt við veiðarnar og skellt skollaeyrum við því að trollið sé það skaðræði sem andstæðingar þess hafa haldið fram. Þeirra eina hálmstrá hefur falist í að benda á að engar rannsóknir sýni að flottrollið skaði á nokkurn hátt lífríkið. Nú hafa vopnin verið slegin úr höndum þessara aðila.


Ráðherra banni flottrollsveiðar á loðnu

Í fréttinni var greint frá því að 60-80% af loðnunni sem kæmi inn í vörpuna leiti út úr henni gegnum möskvanna. Rætt var við Harald Arnar Einarsson veiðarfærasérfræðing á Hafrannsóknastofnun sem ásamt fleirum stóðu að rannsókninni. Hann sagði að loðnan sem í trollið kæmi synti með togstefnunni „þar til stór hluti hennar réði ekki við hraðann sem trollið væri dregið á og síaðist út um möskvana.“
Þessar upplýsingar einar og sér ættu duga til að sjávarútvegsráðherra taki ákvörðun um að banna veiðar á síld og loðnu í flottroll. Hann hefur nú þegar lagt af stað í þá ferð þegar hann takmarkaði notkun trollsins frá og með 21. janúar sl. og nú aftur frá sama tíma á næsta ári. Á grundvelli upplýsinga sem fram hafa komið í fyrrnefndri rannsókn er forsenda fyrir sjávarútvegsráðherra að taka annað skref í þá átt að banna notkun flottrolls við loðnuveiðar.

Afstaða LS

Frá því farið var að beita flottrolli í auknum mæli við veiðar hér við land hefur Landssamband smábátaeigenda mótmælt þeim. Aðalfundur félagsins sem haldinn var 2002 mótmælti harðlega notkun flottrolls innan 50 mílna landhelgi og krafðist þess að veiðarnar yrðu bannaðar þangað til sannað yrði að ekki væru árlega tugir eða hundruð tonna af þorskseiðum og fleiri tegundum fiska sett í bræðslu eða dælt sjóinn. Þá var í ályktuninni gagnrýnt að sömu aðilar og legðu til ráð við uppbyggingu fiskstofna með ýmsum friðunaraðgerðum létu flottrollsveiðar viðgangast án athugasemda.
Allar götur frá 2002 hefur LS ítrekað afstöðu sína, nú síðast á aðalfundi félagsins í október sl. þar sem þess er krafist „að sjávarútvegsráðherra heimili engar flottrollsveiðar þar til sýnt þykir að þær skaði ekki lífríkið.“


Ekki friður fyrir æðandi flottrollinu

Fyrir réttum tveimur árum ritaði ég grein hér á þessum vettvangi. Þó ekki hafi ég lagt í vana minn að endurtaka skrif mín þá verður gerð undantekning þar á í þetta sinn þar sem fyrirsögn eins hluta greinarinnar bar yfirskriftina Skaðsemi flottrollsins:
„Þeir sem veiða með flottrolli halda því fram að ekki sé hægt að ná útgefnu aflamarki loðnu nema með hjálp þess. Andstæðingar flottrollsins benda hins vegar á að hér áður fyrr hafi gengið prýðilega að veiða loðnuna eingöngu í nót og ef þeir fái frið fyrir æðandi flottrollinu muni það takast áfram. Óumdeilt er að flottrollið kemur í veg fyrir að loðnan þétti sig í eins miklum mæli og hún gerði fyrir daga þessa veiðarfæris. Þannig dregur flottrollið úr getu nótaskipanna til veiða. Þá hefur verið bent á að togað er á móti loðnugöngunni sem valdi því að hún hægi verulega á sér. Það sést best á því að sjómenn í Þorlákshöfn hafa varla orðið varir við loðnugöngu sl. 3 ár. Loðnan hefur í minna mæli en áður fyrr skilað sér á helstu hrygningarslóðir þorsksins og það hefur spillt fyrir lífsskilyrðum hans. Einnig hefur verið bent á að þegar flottrollinu sé beitt verði á vegi þess annar fiskur, sem valdi bæði ósýnilegu brottkasti og afla sem skili ekki verðmæti. Undirritaður er þeirrar skoðunar að Hafrannsóknastofnun eigi að stíga skrefið til fulls og láta áhyggjur okkar helsta loðnusérfræðings, Hjálmars Vilhjálmssonar, um notkun flottrollsins ráða.“


Trollveiðibann í tilraunaskyni?

En það er ekki svo að LS hafi verið eitt á báti í mótmælum sínum við flottrollsveiðum.
Hinn 4. mars 2005 var viðtal hér í Fiskifréttum við Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðing. Þar sagði hann það sína skoðun að til greina kæmi að banna flottrollsveiðar á loðnu í tilraunaskyni í nokkur ár. Tilefni viðtalsins var einkennileg hegðun loðnunnar á vetrarvertíðinni. Hjálmar sagði að hann teldi áhrif flottrollsins á loðnuna geta verið tvenns konar:
„Annars vegar að meira af loðnu fari forgörðum þegar veitt er með trolli en nót“ og hins vegar „það mikla ónæði fyrir fiskinn sem felst í því að meirihluti loðnuflotans er kominn með flottroll sem dregið er allan sólarhringinn, að þessu sinni miklu sunnar og nær landi en áður.

Nú hefur verið sýnt fram á að ósýnilegt brottkast er meira en ásættanlegt er. Þó ekki liggi fyrir upplýsingar um hversu mikið lifir af þeirri loðnu sem smogið hefur út um flottrollið, er ljóst að þessar afar umdeildu veiðar eru stundaðar með mikilli ívilnun. Mismunun gagnvart nótaveiðunum er því augljós, þar sem umframafli flottrollstogara nemur hundruðum þúsunda tonna í milljón tonna loðnuári.

Að lokum er rétt að geta þess að veiðarnar hafa orðið til þess að minna hefur orðið eftir í lífríkinu en Hafrannsóknastofnun hafði reiknað með, sem leitt hefur til þess að fæða þorsksins hefur verið minni en gert var ráð fyrir.“


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...