„Kúvending sjávarútvegsráðherra“ eftir Gunnlaug Finnbogason formann Eldingar - Landssamband smábátaeigenda

„Kúvending sjávarútvegsráðherra“ eftir Gunnlaug Finnbogason formann Eldingar


Í grein er formaður Eldingar ritaði á fréttavef bb.is rifjar hann upp skrif sjávarútvegsráðherra er birtust á heimasíðu hans 2. nóvember 2002. Gunnlaugur segir pistil sjávarútvegsráðherra „eins og talaðan úr út sínu hjarta, þar sem færð eru gild rök gegn niðurskurði þorskkvótans“.
Grein Gunnlaugs sem ber heitið „Kúvending sjávarútvegsráðherra“ er eftirfarandi:

„Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 18. október sagði Einar Kristinn Guðfinnsson að tillögur landssambandsins og smábátafélaganna allt í kringum landið um 220 þúsund tonna þorskafla væru ótrúverðugar. Orðrétt sagði hann: „Ég verð hins vegar að viðurkenna og segja hér hreinskilnislega að það stofnstærðarmat sem Landssamband smábátaeigenda leggur til grundvallar því að fara nær 100 þúsund tonnum fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar finnst mér afskaplega ótrúverðugt.

Ég er afar ósáttur við þessi orð. Ég hef verið í trilluútgerð síðan árið 1990 og ég fullyrði að þorskstofninn sé í mjög góðu standi núna. Engan sjómann hef ég hitt sem hefur áhyggjur af því að þorskstofninn sé að hrynja. Tel ég því að tillögurnar um 220 þúsund tonnin séu mjög ábyrgar. Þó að reiknimeistararnir á Hafrannsóknastofnun segi annað og haldi dauðahaldi í gömlu formúluna sína þrátt fyrir stórar skekkjur sem þeir sjálfir hafa viðurkennt.Gunnlaugur-finnboga_.jpg

Á heimasíðu Einars Kristins Guðfinnssonar er að finna pistil sem er eins og talaður út úr mínu hjarta, þar sem færð eru gild rök gegn niðurskurði þorskkvótans. Pistillinn er hins vegar skrifaður af Einari Kristni sjálfum 2. nóvember 2002, þegar hann var formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis. Þá blasti við niðurskurður í þorski, þó það hafi aðeins verið svipur hjá sjón miðað við það sem Einar Kristinn Guðfinnsson hefur nú lagt til og fylgt eftir. Þau sjónarmið sem þarna koma fram hafa án vafa fleytt Einari langt í tvennum síðustu kosningum.

Pistillinn bar titilinn „Tekið undir með formanni LÍÚ“ og er eftirfarandi:

„Það kemur ekki oft fyrir, en það hendir þó, að við Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ, erum sammála. Og nú er komið að því, svona nokkurn veginn. Hér á ég við yfirlýsingu Kristjáns við setningu aðalfundar LÍÚ, þar sem hann krafðist aukinna veiðiheimilda í þorski, ufsa, kola og fleiri tegundum. Það er full ástæða til að taka undir með honum og hvað þorskinn áhrærir að leggja til mun meiri aukningu en formaður LÍÚ leggur til.

Ábyrgðarleysi, kann nú einhver að segja og það eru menn vanir að hrópa þegar farið er fram á auknar aflaheimildir og umfram það sem Hafrannsóknarstofnun hefur lagt til. Menn geta svo sem haft þau orð um mig, sem oft hef gagnrýnt fiskveiðiráðgjöfina. En varla er hægt að segja það um formann LÍÚ sem fylgt hefur ráðleggingum Hafró út í æsar og varið sjónarmið fiskifræðinganna af miklum móð.

Sagan af ýsunni

Nú rifjast líka upp að Árni M. Mathiesen lagði til verulega aukningu í ýsukvóta í fyrra. Þá varð allt vitlaust og ráðherrann fékk á sig skammir fyrir athæfið. En hvað gerðist. Hrundi stofninn? Öðru nær. Sé útgefinn aflakvóti í ýsu nú, borinn saman við upphaflega útgefinn ýsukvóta í fyrra þá er aukningin um 80 prósent.

Inn um alla flóa og firði

Hvar sem maður kemur heyrast sögur af mikilli þorskgengd og ýsugengd inn um alla flóa og firði. Nú eru það ekki bara sjómenn á Vestfjörðum sem þannig kunna frá að segja. Sjómenn víða að; um Vesturland og austur um segja sömu sögu. Að vísu er tregt nú um stundir, amk. í sum veiðarfæri , en það er ekki nýtt að haustinu.

Þar sem ekki hefur sést fiskur áratugum saman, finnst allt í einu fullt af fiski. Menn vitna til þess að sjórinn er hlýrri og fiskurinn hagar sér öðruvísi. Það er því ekki að undra að hann skili sér ekki inn á mæla fræðimannanna

Kemur niður á einstaklingsútgerðinni og sjávarbyggðunum

Hinn hrikalegi niðurskurður á aflaheimildum í þorski er farinn að bíta hraustlega víða. Ekki síst á meðal einyrkja. Þeir skrimtu meðan aflaheimildir voru heldur skárri. Nú eru menn komnir niður fyrir hungurmörkin og alltof víða tala menn um að fara að selja til þess að forða sér úr vandanum. Flestir vilja þó bíða og sjá hvort ekki rætist úr og uppörvandi ummæli frá helsta forystumanni útvegsmanna hleypir vonandi sem flestum kapp í kinn.

Margir einyrkjar í hópi útvegsmanna, einstaklingar sem hafa byggt sig upp af miklum dugnaði og útsjónarsemi, eru með aflaheimildir sínar mjög bundnar í þorskinum. Linnulaus niðurskurðurinn er þess vegna farinn að taka heldur betur í. Ekkert kæmi sjávarútvegsbyggðunum betur en almennileg aukning aflaheimilda. Engin byggðaaðgerð myndir virka hraðar. Ekker yki tekjurnar meira. Sérstaklega ætti þetta við í mörgum minni sjávarútvegsbyggðunum, sem eiga svo mikið aundir auknum aflaheimildum í þessum tegundum. Áhrifin yrðu jákvæð og mjög skjót.

Eykur samþjöppun aflaheimilda

Þessi samdráttur í aflaheimildum veldur því smám saman að aflaheimildir safnast á færri hendur. Eykur samþjöppunina. Það er ekki góð þróun. Við vitum það frá gamalli tíð að styrkur íslensks sjávarútvegs hefur alltaf falist í fjölbreytninni. Þess vegna verða menn að stilla hlutina þannig af að einstaklingarnir eigi sér einhverja von, möguleika að spjara sig. Aflaheimildir innan við 200 þúsund tonn af þorski gefa mönnum ekki slík færi.

Mörg dæmi eru um að menn hafa verið að reyna að fjárfresta í auknum heimildum, til þess að vinna upp skerðinguna. Skerðing næsta árs hefur svo óðaraétið það niður. Eftir sitja svo skuldirnar. Þetta er síðan það sem blessuð Samfylkingin vill svo fyrna fyrir mönnum. Það er að segja hinar skertu aflaheimildir, en ekki skuldirnar! Það er ekki skrýtið að þeir kallar telja sig þess umkomna að hrósa sér af velvild í garð byggðanna í landinu. Þvílík hræsni!

Áhrifin á markaðina

Svo er það eitt enn. Við vitum að íslenskir útflytjendur sjávarafurða eru að berjast um á gríðarlega hörðum markaði. Þeir eru að etja kappi við hörkulið utan úr heimi sem fær aura úr ríkiskössunum sínum til þess að bjarga sér. Við getum ekki boðið upp á slíkt. Ef við sem berjumst um á svona hörðum markaði getum ekki útvegað þann fisk sem markaðirnir biðja um, snúa kaupendurnir sér einfaldlega annað. Við þekkjum fjölmörg dæmi um slíkt. Markaðarnir verða hins vegar seint og illa endurheimtir. Af þessu getur því hlotist varanlegur skaði.

Allt hnígur að því sama

Þegar allt þetta er upp talið sjáum við, að allt mælir með því að auka aflaheimildir umfram það sem nú er. Vísbendingar um aflabrögð, skoðanir sjómanna, aflinn á grunnslóðinni og þar fram eftir götunum bendir allt í eina átt. Við eigum að auka aflaheimildirnar í þorski, ufsa, kola og fleiri tegundum. Það hressir þjóðarbúið og felur ekki í sér alvarlega áhættu.“

Svo mörg voru þau orð. Hver hefði trúað því að sami maðurinn riti þessi orð árið 2002 og beiti ráðherravaldi fimm árum síðar, ar sem ekki stendur steinn yfir steini af vel rökstuddum skoðunum? Hver hefur eiginlega fengið Einar Kristinn Guðfinnsson til að skipta svona algjörlega um skoðun?“

Gunnlaugur Finnbogason, formaður smábátafélagsins Eldingar.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...