Öfugþróun - Landssamband smábátaeigenda

Öfugþróun


Eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 15. febrúar sl undir fyrirsögninni „Öfugþróun“

,,Niðurskurður veiðiheimilda í þorski hefur því leitt af sér stóraukna sókn botndreginna veiðarfæra í ýsu”

„Frá því ríkisstjórnin samþykkti að fara að tillögu Hafrannsóknastofnunar um þriðjungs niðurskurð í þorski hafa sjómenn á bolfiskveiðum verið á hröðum flótta undan þorskinum. Aðaláherslan hefur verið lögð á að veiða ýsu og nota þorsk sem meðafla. Það hefur gengið eftir atvikum vel þegar litið er til aflatalna. Á fyrstu fimm mánuðum fiskveiðiársins höfðu veiðst 56 þús. tonn af þorski samanborið við 89.500 tonn á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári og 49.500 tonn af ýsu á móti 41 þús. tonnum áður.

Þannig hefur þorskaflinn minnkað um 37,3% en ýsuaflinn aukist um 21,2%. Þessi mikli niðurskurður í þorski hefur haft gríðarleg áhrif. Enn meiri samþjöppun útgerða, lægri laun sjómanna og fækkun þeirra, samdráttur hjá þjónustuaðilum útgerðarinnar, uppsagnir í fiskvinnslu og gjörbreytt veiðimynstur, svo fátt eitt sé nefnt.


Afstaða náttúruverndarsamtaka

Eitt af því sem náttúruverndarsamtök víða um heim hafa vaktað á undanförnum árum er að stjórnvöld víki ekki útaf tillögum vísindamanna um heildarafla. Fari alfarið eftir því sem þeir ráðleggja. Þannig voru íslensk stjórnvöld þau ábyrgu að þeirra mati í ár og fengu fyrstu einkunn, samanber viðbrögð Náttúruverndarsamtaka Íslands í júlí sl.

Það hefur nú komið á daginn að ekki er nægilegt að segja A, fagna og segja allt sé í himnalagi. Náttúruverndarsamtök víða um heim hafa hafið mikla herferð gegn veiðum með botnvörpu, biðja almenning að sniðganga fisk sem veiddur er með því veiðarfæri. Íslensk stjórnvöld hafa vitanlega af þessu áhyggjur eins og marka mátti yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra í Morgunblaðinu nú fyrir skömmu.


Breytt sóknarmynstur

En hvaða afleiðingar hefur það haft að skerða þorskkvótann um þriðjung? Útgerðir stórar sem smáar þurftu að gjörbreyta sóknamynstri sínu. Nánast enginn getur í dag stundað beinar þorskveiðar. Veitt er á svæðum sem gefa ýsu en sem minnst af þorski. Slíkt er afar erfitt og því má undrun sæta það sem sjá má á aflatölum hér að framan, ýsuaflinn aðeins 6.700 tonnum lægri en þorskaflinn.

Smærri bátar, stærðar sinnar vegna, hafa minna svigrúm til sóknar á önnur mið en stærri skip. Í sóknamynstri undanfarinna ára hefur sú takmörkun að nokkru jafnast út þar sem stærri skipum hefur verið óheimilt að veiða á innanverðri grunnslóðinni með dregnum veiðafærum. Með þorskskerðingunni varð breyting þar á. Enn meira var þrengt að smábátunum með stóraukinni sókn skipa með dragnót og troll á hefðbundna veiðislóð þeirra.


Metnaðarleysi Hafrannsóknastofnunar

Ég minntist á A hér áðan. Breyting á sóknarmynstri af völdum niðurskurðar þorskveiðiheimilda hefur leitt til stóraukinnar sóknar með dragnót og troll á innanverðri grunnslóðinni. Ábyrgðin sem ríkisstjórnin sýndi hefur því m.a. haft þær afleiðingar að ráðist er með stórvirk veiðarfæri á lífríkið þar sem það er viðkvæmast. Það vekur gremju að vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafi látið slíkt viðgangast. Benda einungis á að rannsóknir vanti til að sýna að slíkt sé hættulegt lífríkinu. Að mínu mati sýnir það undirlægjuhátt gagnvart togveiðafærum, þar væri mun eðlilegra væri að viðhalda veiðibanni þar til rannsóknir sýni að veiðar valdi ekki skaða á lífríkinu. Stefna HAFRÓ í þessum málum þegar botntrollið á í hlut er hins vegar sú að ef fiskur stenst lengdarmælingar þá má fara með troll og dragnót upp í fjörur, og friðuð hólf í áraraðir eru afnumin. Þarna er metnaðarleysi Hafrannsóknastofnunar algjört, þar sem stofnunin hefur ekki sýnt fram með rannsóknum að veiðarnar skaði ekki lífríkið og hvaða áhrif ákvörðunin hafi á uppbyggingu fiskstofna.


Aukin hlutdeild trolls og dragnótar

Það sem af er þessu fiskveiðiári hefur hlutdeild togara í ýsuafla aukist um fjórðung, er orðinn 42,3%, en var á síðasta ári rúmur þriðjungur. Ýsuafli dragnótabáta hefur aukist um 41% og togara og trollskipa um 59%. Sama er ekki uppi á teningunum með ýsuafla á línu, 5,2% aukning og hlutur línunnar í ýsuaflanum minnkað frá því að vera rúmur helmingur, 54,2% í 44,8%. Niðurskurður veiðiheimilda í þorski hefur því leitt af sér stóraukna sókn botndreginna veiðafæra í ýsu. Ég er ekki í minnsta vafa um að þessi þróun er afar óæskileg hvernig sem á hana er litið.

Niðurskurður í þorskinum hefur einnig haft áhrif á fjölda þeirra sem treysta sér til að gera út. En hvar skyldi fækkunin hafa átt sér stað? Skyldi þorskskerðingin hafa aukið veiðar með kyrrstæðum veiðarfærum þar sem olíunotkun á hverja verðmætaeiningu er aðeins brot af því sem gerist með botndregnum veiðafærum?

Það er síður en svo.


Fækkun í veiðum með færi, línu og net

Skipum og bátum sem stunda þorskveiðar með handfæri, línu eða netum hefur fækkað um 130 eða um fimmtung á fyrstu 5 mánuðum fiskveiðiársins miðað við sama tímabil ári fyrr. Þessu er þveröfugt farið með þann flokk skipa sem nota botndregin veiðarfæri, botnvörpu og dragnót. Þar hefur aðeins fækkað um eitt skip.

Er það nema von að kraumi í mörgum manninum sem berst nú um að ná endum saman að sjá skarkað á hefðbundnum heimamiðum með botnveiðafærum sem verða þess valdandi að skaði hlýst af um ókomna tíð. Til dæmis hafa sjómenn sem stundað hafa veiðar við suðurströndina austan Þorlákshafnar bent á að síðast þegar dragnótinni var hleypt þar upp í fjörur hefði það tekið 10 ár fyrir svæðið að jafna sig.

Með þær staðreyndir fyrir framan sig sem hér hafa verið reifaðar er kominn tími til að Hafrannsóknastofnun gefi, samhliða aflaráðgjöf, ráðamönnum álit á því hvort ekki mætti ná árangri við uppbyggingu þorskstofnsins með tillögum um aukið vægi kyrrstæðra veiðarfæra og algjöru banni við notkun trolls og dragnótar á viðkvæmu lífríki grunnslóðarinnar.


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.“

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...