Trillukarl vinnur mál gegn ríkinu - Landssamband smábátaeigenda

Trillukarl vinnur mál gegn ríkinu


Héraðsdómur Reykjavíkur birti í dag dóm í máli Más Ólafssonar trillukarls á Hólmavík gegn íslenska ríkinu. Már gerði kröfu um að í fyrsta lagi yrði ómerkt ákvörðun skattstjóra Vestfjarðaumdæmis um að hækka framtalsskyld laun, í öðru lagi að ómerktur yrði úrskurður yfirskattanefndar um staðfestingu ákvörðunar skattstjórans og í þriðja lagi gerði Már kröfu um að fá greiddan málskostnað.
Skemmst er frá því að segja að Héraðsdómur féllst í dómnum á allar kröfur Más og því um fullnaðarsigur að ræða á þessu dómsstigi.

Lögmaður Más var Ásmundur G. Vilhjálmsson hdl.


Í málinu var tekist á um hvort viðmiðunarreglu ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald hefði lagastoð. Reglan kveður á um að reiknað endurgjald þeirra sem stunda fiskveiðar á smábátum er kjarasamningar taka ekki til, skuli eigi vera lægra en 40% af aflaverðmæti báts.

Gera má ráð fyrir að dómurinn hafi fordæmisgildi og fjöldi smábátaeigenda eigi rétt á leiðréttingu opinberra gjalda á grundvelli hans. Rétt er þó að taka fram að hér er um dóm í héraði að ræða og því ekki vitað hvort íslenska ríkið áfrýi til Hæstaréttar eða uni dómnum.


Ingimundur Einarsson kvað upp dóminn.


Dómurinn í heild:

http://www.domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=E200700762&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...