Vald án ábyrgðar - Landssamband smábátaeigenda

Vald án ábyrgðar


Í Fiskifréttum hinn 28. febrúar s.l. birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, undir fyrirsögninni „Vald án ábyrgðar":

Ég ætla að taka upp þráð sem ég rakti fyrir stuttu á þessum vettvangi. Þar greindi ég frá því hvernig umhverfissamtök vinna beinlínis gegn sjávarútvegi, ekki bara hinum íslenska, heldur almennt. Ég vakti athygli á bréfsnepli sem WWF (World Wide Fund), stærstu umhverfissamtök heims, dreifa nú í Evrópu, þar sem fiskitegundir eru flokkaðar eftir lit umferðarljósanna. Þar er “þorskur úr Atlantshafi“ á rauðu, boðskapurinn til neytenda sá að fá ekki svartan blett á tunguna með því að stinga þorskbita uppí sig.
Það er langt síðan ég hóf að skrifa um andvara- og aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda og hagsmunasamtaka gagnvart þeim áróðri/óhróðri sem fjölmörg umhverfissamtök hafa uppi gegn fiskveiðum - og að þetta tómlæti gæti reynst okkur dýrkeypt. Ég vona sannarlega að meðvitund innan sjávarútvegsins og víðar sé að aukast um það hversu gríðarleg áhrif þessi samtök hafa orðið á alla umræðu um fiskveiðar, fiskeldi og sjávarútveg almennt. Ekki síst á stærsta markaðssvæði okkar - Evrópu.

Hafa tekið umræðuna í sínar hendur


Ég hef á annan áratug tekið þátt í starfi strandveiðimanna á alþjóðlegum vettvangi. Því hef ég haft tækifæri til að fylgjast með þróun þessara mála og m.a. séð hvernig umhverfissamtökum hefur á stuttum tíma tekist að taka stóran hluta umræðunnar um málefni hafsins í sínar hendur. Í allnokkur skipti þegar mér hefur verið boðið að ávarpa virðulegar "sjávarútvegssamkomur" hef ég spurt í upphafi máls hversu margir í salnum væru, eða hefðu einhvern tíma verið, fiskimenn. Ég hef aldrei þurft að nota fingur beggja handa til að telja þá einstaklinga. Skiptir þar engu þó salurinn hafi verið stór og þéttsetinn.

Áhrifa MSC farið að gæta hér á landi


Hér á landi finnst nú þegar skjalfest dæmi um áhrif þessarar þróunar. Trillukarl sem lengi vel seldi fiskinn sinn til smásölukeðju í Evrópu hefur nú misst viðskiptin vegna þess að hann er ekki með MSC umhverfismerkingu. MSC - Marine Stewardship Council - er skilgetið afkvæmi WWF og Unilever. Þessi sami smásali (reyndar ekki neinn "smá" sali) hafði áður haft fyrir því að senda mannskap til Íslands til að fylgjast með okkar manni við veiðar, mynda allt í bak og fyrir og heljarinnar lof fest í letur um vistvænan veiðiskap og sjálfbærni sem síðan birtist í fréttablaði fyrirtækisins.
Fyrir stuttu breytti það um pólitík og gaf út yfirlýsingu um að framvegis myndi það einungis selja fisk sem væri umhverfismerktur - eða frá þeim sem væru með fiskeldi. Eigið mat á gæðum þess sem íslenski trillukarlinn var að gera varð á augabragði einskisvert. Hann var nú dæmdur óhæfur - „ósjálfbær“ og „óvistvænn“. MSC merkið er gullkálfurinn sem dansinn skal stiginn um.

Misstu grímuna - eitt augnablik - en samt!


WWF hefur reynt að skapa sér þá ímynd að samtökin séu "vinir litlu fiskimannanna" og að þau séu ábyrgðarfull og flestum færari um að fjalla um umhverfið í höfunum og velferð lífríkisins. Upp úr miðjum janúar misstu samtökin þó grímuna. Þau hrintu úr vör herferð á heimasíðu sinni undir nafninu "Stinky Fish", herferð sem samanstóð af stuttum myndbandsskotum þar sem fiskur í brúðuformi (Prúðuleikaraútgáfu) spyr almenning á götum úti hvernig fisks sem hann hafi keypt sé aflað - og upplýsir að ef hann sé ekki merktur MSC, sé hann "Stinky".
Þetta vinabragð WWF gagnvart sjávarútveginum fór eitthvað skakkt ofaní menn innan greinarinnar í Evrópu og rigndi bréfum yfir WWF í kjölfarið. Myndböndin sem sett höfðu verið á netið voru snarlega fjarlægð. Reynið t.d. að blikka á myndbandið á þessari vefslóð: http://blogfishx.blogspot.com/2008/01/stinky-fish-campaign-backfires.html
Ég "niðurhalaði" mestu af þessum dásamlegheitum í tíma og geta áhugasamir haft samband til að fá það sent. (arthur@smabatar.is).
Valdið sem þessi samtök hafa lýsir sér í því að forsvarmenn a.m.k. bresku sjávarútvegsfyrirtækjanna skrifuðu áðurnefnd bréf þar sem þau hvöttu WWF til að hætta við herferðina "til að lágmarka skaðann sem samskipti þeirra við "frjáls félagasamtök" hefðu orðið fyrir”. Óttinn skín í gegn.
Enda er herferðin ekki dauð. WWF leggur ekkert niður skottið. Á heimasíðu samtakanna eru leifarnar af herferðinni að finna: http://www.panda.org/about_wwf/what_we_do/marine/our_solutions/sustainable_fishing/stinky_fish/index.cfm
Ég skora á lesendur að fara inná þessar síður til að sjá þetta með eigin augum. Í þessu kristallast það ægivald sem þessi samtök hafa orðið yfir umræðunni. En hvar er ábyrgð þeirra gagnvart þeim afleiðingum sem áróður/óhróður þeirra getur haft? Hún er slétt engin.

Þriðja reiðarslagið?


Ég þarf ekki að eyða orðum í hvers konar kjaftshögg 30% niðurskurður í þorskveiðum er. Ég þarf ekki heldur að eyða orðum í hvers konar reiðarslag stöðvun loðnuveiða er - hvort sem þær eru umdeildar eða ekki. En við þurfum að selja þann fisk sem við megum veiða. Sofandaháttur gagnvart þeirri umræðu sem er í gangi á mikilvægustu markaðssvæðum okkar getur reynst þriðja kjaftshöggið - jafnvel það þyngsta.

Umhverfissamtökin, vísindin og pólitíkin


Við Íslendingar viljum taka okkar eigin ákvarðanir. Við viljum ráða því hvernig við högum fiskveiðunum og hvort við veiðum hval. Hvalveiðar eru að öllum líkindum úr sögunni - þökk sé umhverfissamtökunum. Hvernig við högum fiskveiðunum er illu heilli ekki lengur alfarið undir okkur sjálfum komið. Hin vísindalega ráðgjöf er það sem umhverfissamtökin taka mark á - fiskimennina virða þau ekki viðlits. Öll “umframkeyrsla“ er illa séð og þess er ekki langt að bíða að allar tilslakanir stjórnvalda frá vísindalegri ráðgjöf verða úthrópaðar sem óábyrgar og óásættanlegar ákvarðanir. Það þarf ekki mikla ágiskunarhæfni til að sjá hverjir verða öflugustu bakhjarlar Hafró í framtíðinni.
Þetta er sá raunveruleiki sem við blasir. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þarf sjávarútvegurinn að einhenda sér í að umhverfismerkja íslenskar fiskafurðir - og það án þess að koma nálægt MSC.

Arthur Bogason

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...