Jákvæðar undirtektir við rannsóknastofnun fyrir vestan - Landssamband smábátaeigenda

Jákvæðar undirtektir við rannsóknastofnun fyrir vestan


Í gær birtust tvær fréttir á vef Bæjarins besta um tillögu sem samþykkt var á síðasta aðalfundi LS, um sjálfstæða rannsóknastofnun á sviði sjávarútvegs með aðsetur á Vestfjörðum.
Fram kemur í annarri fréttinni að Háskólasetur Vestfjarða tekur jákvætt í tillögur LS og í umsögn Peters Weiss að hann kunni vel að meta það traust og þann stuðning sem smábátaeigendur um allt land sýna háskólasamfélagi á Ísafirði og lýsir því yfir að Háskólasetrið sé tilbúið til að vinna að útfærslu þessarar tillögu í samvinnu við Landssambandið og aðra sem gætu tengst málinu.
Í samþykkt aðalfundar LS segir m.a. að algjör trúnaðarbrestur hafi orðið milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunar, tímabært sé að rjúfa þá einangrun... og gild rök hnígi að því að ný stofnun með þetta hlutverk hafi aðsetur á Vestfjörðum þar sem sjávarútvegur er undirstaða mannlífs og mikilvægt að nýta yfirgripsmikla þekkingu sjómanna sem aflað hefur verið með áratuga veiðireynslu.

Í hinni fréttinni segir orðrétt: „Háskólasetrið hefur í nokkurn tíma haft áhuga á að koma á fót PhD-school eða doktorsnematorfu. Þetta er meðal annars það sem kemur fram í umsögn Háskólasetursins um nýja rannsóknastofnun í sjávarútvegi sem Landssamband smábátasjómanna hefur lagt fram. Í umsögninni segir að doktorsnemar og nýdoktorar (post-docs) eru oft mest drífandi í rannsóknum og eru líkur á að slíkur hópur ungra fræðimanna komi með nýja sýn, sem Landssamband smábátaeigenda virðist telja mikilvægt. Í doktorsnematorfu kæmu leiðbeinendur frá rannsóknastofnunum innanlands og erlendis, sem tryggir að verkefnin yrðu unnin í samvinnu við íslenskt rannsóknaumhverfi en þó faglega óháð því. Áhugarverð rannsóknarspurning gæti t.d. verið hvort hægt sé að auka sjálfbærnistig sjávar og þá hvernig.

Háskólasetrið vill að við þetta tækifæri verði stofnuð doktorsnematorfa. Það vill gjarnan halda utan um doktorsnematorfu og vinna að rannsóknaspurningunni í samvinnu við Landssamband smábátaeigenda og Rannsóknaráð Íslands.“

Fréttirnar í heild er hér að finna:

http://www.bb.is/?PageID=26&NewsID=113543
http://www.bb.is/?PageID=26&NewsID=113545

Heimild: www.bb.is

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...