Undirskriftasöfnun gegn flottrollsveiðum hafin í Bandaríkjunum - Landssamband smábátaeigenda

Undirskriftasöfnun gegn flottrollsveiðum hafin í Bandaríkjunum


Greint var frá því hér á vefnum s.l. þriðjudag að strandveiðimenn í Chile hafa hrint úr vör herferð gegn togveiðum við landið.
Þeir eru ekki einir á báti. Í Bandaríkjunum er hafin undirskriftasöfnun gegn flottrollsveiðum við strendur landsins. Í áskorun til bandarískra stjórnvalda er skorað á þau að banna allar flottrollsveiðar innan 50 mílna. Í henni segir einnig að flottrollsveiðarnar með sínu róti í makríl- og síldartorfum hafi gerbreytt þorsk- og túnfiskveiðum við ströndina - þær séu nú aðeins skuggi þess sem var.

Rökin eru íslenskum strandveiðimönnum ekki ókunnug. Verið er að taka fæðuna frá þeim fiskitegundum sem þeir byggja afkomu sína á. Í áskoruninni er því algerlega hafnað að fleiri nefndir eða vinnuhópar verði skipaðir til að fara yfir málið. Krafist er tafarlausra aðgerða.

Nú stefnir í að loðnuvertíðin á Íslandi verði aðeins svipur hjá sjón. Loðnan virðist annaðhvort ekki vera til í því magni sem fræðin gerðu ráð fyrir eða hegðun hennar hefur gerbreyst. Nú eru 20 - 25 dagar þar til hún hrygnir að öllu jöfnu. Heildarveiðin á þessari stundu er aðeins brot af heildarkvótanum.

Aðalfundur LS árið 2002 mótmælti harðlega notkun flottrolls innan 50 mílna landhelgi og krafðist þess að veiðarnar yrðu bannaðar þangað til sannað yrði að ekki væru árlega tugir eða hundruð tonna af þorskseiðum og fleiri tegundum fiska sett í bræðslu eða dælt sjóinn. Allar götur síðan hefur LS ítrekað afstöðu sína, nú síðast á aðalfundi félagsins í október 2007.

Hérlendis sjá flestir fyrir sér stóra togara með flottroll í eftirdragi, en það er ekki endilega tilfellið í Bandaríkjunum.

Á neðri myndinni sést að flottrollsveiðar eru stundaðar af furðu litlum skipum.

trawling_illustration.gif

thunder_bay.jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...