Bann við flottrollsveiðum rætt á Alþingi - Landssamband smábátaeigenda

Bann við flottrollsveiðum rætt á Alþingi


Nýlega var umræða á Alþingi um bann við flottrollsveiðum. Umræðan spratt út af eftirfarandi fyrirspurn Herdísar Þórðardóttur (D) til sjávaútvegsráðherra:

„Telur ráðherra koma til greina að banna veiðar á síld og loðnu í flottroll við strendur landsins?“

Herdís sagði eftirfarandi:

„Frú forseti. Á liðnu sumri var tekin mjög mikilvæg ákvörðun um niðurskurð í aflaheimildum í þorski. Farið var eftir tillögum Hafró um að skera niður aflaheimildir um tæplega þriðjung. Þessi ákvörðun var vitaskuld erfið, enda fyrirséð að hún mundi valda útgerðum og mörgum byggðarlögum verulegum búsifjum. Við slíkar aðstæður hljótum við að leita allra leiða til að tryggja að þorskstofninn nái fyrri styrk. Með hinni huguðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra frá nýliðnu sumri hefur verið dregið stórkostlega úr veiðiálagi. En er það nægilegt? Á það endilega að vera svo að þær útgerðir og þau byggðarlög sem gera mest út á þorsk axli ein byrðarnar við uppbyggingu stofnsins?

Fleira getur haft áhrif á stofnstærð en veiðarnar eingöngu. Má þar nefna lífsskilyrði sjávar, hitastig og æti og enn fremur veiðarfæri og afkastagetu skipa. Mikilvæg fæða þorsksins, loðnan, hefur verið veidd á undanförnum árum í auknum mæli í flottroll. Flottrollið, eða flotvarpan, er búið þeim eiginleikum að það er lengi að veiða. Það er dregið á meiri hraða en fiskurinn syndir og stór hluti þess sem í trollinu lendir síast út úr því og enginn veit hvað um það verður. Hafró hefur nýlega verið að gera athuganir á veiðum með flottroll og er talið að allt að 60–80% af loðnunni sleppi út úr trollinu.

Á undanförnum árum hafa verið miklar umræður innan lands um hvort rétt sé að leyfa slík veiðarfæri sem trúlega valdi miklum skaða og notuð eru af öflugum skipum sem draga allan sólarhringinn á hvaða dýpi sem er. Mig langar til að vitna til viðtals við Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðing og einn helsta sérfræðing Hafró í loðnu en hann sagði í viðtali við Fiskifréttir í mars 2005 að hann teldi koma til greina að banna flottrollsveiðar í loðnu í nokkur ár í tilraunaskyni. Hjálmar telur áhrif flottrollsins á loðnuna geta verið tvenns konar, svo vitnað sé í viðtalið, með leyfi forseta, annars vegar að meira af loðnu fari forgörðum þegar veitt er með trolli en nót og hins vegar mikið ónæði fyrir fiskinn sem felst í því að meiri hluti loðnuflotans er kominn með flottroll sem dregið er allan sólarhringinn.

Ég hlýt sömuleiðis að vekja athygli á umræðum um þessi mál á aðalfundi LÍÚ nú í lok október en þar er hvatt til aukinna rannsókna á loðnu, m.a. hvort veiðar í flotvörpu hafi áhrif á göngu loðnunnar og jafnframt að rannsökuð verði áhrif flotvörpunnar við síldveiðar. Vissulega er margt á huldu um áhrif flotvörpu en er ekki rétt að láta lífríkið og þorskinn njóta vafans? Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi spurningu til sjávarútvegsráðherra:

Telur ráðherra koma til greina að banna veiðar á síld og loðnu í flottroll við strendur landsins?“


Í svari sjávarútvegsráðherra

http://www.althingi.is/raeda/135/rad20071107T131846.html

kom meðal annars fram að „vaxandi krafa, vil ég segja, um að takmarka flottrollsveiðar á uppsjávarfiski, bæði varðandi loðnuna og síldina. Þess vegna hafa stjórnvöld brugðist þannig við að þau hafa verið að reyna að takmarka þessar veiðar.“

og síðar í svari sínu sagði hann:

„Við vitum að mjög margir starfandi sjómenn telja að trollið hafi truflandi áhrif á göngu loðnunnar. Menn toga á móti gönguferðinni á loðnunni sem auðvitað hefur truflandi áhrif, fyrir utan það sem hv. þingmaður nefndi, sem komið hefur fram í rannsóknum sem veiðarfærasérfræðingar Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði og í Reykjavík hafa komist að með rannsóknum sínum á síðustu vertíðum sem er að það hefur verið mikið smug. Heilmikið af loðnunni fer í gegnum loðnutrollið og mönnum hefur ekki tekist að komast að því enn þá hvort loðnan lifi þetta hreinlega af. Veiðarfærasérfræðingar telja að það sé í raun og veru nánast ógerningur tæknilega að komast að því. Við vitum því að þetta er heilmikilli óvissu undirorpið og þess vegna höfum við bannað loðnuveiðar með flotvörpu. Þær eru einungis heimilar eftir 21. janúar á næsta ári á afmörkuðu svæði úti fyrir norðanverðum Austfjörðum eins og kunnugt er og það verður gert með sama hætti og gert var á síðasta ári, þannig að um er að ræða verulegar takmarkanir.“


Jón Bjarnason (Vg) tók undir sjónarmið Herdísar um flottrollveiðar og sagði eftirfarandi:

„Ef ég man rétt þá eru þær ekki heimilaðar, ég man ekki betur en þær séu í heild sinni, a.m.k. hvað kolmunna varðar og gott ef ekki líka loðnu, á undanþágu sem tilraunaveiðar. Þegar menn eru farnir að veita undanþágu eða takmarka tilraunaveiðar á flottrolli eins og hæstv. ráðherra lýsti að þeir mundu gera þá eru menn að mínu viti komnir töluvert mikið út á villigötur. Þessar veiðar voru að mig minnir heimilaðar í tilraunaskyni og eru enn í gangi í tilraunaskyni. Það er ekki bara skemmdin á lífríkinu eða hættan (Forseti hringir.) á því heldur líka sá gríðarlegi meðafli sem talið er að komi í flottroll og hvergi er reiknað með. Það er of mikið órannsakað í þessum efnum til að náttúran fái ekki að njóta vafans.“


Herdís þakkaði ráðherra greinargóð svör og vænti þess að tekið yrði á þessum málum. Hún endaði mál sitt á eftirfarandi:

„Þeir sem hafa tekið á sig niðurskurðinn í þorski og verða að byggja hann upp, þennan verðmætasta nytjastofn okkar Íslendinga, eiga rétt á því að við skoðum vandlega hvaða aðrir þættir en sjálf þorskveiðin hafa áhrif á viðgang stofnsins. Útgerðir og byggðarlög sem eiga undir þorskveiðum geta ekki borið þessar byrðar ein þegar margt bendir til þess að veiðiaðferðir á uppsjávarfiskum, þ.e. veiðar með flottroll, hafa bein áhrif á vöxt og viðgang þorskstofnsins. Þorskveiðar eru og verða áfram undirstöðugrein íslenska sjávarútvegsins. Okkur sem falin hefur verið ábyrgð í þessum efnum ber skylda til að skoða allar vísbendingar um það sem áhrif kann að hafa á viðgang þorskstofnsins. Að mínu mati þarf að leggja ríkari áherslu á rannsóknir annarra þátta en veiðiálagsins eingöngu og þess vegna fagna ég viðbrögðum ráðherra við fyrirspurn minni.“


Að lokum sagði ráðherra, Einar Kristinn Guðfinnssona þetta:

„Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég held að það sem skipti mjög miklu máli í þessu sambandi sé það sem hv. þm. Herdís Þórðardóttir sagði í seinni sinni ræðu áðan og það er auðvitað hvaða áhrif fæðuaðgengið hefur á þorskstofninn. Við vitum að einn hluti af þeim vanda sem við höfum verið að glíma við varðandi þorskstofninn er að hann hefur ekki þyngst eðlilega. Raunar var það svo að u.þ.b. 40% skýringarinnar á því að Hafrannsóknastofnun mældi þorskstofninn 100 þúsund tonnum minni á þessu ári en í fyrra, voru vegna þess að stofninn var léttari, sem væntanlega hefur eitthvað með það að gera að fæðuaðgengið hefur ekki verið með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Þess vegna skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi að við stundum loðnu- og síldveiðar á þann hátt að við teflum þessu máli ekki í neina tvísýnu.

Ég ítreka að við höfum verið að reyna að ganga mjög varlega fram varðandi flottrollsveiðar. Reynt hefur verið að takmarka þær og það fer ekkert á milli mála, ef það er skoðað, að við höfum gengið lengra í þessum efnum en við gerðum áður og dæmið varðandi loðnuna er auðvitað skýrasta dæmið um það. Það var einfaldlega gengið í það verk á árinu 2005/2006 að draga úr loðnuveiðum í flottroll. Við sáum síðan að göngumunstur loðnunnar varð eðlilegra eins og ég rakti áðan. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höldum áfram þeim rannsóknum sem við höfum hafið á áhrifum veiðarfæra. Ég hef lagt sérstaka áherslu á að reyna að efla þann þátt hafrannsókna alveg sérstaklega, m.a. með því að setja á stofn miðstöð veiðarfærarannsókna við Hafrannsóknastofnun á Ísafirði þó að þær rannsóknir séu jafnframt stundaðar við Hafrannsóknastofnun í Reykjavík. Þetta er að skila árangri að mínu mati. Við sjáum t.d. upplýsingar um margs konar árangur varðandi beitingu veiðarfæra og því er mjög réttlætanlegt og skynsamlegt að gera þetta.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...