Farsæll ómyrkur í máli varðandi dragnótina - Landssamband smábátaeigenda

Farsæll ómyrkur í máli varðandi dragnótina


Félagsfundur í Farsæl, félagi smábátaeigenda í Vestmannaeyjum, haldinn hinn 16. febrúar sl. ályktar eftirfarandi:

„Veiðar með dragnót verði alfarið bannaðar innan 6 mílna við strendur landsins.

Greinargerð:
Þegar kvótakerfið var sett á til „verndunar þorkstofninum” voru um sama leyti leyfðar svokallaðar „tilraunaveiðar” með dragnót.
Þetta skýtur skökku við. Á sama tíma og lokað er fyrir togveiðar á ákveðnum svæðum, bíða stór dragnótaskip með allt að 1000 hestafla vélar og minni möskvastærð í veiðarfærum eftir því að togararnir fari af svæðinu, svo þeir fyrrnefndu geti hafið skark á svæðinu.
Félagsfundur Farsæls telur dragnótina margfalt verra veiðarfæri en fótreipistrollið. Dragnætur eru með margra kílómetra níðþung dráttartóg, þeim kastað allt uppí fjöruborð allan liðlangan daginn, oft á tíðum svo grunnt að sæta þarf flóði ef útgerðin í heild sinni á ekki að hafna á þurru landi.
Þessi þungu tóg drepa sandsíli og aðra fiska sem hvorki skila sér í veiðarfærum að skipshlið, né um borð.

Stofn sandsílis er nánast horfinn af miðunum fyrir Suðausturlandi, Suðurlandi og norður í Breiðafjörð. Þorskstofninn á þessu svæði hefur lifað á sandsílinu sem og loðnugöngum. Við bætist að sjófuglategundir eins og t.d. lundi eru í augljósri hættu vegna þessa ástands.
Þetta vekur upp áleitnar spurningar um afdrif þorskklaksins á viðkomandi svæðum – sem alla tíð hafa verið talin þau mikilvægustu fyrir hrygningu þorsks við landið.

Það er eindregin skoðun Farsæls að hér eigi náttúran að njóta vafans. Farsæll skorar því á stjórnvöld að loka á þetta skaðræðis veiðarfæri í það minnsta 6 mílur frá ströndum landsins”.

-------

Tog dragnótabáta eru oftast um 6 km í ummál. Það þýðir (með fyrirvara um að rétt sé reiknað) að flatarmál hvers togs er u.þ.b. 2.86 km2. Reykjavík er 273 km2, svo 95 tog þarf til að þekja sama flatarmál. Seltjarnarnesið er á stórstraumsfjöru hins vegar um það bil sama flatarmál og eitt slíkt tog. Lesendur eru því beðnir að hafa í huga, taki þeir rúnt útá „Seltjarnarnesið lítið og lágt”, að í heild sinni rúmast það innan eins slíks dragnótarkasts!

Myndin sýnir Seltjarnarnesið og „kasts" utan um það.
Picture 9.png

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...