Útgerðarmaður ársins - Landssamband smábátaeigenda

Útgerðarmaður ársins


Eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason í Fiskifréttum 21. desember s.l. undir fyrirsögninni „Útgerðarmaður ársins":
„Mitt í svartasta skammdeginu gengur í garð hátíðin sem kennd er við ljós og frið. Vissulega tindra jólaljós á jörðu og stjörnur á himni, en ríkir friður í hjörtum okkar? Dag hvern streyma tugþúsundir tonna af stálblóði í bifreiðalíki eftir malbikuðum æðum borgarinnar, æðandi að Mammonsmusterunum sem eru við að hrynja undan verslunargóssinu.
Hvern einasta morgun hraukast upp dagblöð, auglýsingapésar og einblöðungar innan bréfalúgunnar, myndskreytt kjöti, flatskjám, undirfötum, Hummerum og tölvurusli. Samhliða umfjöllun um bjóralið og nuddað nautaskjöt frá Japan á kílóverði sem jafngildir vikulaunum margra á vinnumarkaði eru greinar um fólk sem á hvorki í sig eða á. Ætli afmælisbarninu sé skemmt?

Ég skal fúslega játa að ég er jafn sekur og þorri landsmanna í þessum efnum. Sem barn var tilhlökkunin fölskvalaus: stórfjölskyldan sameinuð, sungin jólalög, farið í messu, ilmur af jólasteik, pakkarnir - og þessi ólýsanlega sæla að leggjast í nýuppábúið rúm með nýjustu Óla og Magga bókina og svífa inní draumalandið mitt í ævintýri.

Nú hnoðast ég sem aðrir eftir malbikinu, oftast á síðstu stundu, í leit að „viðeigandi" jólagjöfum, með öndina í hálsinum yfir því að gleyma einhverjum sem síst á það skilið.

Ástæða þess að ég tíni til framantalið er símtal sem ég átti um mitt ár við góðan vin, trillukarl frá Húsavík, Sigurð Gunnarsson. Sigurður var einn dyggasti stuðningsmaður minn þegar ég stóð í því árið 1985 að stofna Landssamband smábátaeigenda. Hann á þar stærri þátt en flesta grunar.
Í spjalli okkar ræddum við sem endranær landsins gagn og nauðsynjar, fiskgengd og fuglafar, en á síðarnefnda sviðinu er hann sjálfmenntaður sérfræðingur. Í samtalinu greindi hann mér hinsvegar frá nokkru sem hefur setið í huga mér æ síðan.

Sigurður hafði tekið þá ákvörðun, meðvitaður um illvígan sjúkdóm sem hann glímir við og eftir að hafa frétt af hinum gríðarlega niðurskurði í þorskveiðiheimildum, að láta tveimur trillukörlum eftir kvótann sinn, endurgjaldslaust, meðan hann lífsandann drægi. Hann sagði hreint út: „ég fer ekki oftar á sjó og við konan höfum nóg. Börnin spjara sig prýðilega. Ef ég geri þetta komast þeir betur en ella í gegnum þrengingarnar. Ég myndi gjarnan vilja sjá einhverja fylgja þessu fordæmi".
Það er ekki á hverjum degi sem ég verð orðlaus, en svo sannarlega varð ég það í þetta skipti.

Þessa dagana, mitt í öllu atinu kringum Mammon, verður mér hugsað til þessa vinar míns. Mitt í öllu atinu er til maður eins og hann með hugarfar sem markast af fórnfýsi, samhug og kjarki til að taka ákvörðun langt fram yfir eigin hagsmuni.

Undanfarið hafa einstaklingar verið valdir „menn ársins" á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins. Þessir einstaklingar hafa sýnt hugprýði og þor til að standa fram úr skaranum.

Ég ætla því að nota tækifærið og velja útgerðarmann ársins, Sigurð Gunnarsson, trillukarl frá Húsavík.

Lesendum óska ég gleðilegra jóla og heillaríks komandi árs. Megi friður og gleði fylgja ykkur.

Arthur Bogason
Formaður
Landssambands smábátaeigenda"

Sigur›ur Gunnarsson 2006[1].jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...