Vangaveltur um rúmmál hlutanna - Landssamband smábátaeigenda

Vangaveltur um rúmmál hlutanna


Það er athyglisvert að velta fyrir sér þeim stærðum sem fjallað er um varðandi fiskistofna, heimshöfin og fleira. Talið er að útbreiðslusvæði þorsks við Íslandsstrendur sé a.m.k. 220 þúsund ferkílómetrar innan efnahagslögsögunnar, sem í heild er 738 þúsund ferkílómetrar.

Víðfeðmi og umfang hafanna á jörðinni er slíkt að mannskepnan á erfitt með að átta sig þar á. Meðaldýpt hafanna á jörðinni er 3800 metrar (3,8 km) og þau þekja 71% af yfirborði jarðar. Jafn furðulegt og það hljómar, þá leggja höfin aðeins til u.þ.b. 5 - 6% af hitaeiningafjöldanum sem mannkynið nærist á í dag. M.ö.o. - þurrlendið, sem þekur aðeins um 29% jarðar og stór hluti þess óbyggilegur við núverandi aðstæður - leggur til 94 - 95% af hitaeiningaþörf mannkynsins.
Rúmmál hafanna er um 1,37 milljarðar rúmkílómetra. Væri mannkyninu staflað upp í kassa sem væri kílómetri á allar hliðar (einn rúmkílómetri) myndi staflinn aðeins fylla uppí 1/3 af kassanum.

Þorskstofninn við Ísland er í dag talinn af vísindamönnum innan við 600 þúsund tonn. Eðlisþyngd fisks er svo nálægt því að vera það sama og vatns að sá mismunur skal látinn liggja á milli hluta í þessum vangaveltum. Til að átta sig á rúmmálsstærðum í þessu sambandi eru lesendur beðnir - líkt og í fréttinni hér á vefnum frá því í fyrradag varðandi umfang dragnótartogs - að staldra við um stund við Reykjavíkurhöfn (fyrir neðan Vesturbæinn í Reykjavík).
Flatarmál hafnarinnar er um 350 þúsund fermetrar. Sé meðaldýpt hennar 5 metrar, er rúmmálið 1.750.000 rúmmetrar. Þetta þýðir að þorskstofninn, sem Hafrannsóknastofnunin mælir nú innan við 600 þúsund tonn, kemst fyrir í litlum hluta Reykjavíkurhafnar. Menn geta svo velt fyrir sér í framhaldinu hvernig í ósköpunum stofnuninni á að takast að mæla þorskstofninn á svæði sem er 220 þúsund ferkílómetrar - margfaldir að dýpt miðað við Reykjavíkurhöfn.

Á efri myndinni er Reykjavíkurhöfn og „plássið" sem 130 þúsund tonna þorskafli tekur. Á neðri myndinni eru útlínur Íslands. Hvar þessa Reykjavíkurhöfn er á henni að finna er lesendum látið eftir.

Picture 28.png

Picture 23.png

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...