Smábátaeigendur mótmæla harðlega hugmyndum um stækkun togveiðisvæða - Landssamband smábátaeigenda

Smábátaeigendur mótmæla harðlega hugmyndum um stækkun togveiðisvæða


Sl fimmtudag birtist frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar undir fyrirsögninni „Tilraunir með lagskipta botnvörpu“. Þar kemur m.a. fram að stofnunin ætli að lokinni frekari úrvinnslu og rannsóknum að leggja til breytingar á fyrirkomulagi botnvörpuveiða.

Vegna þessara tíðinda er vakin athygli á að aðalfundur LS sem haldinn var 18. og 19. október sl. ræddi um kröfu stærri útgerðarinnar að fá heimild til að ryðjast með stórvirk tæki inn á viðkvæma grunnslóðina. Því er gjarnan borið við að það sé nauðsynlegt svo hægt verði að veiða ýsuna. Umrædd frétt Hafró staðfestir að málefnið fær forgang hjá stofnuninni og því ástæða til að bregðast hart við og minna á samþykktir aðalfundar LS er lúta að togveiðum.

Aðalfundur LS mótmælir harðlega öllum hugmyndum um að opna ný veiðisvæði fyrir togveiðarfærum. Þvert á móti telja smábátaeigendur að loka þurfi enn frekar veiðisvæðum fyrir dregnum veiðarfærum.

Einnig samþykkti fundurinn að engar trollveiðar verði leyfðar innan 12 sml og benti samtímis á „að sú aðgerð að létta sókninni af viðkvæmum svæðum á grunnslóð sé meiri friðunaraðgerð en niðurskurður aflaheimilda og líklegri til að skila árangri í uppbyggingu þorskstofnsins.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...