Hrollaugur – dragnótaveiðar í fjörum Suðurlands - stundarhagsmunir látnir ráða ferð - Landssamband smábátaeigenda

Hrollaugur – dragnótaveiðar í fjörum Suðurlands - stundarhagsmunir látnir ráða ferð


Stjórn Hrollaugs kom saman í gær, 16. desember, og fjallaði um þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að heimila dragnótaveiðar upp í fjöru við suðurströndina. Einnig ræddi stjórnin um tilslakanir ráðherrans varðandi opnun friðaðra svæða fyrir togveiðarfærum sem hann hefur heimilað veiðar á.

Vegna þessa ákvað stjórn smábátafélagsins Hrollaugs að senda ráðherra bréf sem er svohljóðandi:

„Stjórn smábátafélagsins Hrollaugs Hornafirði skorar á sjávarútvegsráðherra að opna ekki fleiri hólf en orðið er fyrir togveiðum.Hofn100_2441_1.jpg

Við hörmum það að búið sé að opna fyrir snurvoð með allri suðurströndinni austur að Ingólfshöfða upp í fjöru. Frá Ingólfshöfða er opið upp að einni mílu austur að Hálsaskerjum og sjáum við ekki nokkra ástæðu að opna þetta svæði frekar. Þetta eru stundarhagsmunir fyrir þá sem þessar veiðar stunda, en á eftir að koma sér mjög illa, sé til lengri tíma litið. Okkur finnst það einkennilegar friðunaraðgerðir að skerða kvóta en á sama tíma að opna hólf fyrir dregnum veiðarfærum.

Stjórn Hrollaugs vill alfarið banna allar flottrollsveiðar ekki síst í ljósi nýjustu athugana sem sýna að einungis 20 til 40% af loðnu sem fer inn um trollopið endar aftur í poka. Meirihlutinn tapast á leiðinni aftur í trollið og má búast við því að stór hluti þess drepist og verði engum til gagns.“

Undir bréfið ritaði stjórn Hrollaugs, en hana skipa:
Unnsteinn Þráinsson formaður
Friðþór Harðarson ritari
Grétar Vilbergsson gjaldkeri

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...